Monday, March 5, 2007

Ungdomshuset rifið

Í þessum töluðum orðum er verið að rífa Ungdomshuset. Það er ömurlegt. Burtséð frá sögulegu gildi hússins, sem var friðað af þeim ástæðum á 6. áratugnum, og hefði eitt og sér átt að duga til að friða það áfram, þá verða víst einhvers staðar vondir að vera, er það ekki? Hvernig er það með pacta sunt servanda-regluna, gildir hún bara þegar hagsmunir auðvaldsins eiga í hlut? Eða bara þegar hagsmunir auðvaldsins eru öruggir? Einn góðan veðurdag var hústökufólkinu á Jagtvej lofað að það fengi að hafa þetta hús um ótiltekinn tíma. Jess, sigur, hafa þau hugsað.
Löngu seinna: Húsið selt utan af þeim. Krysslingasamtökum sem höfðu það vafasama markmið frá upphafi að koma þessum guði vanþóknanlega skríl á götuna. Oj bara, anarkistar, á götuna með þetta. Sagt er að Faderhuset hafi ekki verið hleypt inn í sitt eigið hús. Ljóta dellan:
Í fyrsta lagi var þeim ekki einu sinni hleypt inn í það til að skoða það áður en þau keyptu það. Þau vissu m.ö.o. vel að hverju þau gengu og vissu að það var ávísun á átök að ráðast á þennan illa þefjandi skríl.
Í öðru lagi var þeim boðin geysileg fjárhæð fyrir húsið, mun hærri en þau greiddu fyrir það til að byrja með, sem þau höfnuðu og sögðust ekki mundu selja það fyrir neina upphæð. Hús sem þeim hafði ekki einu sinni verið hleypt inn í til að skoða.
Í þriðja lagi: Eftir 25 ára uppbyggingarstarf ungdómsins sem húsið var kennt við, þá var húsið fyrir löngu orðið þeirra. Það stóð ónotað þegar þau tóku það yfir til að byrja með, þau byggðu það upp, og þá sé ég ekki að með sanngjörnum rökum sé hægt að halda öðru fram en að þau hafi áunnið sér rétt til að njóta þess áfram. Ef Faderhuset eignast húsið í vafasömum tilgangi aldarfjórðungi seinna, þá breytir það barasta engu. Ef Faderhuset hafa lögin sín megin, þá sýnir það bara að lögin eru ekki sanngjörn.

No comments:

Post a Comment