Wednesday, November 21, 2007

Bíræfni, ófyrirleitni, gnístran tanna

Ég fór á Þjóðarbókhlöðuna á mánudagskvöldið, skildi hatt minn, jakka og trefil eftir í fatahenginu eins og ég er vanur, og leit síðan á tölvuverið. Undi mér þar í á að giska klukkutíma og stóð síðan upp til þess að yfirgefa svæðið.

Ég gekk berhöfðaður heim. Einhver asni hafði verið svo óprúttinn að taka hattinn minn úr fatahenginu. Ég var rændur!

Hatturinn hefur ekki komið í leitirnar ennþá. Ég hef ekki alveg gefið upp vonina, en hún er satt að segja ekki mikil. Til bráðabirgða hef ég tekið gamalt pottlok í notkun, en er ekki eins ánægður með það og hattinn góða. Þessi hattur var keyptur í lítilli hattabúð í London í júníbyrjun 2002. Hann var hugsaður sem eins konar sólhlíf, þar sem ég var á leiðinni til hinnar sólríku Palestínu. Sem slíkur reyndist hann óaðfinnanlega; sólarljós sleppur illa í gegn um hnausþykkt leður.

Þegar ég kom heim hengdi ég hann upp á vegg, en nokkrum mánuðum síðar skall á ofboðsleg vætutíð. Valið stóð á milli þess að fara að nota regnhlíf eða að ganga með hatt; hatturinn varð fyrir valinu. Frá þeim degi hef ég notað hann í næstum því hvert einasta skipti sem ég hef farið út úr húsi, eins og þeir hafa séð sem hafa séð mig. Og nú virðist hann vera allur.

No comments:

Post a Comment