Tuesday, March 13, 2007

Vantrú, Zimbabwe, VG, klám...

Það er grein eftir mig á Vantrú í dag, Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni I: Opnið augun heitir hún. Framhaldsgreinar munu birtast á næstu dögum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þetta auðlindaákvæði í stjórnarskrá er fíflaleg markleysa, móðgun við kjósendur. Ingibjörgu Sólrúnu fannst mér
mælast vel um það í Mogganum, hvað sagði hún, að með þessu væri verið að bregðast við vilja landsmanna með blekkingu? Eitthvað á þá leið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef lesið margt og mikið að undanförnu. Ein allrabesta lesningin held ég samt að hafi verið svar Kristins Hrafnssonar, fyrir hönd Kompáss, við gremjuskrifum Karls Sigurbjörnssonar, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, vegna Kompássþáttar fyrir skemmstu. Ef þetta fór framhjá einhverjum, þá má sjá bæði bréfin á vef Kompáss. En sú flenging.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú taka einhverjir andköf vegna slæmrar meðferðar á Morgan Tsvangirai í Zimbabwe, og hreyfingar hans MDC. Ég er ekki sannfærður um að MDC sé neitt fýsilegri kostur en ZANU-PF Mugabes. Man einhver eftir Ian Duncan Smith núorðið? Hann leiddi apartheidstjórnina sem Mugabe og hans menn komu frá á sínum tíma. Hann er í MDC núna. Það þýðir væntanlega að hann sjái MDC sem andstæðing sem gæti ógna ZANU-PF, frekar en að apartheid sé í aðsigi aftur -- en ég sé það nú sem bjarnargreiða að fá stuðning þannig karla. Zimbabwe er í kaldakoli, það er kunnara en frá þurfi að segja, en ég held að MDC sé ekki það sem landsmenn vantar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Egill Helgason hefur farið mikinn (1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8 o.fl. til skýringar) að undanförnu og hamast gegn okkur „öfgamönnunum“ sem vogum okkur að mótmæla trúboði í grunnskólum. Ég veit ekki hvað ýfði svona á honum stélið, en fyrr má nú vera. Ef Egill færi að mínum ráðum mundi hann núna slaka vel á og reyna að komast í betra jafnvægi.
Egill má samt alveg eiga það sem hann má eiga. Hann nefndi góðan punkt í grein sinni í gær, semsé að ungliðar í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði „eru ekki alveg búnir að gleyma róttækninni, þótt ýmislegt bendi til að flokksforystan ætli að að vera nógu skikkanleg til að hægt sé að bjóða henni inn á skrifstofur bankastjóra.
Þar stendur nefnilega hnífurinn í kúnni. VG er ekki sósíalistaflokkur heldur flokkur vinstri-krata sem ætla sér allt annað en að steypa kapítalismanum. Bylting er ekki á dagskrá hjá VG. Flokkur sem stefnir á samfélag þar sem hagkerfið er kapítalískt, getur ekki kallast sósíalískur samkvæmt mínum kokkabókum. Í þessu samhengi er vert að minna á grein Þórarins Hjartarsonar: Við þurfum öðruvísi flokk, um VG og ástæður úrsagnar hans nú í haust.
Ég er utan flokka. VG er vettvangur þar sem ég er þess fullviss að mínar grundvallarhugsjónir eiga sér ekki farveg. Hins vegar eru aðrar ástæður fyrir því að kjósa þau, að mínu hógværa mati: VG er eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem er trúverðugur í jafnréttismálum og í umhverfismálum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn skrifaði Matti grein á Vantrú, Vantrú fer í framhaldsskóla, þar sem kemur punktur sem mér finnst ónóg fjallað um:
Berum þetta saman við prestana sem eiga afar auðvelt með að herja á börn en þegar kemur að því að svara gagnrýni frá fullorðnu fólki virðist vera minni vilji eða geta, þá hlaupa prestarnir í skjól og vilja sem allra minnst segja.
Hvað getur maður sagt? „Látið börnin koma til mín.“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég þarf ekki að rifja upp fyrir fólki hver mín afstaða var í máli klámráðstefnunnar. Ég heyrði einhvers staðar minnst á að einhverjir hergagnaframleiðendur ætli að standa fyrir einhverju hér í sumar. Ég eftirlæt fólki að giska á hvað mér finnst um það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi annars um klám, ég held að Smáralindarbæklingurinn alræmdi geti ekki flokkast undir klám. Ég veit ekki hvernig var ákveðið að hafa þessa mynd eins og hún er, eða hvers vegna, en ég held að það sé ekkert athugavert við hana -- í það minnsta ekki það að hún sé á neinn klæmin.

No comments:

Post a Comment