Friday, March 30, 2007

Dylgjað um öfgamenn

Ég er að verða langþreyttur á dylgjum um ónafngreinda „öfgamenn“ í náttúruvernd. Um hverja er verið að tala? Við hvern eiga menn við? Er verið að tala um skyrslettara? Eða líka ljóðalesara? Eða fólk sem skrifar undir áskoranir? Eða kannski bara fólk sem er búið að fá nóg af þessari andskotans stóriðjustefnu? Og hvað er eiginlega „umhverfisverndarsinni í jákvæðri merkingu“, eins og ég sá einhvers staðar?
Ég hef velt því fyrir mér hvort íbúar höfuðborgarinnar séu kannski áhugalausir um afdrif landsbyggðarinnar. Hvort andstaða höfuðborgarbúa við virkjanir og álver á Austurlandi sé blönduð skilningsleysi á atvinnumálum eystra, eða því um líkt. Eiginlega er ég ekki viss um hvað svarið er. Ekki það, að alhæfingar í þeim efnum eru innistæðulausar.
Hins vegar ergir það mig hvernig það er eins og það sé opið skotleyfi á Reykvíkinga í orðræðunni. Má maður ekki leggja til málanna, eða hefur maður kannski sjálfkrafa rangt fyrir sér, ef maður er Reykvíkingur? Er ástæðulaust að hlusta á skoðanir Reykvíkinga vegna þess að þeir séu ófærir um að hafa vit á málunum, nema þeir séu stóriðjusinnar?
Það er sterk fylgni milli meiri menntunar og meiri áhuga á umhverfisvernd. Ég skil ekki hvernig það getur verið umhverfisvernd í óhag í augum nokkurs manns. Nema þá að viðkomandi sé þjakaður af einhverri meinloku varðandi menntun.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég las grein eftir Salman Rushdie og fannst hún svo góð að ég ákvað að þýða hana yfir á íslensku. Þannig að nú getið þið lesið hana líka: Skilið mér aftur gamla góða trúleysinu!“ og birtist á Vantrú í fyrradag.
Í umræðum eftir greinina er einhver Gummi, sem vísar í ritdóm Joe Kay:
Science, religion and society: Richard Dawkins’s The God Delusion“ -- og það er skemmst frá því að segja, að ég vildi að ég hefði skrifað þennan ritdóm sjálfur. Þannig að ég mæli með því að fólk lesi hann líka. Grundvallarpunktur Kays er að árangursrík barátta gegn hindurvitnum verður naumast háð nema í pólitísku samhengi við aðrar, og víðari, félagslegar vígstöðvar.

No comments:

Post a Comment