Tuesday, January 25, 2022

Stólaleikur húsnæðisskorts

Það er stundum sagt að skortur sé nauðsynlegur til að verðmyndun sé eðlileg. Það er auðvitað bull, því það er hægt bara að reikna út uppsafnaða vinnu sem er á bak við vöru eða þjónustu.

En þetta er ekki "bara" bull. Þetta er hættulegt bull. Að minnsta kosti þegar kemur að nauðsynjum. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að enginn er að krefjast þess hér á landi, að tekinn verði upp skortur á drykkjarvatni.

En það er pólitísk ákvörðun að hafa skort á húsnæði. Og myndar hann verð? Já, aldeilis: skorturinn skrúfar upp verðið svo til vandræða horfir. Flestir borga miklu meira fyrir húsnæði en þeir þyrftu ef félagslega stýrð áætlun réði ferðinni í stað markaðarins. Í stað andfélagslegra mannasetninga.

En skortur þýðir líka einfaldlega að það verða alltaf einhverjir sem fá ekki. Hér: sem fá ekki að eiga heima neins staðar. Þetta er mannasetning.

Í stólaleik er alltaf einhver í hverri umferð sem fær ekki sæti og er úr leik. Það er staðreynd. Þekkt staðreynd sem stjórnvöld eiga að vita. Skömm sé þeim.

No comments:

Post a Comment