Friday, June 16, 2006

Svör við svörum við svörum við...

Við síðasta innleggi hafa borist 2 svör sem ég legg hér með út af.
Parísardaman skrifar:

„Í höfuðborg mótmælaganga, París, er þumalputtareglan sú að ef fjöldinn fer yfir milljón, verður ríkisstjórnin að bregðast við og svara. Það jafngildir u.þ.b. 5.300 manns á Íslandi.
Ég neita að trúa því að ef miðbærinn fyllist af fólki 20 DAGA Í RÖÐ, yrði ekkert að gert. ... Er ég alger draumóramanneskja að telja það?“

Ef þú ert algjör draumóramanneskja að telja það, þá er ég líka algjör draumóramanneskja. Ef 6000 manns mundu mótmæla á götunum í 20 daga, þá er, held ég, ekki spurning að eitthvað yrði að gert. Vandamálið er bara að koma 6000 manns út á göturnar. Síðan er næsta vandamál, að halda fólki þar í þrjár vikur. Þetta yrði augljóslega varla gert að vetrarlagi. Ég held að undirskriftasöfnun gæti gert sama gagn. Man einhver eftir undirskriftasöfnuninni „Varið land“? Undirskriftum meirihluta íslenskra kjósenda var safnað gegn áformum vinstristjórnar um að segja Ísland úr NATÓ -- og ríkisstjórnin hætti við. 15.000 undirskriftir mundu ekki breyta miklu, en 150.000 undirskriftir mundur gera það. Þá er bara að safna þeim.

Nú ... það er vert að velta fyrir sér starfsskipulagi hópa sem berjast fyrir málstað ... þar eru auðvitað ýmsar leiðir færar. (Vegna þess að Birgitta nefndi Íslandsvini, þá er rétt að það komi fram að ég hafði Íslandsvini ekki sérstaklega í huga (þ.e.a.s. ekki frekar en önnur samtök) í síðasta innleggi.)

Það er skrítið og óeðlilegt ef fólk, sem hefur áhuga á að komast inn í starf grasrótarhreyfingar, getur ekki fundið innganginn. Það er ekki síður skrítið ef grasrótarhreyfing á ekki sjálf frumkvæði að því að fá fólk til liðs við sig sem skipuleggjendur, aktífista eða hugmyndasmiði. Maður hefði haldið að málstað á borð við umhverfisverndarstefnu veitti ekki af mannskap í slíka vinnu og aðra.

Fræðsla er úrslitamál. Málstaðurinn stendur og fellur með henni. Í þeim málum hefur margt gott verið gert og margt gott unnist, en ekki er örgrannt um að hún hafi haft nokkuð yfirbragð óskipulags. Yfirbragð skipulags vekur traust. Það er ástæðan fyrir því að það er eftirsótt í fræðslu- og áróðursefni.

Þegar ég nefndi að hreyfing (sama hvers eðlis hún annars er) með góða strategíu gæti hæglega leyft sér taktískt samstarf við auðvaldið (eða, ef út í það er farið, einhvern sem er ekki hluti af sömu hreyfingu), þá átti ég sérstaklega við að umhverfisverndarsinnar eiga vannýtta bandamenn (eða, ef við viljum orða það þannig, óvirkjað stórfljót...) í fyrirtækjum sem eru að tapa og tapa á heimskulegri efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Trekk í trekk koma fréttir af því að fyrirtæki á borð við Össur, Marel eða CCP tapi morð fjár á efnahagslegum aulahætti ríkisstjórnarinnar. Skyldu þessi fyrirtæki skella hurðinn ef þau væru spurð út í mögulegan stuðning við málstaðinn?

Birgitta segir: „við viljum samt reyna komast hjá því að vera félag í hírakísku samhengi, einmitt til að fólk fari ekki að líta svo á að þeir eigi baráttuna.“ Já, það er nú það ... ég kann satt að segja mjög vel að meta þessa hugsun, og sama má segja um stöðuga endurnýjun í grasrótarstarfi, en á hinn bóginn er ég smeykur við hana líka. Ég held að það sé vel hægt -- og að mörgu leyti betra -- að reka baráttuna þannig að endurnýjunin fari fram, en sé innan vébanda félagsskapar. Ég held að þannig verði starfsemin samfelldari, reynsla nýtist betur og -- haldið ykkur nú -- að sjálft starfið verið lýðræðislegra, það er að segja, ef félagið er vel rekið.

Að því sögðu tek ég fram að „vel rekið félag“ í þessum skilningi er álíka sjaldgæft og hvítir nashyrningar! Þ.e.a.s., félag sem hefur skipulag og vinnureglur en hefur um leið dýnamík og flæðandi, er þannig skipulagt að það sé sveigjanlegt en þó fært um að leiða baráttuna til góðs. Í bjartsýni minni tel ég fullar líkur á því að slíkt félag gæti gengið ljómandi vel. Þar með er vitaskuld ekki sagt að það sé eina færa leiðin -- ég vildi bara segja að ég held að margir séu óþarflega tortryggnir á „formleg“ félagsstörf sem slík og missi fyrir vikið af tækifærum og styrkleikum sem þau bjóða upp á.

No comments:

Post a Comment