Saturday, March 17, 2007

Samúð með níðingum og hugleiðing

Flestir hafa almennt litla samúð með níðingum, en því meiri með þeim sem verða fyrir níðingshætti. Ég er engin undantekning þar á. Annað slagið hendir mig það þó. Já, ég get fengið samúð með hinum verstu bófum. Besta leiðin til að láta mig fá samúð með níðingi, er að láta hann í hendurnar á öðrum níðingi sem níðist á honum. Þá er hann ekki lengur í hlutverki níðingsins, heldur kominn í hlutverk fórnarlambsins. Með þessum hætti hafði ég samúð með Saddam Hussein -- sem ég hafði andstyggð á -- frá því hann var niðurlægður fyrir alþjóð og skoðað upp í ginið á honum og honum leitað lúsa, þangað til hann mætti dauða sínum af stillingu og karlmennsku.

Annar er sá sem ég játa fúslega samúð með: Khalid Sheikh Mohammed. Fjölmiðlar éta það hver upp eftir öðrum að hann hafi játað ábyrgð á 11. september. Ég veit ekkert um hvað hann játaði. Allt sem ég veit -- sem er það sama og fjölmiðlar vita -- er að bandarísk yfirvöld segja að hann hafi játað þetta og fleira. Þar að auki er vitað að hann hefur verið pyndaður til andskotans og aftur til baka, á meðan hann hefur verið í haldi Bandaríkjamanna. Er eitthvað mark takandi á því sem menn segja þegar er verið að pynda þá? Ég játa fúslega að ég dauðskelfist tilhugsunina, og mundi örugglega játa að hafa skotið Olof Palme ef ég væri pyndaður nóg.

Í þessu máli hafa bandarísk stjórnvöld hagað sér af algerum níðingsskap. Það er svosem ekki í fyrsta sinn, og varla það síðasta. Hér eru fréttir fyrir þá sem ekki vissu: Það er ekki vitund mark á því takandi sem menn segja þegar er verið að pynda þá. Ekki vitund. Það er heldur ekki tilgangurinn með pyndingum. Böðlar og aðrir sérfræðingar í pyndingum vita það manna best að vitnisburður og játning pyndaðs manns er einskis virði. Nema að einu leyti. Vitnisburðurinn um hvað pyndingarnar voru hræðilegar -- hann vegur þungt. Hann fer eins og logi um akur og fólk áttar sig á því hvað bíður þeirra sem setja sig nógu mikið upp á Valdinu.

Pyndingar eru terrorismi. Þær gegna því hlutverki að láta fólki -- einkum hinum herskárri stjórnarandstæðingum -- renna kalt vatn milli skinns og hörunds. Pyndingar kunna að vera gefnar út fyrri að vera einhvers konar yfirheyrsla, en raunverulegur tilgangur þeirra er ekki upplýsingaöflun heldur refsing -- grimmileg refsing -- sem er ætlað að vera öðrum víti til varnaðar.

Það er síðan ekkert annað en ógeðslegt að sjá fjölmiðlana éta þetta hvern upp eftir öðrum, eins og hundur snýr aftur til spýju sinnar. Meint einskisverð játning er þarna notuð til að stimpla því inn í hausinn á fólki að nú sé málið upplýst, afgreitt. Því er logið að okkur.

Því fastar sem maður kreppir hnefann utan um sandlúku, þess meiri sandur rennur milli fingra manns. Hver trúir því að stríð gegn hryðjuverkum geti verndað Vesturlandabúa til eilífðar fyrir illum suðurálfubúum? Það er ekki hægt að útiloka allar leiðir og fyrir menn sem eru tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn er nóg að vera heppinn einu sinni. Fyrir utan þá dómadags heimsku Bandaríkjaforseta, ef hann vill ekki fá serkneskar sprengur í bandarískum borgum, hvað er þá best að gera? Jú: Færa Serkjum bandarísk skotmörk til Miðausturlanda! Þá sting ég frekar upp á að menn hætti að afla sér óvina með heimsvaldastefnu. Ég veit samt fullvel að sú uppástunga hefur varla nema áróðursgildi fyrir sjálfan mig. Ekki bið ég mink að láta hænsnabúið mitt í friði, eða hvað?

Þetta stríð gegn hryðjuverkum er fáránlegur skrípaleikur. Ég hef þegar nefnt að það er ekki hægt að útiloka allt, en þess utan er ekki hægt að ráðast á taktík. Mestu skiptir samt, að þetta svokallaða stríð gegn hryðjuverkum er alls ekkert stríð gegn hryðjuverkum. Þetta er hryðjuverk gegn fólki. Ein allsherjar, alhliða aðför að venjulegu, heiðarlegu fólki. Borgararéttindum sópað út af borðinu, eftirlit aukið til muna, skattpeningum veitt til hergagnaiðnaðar, málaliða og annarra ámóta erkióþokka. Hvað ætli við mundum hugsa um Bandaríkin, ef okkar helstu kynni af þeim væru að þau hefðu lokað fyrir vatn og rafmagn, drepið frændfólk okkar eða nágranna, og við mættum sífellt vera á verðbergi til að fá ekki sprengju í hausinn?

95. grein Almennra hegningarlaga er eitthvað á þessa leið:
Davíð Oddsson kallaði Saddam Hussein slíkum ónefnum í aðdraganda Íraksstríðsins, að ekki er hafandi eftir. Af hverju var hann ekki ákærður? Ætli þinghelgi hafi gert hann stikk? Talandi um það, þá var Robert Gabriel Mugabe kallaður afar óvirðulegum nöfnum í frétt í Morgunblaðinu í gær eða fyrradag. Væri rétt að kæra Styrmi Gunnarsson? Nei, ég bara spyr. Ætli þetta sé kannski ekki lengur refsivert?

No comments:

Post a Comment