Monday, November 26, 2007

Hagkerfi með sótthita

Gullverð er barómeterinn sem er hvað áreiðanlegastur til þess að spá fyrir um veðrið í hagkerginu. Í augnablikinu er únsan í rúmum 820 dölum. Fyrir ári var hún á tæpa 650 dali. Fyrir tveim árum á 500 dali. Fyrir fimm árum í tæpum 350 dölum. Eftir 11. september 2001 STÖKK verðið upp í 290 dali únsan. Og núna er það um 820 dalir, sem áður sagði. Þeir sem vilja hafa sitt á þurru þegar kreppan kemur, kaupa gull.

Hver er skýringin? Jú, þumalputtareglan er að únsa af gulli kosti sirka sama og tíu tunnur af olíu. Verðið á olíutunnunni hefur verið á bilinu 85-100 dollarar undanfarinn mánuð. Gullverðið lætur ekki á sér standa. Það tók tind fyrir viku, en á eftir að snarhækka áfram. Tal um Íraksstríð eða yfirvofandi stríð gegn Íran er fyrirsláttur. Skýringin er einföld: Markaðurinn finnur að olían fer þverrandi. Hann finnur strax og eftirspurnin fer fram úr framboðinu. Hvað þá þegar hún hendist fram úr því. Eða, réttara sagt, þegar framboðið steypist niður úr eftirspurninni.

Gott fólk, olíukreppan nálgast. Ekki af pólitískum ástæðum og varla einu sinni af hagfræðilegum ástæðum heldur. Ástæðurnar eru jarðfræðilegar. Reynið bara að deila við þann dómara.
--- ---- ---- --- ---- ---- ---
Það er grein eftir mig á Egginni í dag, um frönsku verkföllin: Hvað er með Frökkum? Lesið hana. Hrósið henni.

No comments:

Post a Comment