Wednesday, November 7, 2007

Reykjarbólstrar og þyrlugnýr um nótt

Upp úr miðnætti opnaði ég bakdyrnar og brá mér út fyrir til þess að reykja eina sígarettu. Mikill gnýr var úti, og gekk ég aftur fyrir Klepp til að sjá hvað væri á seyði. Þyrla -- mér sýndist það vera þyrla Landhelgisgæslunnar -- hnitaði hringa yfir Sundahöfn og ljóskeilu sló frá henni niður yfir sundin, en mest á skip á höfninni. Fleiri ljóskeilur sá ég, eina sem mér sýndist vera frá skipinu og mér sýndist ég sjá tvær til viðbótar ofan úr einhverjum turnum nálægt því. Kleppskaft (klettur með nokkrum húsum) byrgði sýn, þannig að ég sá ekki annað af skipinu sjálfu en strompana, en mikla reykjarbólstra lagði frá því. Þeir kunna að hafa komið úr strompunum, en voru þó svo miklir að ég efast um það.
Jæja, síðan tala ég í síma við konu sem er á vakt uppi í risi hér á Kleppi. Hún hafði skiljanlega betra útsýni, og sagði mér að hún sæi tvo litla dráttarbáta úti á sundunum, og tollara keyra um, meðal annars á Kleppskafti hérna steinsnar frá, og henni sýndist skipið vera merkt Eimskipafélaginu. Eitthvað var greinilega á seyði. Ekkert hef ég ennþá séð um þetta dæmi á Rúv, Mbl eða Vísi, en verð að segja að ég er nokkuð forvitinn.
Var brennandi skipi siglt inn á Sundahöfn? Var verið að bösta heilan skipsfarm af Vítisenglum? Hvað? Hvað?

No comments:

Post a Comment