Wednesday, June 14, 2006

„Drekkjum Valgerði“ II -- svör + frekari útlistun

Á föstudaginn var hratt ég því loksins í verk að skrifa hvað mér finnst um borðann alræmda, sem bar áletrunina „Drekkjum Valgerði en ekki Íslandi“ sem frægt er orðið.

Á athugasemdakerfinu komu metnaðarfull svör sem eiga skilið að lagt sé út af þeim, svo að hér með fylgi ég föstudagsinnlegginu eftir með gagnsvörum og frekari útlistun á því sem mér finnst og því sem mér finnst ekki.

Haukur viðurkennir að borðinn hafi verið vanhugsað glappaskot og bregður svo mér og öðrum sem ekki flokkast undir „herskáa umhverfisverndarsinna“ um nöldur, „vanþakklæti og læpuskap“. Það finnst mér óverðskuldað. Í fyrsta lagi kann ég vel að meta það sem mér þykir vel gert, og ég skal verða síðastur manna til að halda því fram að beinar aðgerðir hafi haft tóm vandræði í för með sér hingað til. Málið er, eins og fram hveru komið, að þær eru beggja handa járn. Sumar hafa heppnast vel, aðrar hafa heppnast illa. Það hlýtur að segja sig sjálft, er það ekki? Ég hef sjálfur, m.a. í félagi við Hauk, tekið þátt í nokkrum aðgerðum sem hafa verið misjafnlega beinar og misjafnlega vel heppnaðar. Ef það er læpuskapur að taka ekki þátt í aðgerðum, þá er ég semsagt ekki sekur um læpuskap. Ekki minnist ég þess þó að hafa tekið þátt í framkvæmd eða skipulagningu aðgerða sem hafa verið skaðlegar málstaðnum, svo að ég get ekki sagt að ég sjái eftir þeim sem ég hef tekið þátt í. Ef það er læpuskapur að vilja ekki ganga lengra og lengra, þangað til komið er út í vanhugsuð glappaskot, þá gengst ég fúslega við læpuskap og skal stoltur bera þá einkunn! Ég gengst ekki við því að vera vanþakklátur; það er nefnilega ekki vanþakklæti að gagnrýna það sem er gagnrýnisvert. Heyrði einhver mig nöldra yfir tjaldbúðunum við Kárahnjúka, hermannatjaldinu við Tjörnina, uppákomunni í Iðnaðar- og viðskiptráðuneytinu eða tónleikunum í Laugardalshöll? Nei, það voru líka, á heildina litið, vel heppnaðar aðgerðir. Ég áskil mér hins vegar fullan rétt til að nöldra af hjartans lyst yfir skyrslettum, kroti á Jón Sigurðsson og morðhótunum, enda voru það aðgerðir sem voru, á heildina litið, illa heppnaðar, að mínu hógværa mati – og flestra sem ég hef talað við.

Þegar hér er komið sögu er rétt að taka fram að aktífismi og beinar aðgerðir eru ekki málstaður heldur taktík. Taktík sem á stundum við, stundum ekki, og gerir lítið gagn ef hún er samhengislaus og helst ekki í hendur við strategíu, þannig að það er ekki hægt að fylgja eftir mögulega unnum sigrum. Það er tvennt ólíkt, bein aðgerð og bein aðgerð. Í eiginlegri, þröngri merkingu er bein aðgerð einfaldlega að grípa inn í einhverja atburðarás með beinum hætti, t.d. að hlekkja sig við byggingakrana svo að hann sé ónothæfur á meðan, eða taka herskildi hús sem yrði rifið ef það væri ekki fólk inni í því. Slík aðgerð er ekki gerð til þess að vekja athygli heldur grípa beint inní. Í óeiginlegri, víðari merkingu, þeirri sem vanalega er lögð í orðin, er áherslan í raun frekar á að ná athygli fjölmiðla og auka vægi málstaðarins í umræðunni. Slík aðgerð þarf, eðli málsins samkvæmt, að vera þannig útfærð að hún auki samúð almennings með málstaðnum en minnki hana ekki.

Ég má til með að minnast aðeins á skyrslettumálið í fyrra í þessu samhengi. Þau sem að því stóðu litu á það sem beina aðgerð í eiginlegri merkingu, ekki „PR stönt“ – málið vakti, skiljanlega, mikla athygli, og fjölmiðlar fjölluðu mikið um það, sem von var. En þeir gripu í tómt þegar þeir vildu fá viðtöl við aðstandendur: „Þetta var bein aðgerð, ekki PR stönt“ var svarið. Nú fannst mér þessi aðgerð vanhugsuð frá upphafi, en látum það liggja milli hluta. Úr því sem orðið var, úr því að kastljósi fjölmiðla var beint að málsvörum íslenskrar náttúru, hvers vegna þá ekki að grípa tækifærið og agitera fyrir málstaðnum? Er hægt að ætlast til þess að almenningur botni í pólitískum bakgrunni þess að sletta skyri á ráðstefnugesti? Það vill svo til að hliðstætt dæmi er til úr Íslandssögunni, nánar tiltekið frá 1972, þegar Helgi Hóseasson sletti skyrinu. Hann stendur ennþá, blessaður karlinn, á Langholtsvegi með skilti og hefur hvorki gengið né rekið með sinn málstað. Ekki nóg með að skyrsletturnar gerðu málstað hans ekki gagn, heldur gerðu þær hann að athlægi og menn töldu hann óðan. Með öðrum orðum, þær spilltu fyrst og fremst fyrir honum sjálfum. Illa spillt fyrir góðum málstað þar. Ég þarf svosem ekki að rekja þetta nánar, þessa sögu þekkja víst allir. Niðurstaðan var að það reyndist biskupi og þingmönnum auðveldara að ná blettunum úr fötunum, heldur en Helga að ná þeim af mannorðinu.

Þú segist ánægður með það þegar málstaðurinn fái umfjöllun,“ segir Haukur, „en beinar aðgerðir bjóði andstæðingnum tækifæri til að afvegaleiða umræðuna. Staðreyndin er að án umræðu fær málstaðurinn enga athyggli.“ Það er alveg rétt að athygli og umræða haldast óhjákvæmilega í hendur, en athyglin þarf að beinast að réttum atriðum til þess að umræðan snúist um rétt atriði, ekki satt? Aðgerðir sem vekja athygli eru góðar og gagnlegar EF og AÐEINS EF þær vinna málstaðnum gagn. Neikvæð umræða um hvað umhverfisverndarsinnar séu öfgafullir gerir málstaðnum EKKI gagn og það á ekki að rétt andskotum okkar, á silfurfati, tækifæri til að snúa umræðunni út í hvað við séum vitlaus og vitfirrt.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að jafnvel blóði drifin aðgerð getur á endanum haft jákvæðar afleiðingar. Ástæðan fyrir því að ég er ekki hlynntur þeim er samt, meðal annars, sú að hin tilhneigingin er miklu sterkari, að herskáar aðgerðir vinni sínum málstað ógagn, hversu góður sem hann annars kann að vera. Það heyrir til undantekninga, að herskáar aðgerðir séu ekki annað hvort strax brotnar á bak aftur með valdstjórn, eða snúið upp á þá sem framkvæma þær, og þeir málaðir upp sem heilaþvegnir (eða heilalausir) ofstopamenn. Misskiljið mig ekki; ég fordæmi ekki sjálfkrafa hvaða herskáu aðgerð sem er. Það sem ég meina er að herská aðgerð er neyðarúrræði og þess utan vandmeðfarið neyðarúrræði.

Þá kem ég aftur að strategíunni og skipulaginu. Herská aðgerð er valdbeiting, á sinn hátt. Valdbeiting er best til þess fallin að vekja ótta hjá andstæðingi sínum til þess að þvinga hann til þess að gera eitthvað eða gera eitthvað ekki. Ef það tekst að beita valdi, vekja ótta, og öðlast þannig völd, þá þarf líka að vera til áætlun um það, hvernig þessi völd eru notuð. Það þarf að vera til skipulag. Hvað á að gera? Ef líkingin við orrustu er tekin, þá þarf að fylkja liðinu og strategían og taktíkin þurfa að vera á hreinu. Annars er til lítils barist og vandséð að menn geti nýtt sér sigra sína.

Það verður varla of oft endurtekið, að nokkrir aktífistar – jafnvel þótt þeir séu 500 eða 1000 talsins – gera ekki byltingu. Sá eini sem er fær um að gera byltingu er hið vinnandi fólk í landinu, þ.e.a.s. almenningur. Baráttan stendur og fellur með því hvað almenningi finnst. Ef almenningi stendur á sama, þá gerist ekki neitt. Ef almenningur er andsnúinn málstaðnum gerist heldur ekki neitt. Ef almenningur hefur samúð með málstaðnum, þá gerist kannski eitthvað, en ef almenningi er gróflega misboðið, þá má bóka að eitthvað gerist. Í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar er um að ræða slíkt hryðjuverk gegn náttúrunni og gegn fólkinu í landinu (og þótt víðar væri leitað), að það er ekki óvinnandi vegur að leiða fólki fyrir sjónir hvað er verið að gera því. Síður en svo óvinnandi vegur. Málstaður stóriðjusinna er svo slæmur að þeir þurfa fokdýrar áróðursherferðir til að glepja fólki sýn, og samt tekst þeim ekki að glepja fleiri en raunin er.

Já, almenningur. Svo má brýna deigt járn að bíti, og víst er að næg dæmi eru til úr sögunni, þar sem almenningur hefur risið upp og gert höfðingjana höfðinu styttri. Slíkt getur gerst þegar öldur stéttabaráttunnar rísa sem hæst – og sú er ekki raunin á Íslandi í dag. Almenningur er ekki herskár. Það þýðir að herskáar baráttuaðferðir eiga ekki hljómgrunn meðal almennings. Það má því sjá það fyrirfram, að þær vinna ekki pólitískt kapítal, því grundvöllurinn er ekki fyrir hendi. Það sem hins vegar gerist, þegar herskár hópur hefur herskáar aðgerðir í friðþægðu samfélagi, er að almenningur firrist hópinn og, í einhverjum mæli, málstaðinn. Þeir sem þegar eru andsnúnir Kárahnjúkavirkjun snúast kannski ekki á sveif með henni, en þeir sem hafa ekki tekið afstöðu ennþá – það eru þeir sem væntanlega fyllast fordómum, margir hverjir, um hreyfinguna í heild vegna aðgerða lítils hóps. Þannig spillir herská aðgerð fyrir málstaðnum, með því að fæla frá mögulega bandamenn.

Auk þess er venjulegt fólk, það sem er á okkar bandi, ekki svo herskátt að það fari að hlekkja sig á hálsinum við vinnuvélar. Það fólk lendir í hlutverki áhorfandans. Almenningur býr yfir pólitískum kröftum sem ýtast ekki þegar hann horfir bara á. Það þarf pólitíska krafta til að lyfta pólitískum grettistökum, og þá krafta ber að laða að, ekki fæla frá. Baráttan og strategían verða að vera þannig úr garði gerð að almenningur hafi tækifæri til að taka þátt.
Tónleikar, undirskriftasafnanir = já.
Skyrslettur, morðhótanir = nei.

Í þessari talar þú um að skyrsletturnar hafi ekki skapað marga umhverfisverndarsinna.“ segir Haukur, „Það er rétt í sjálfu sér, en ég þekki tugi einstaklinga sem urðu róttækari og tilbúnari að mæta í mótmæli og jafnvel berjast með beinum hætti.“ Var það vegna skyrslettanna eða var ástæðan sú sama og fyrir skyrslettunum, semsagt sú að fólki hafi verið nóg boðið? Með öðrum orðum, var þetta orsök-afleiðing eða voru þetta tvær afleiðingar af sömu orsök? „Þú nefnir það líka að Náttúruverndartónleikar Hætta-hópsins hafi verið vel heppnuð aðgerð.“ heldur Haukur áfram. „Ég hitti múg manns sem ég kannaðist við þar og margir þeirra vissu ekkert um umhverfisvernd, var skítsama um hana og áttuðu sig jafnvel ekki á því að tónleikarnir snerust um þá baráttu.“ Það getur vel verið að margt fólk hafi komið á sjálfa tónleikana án þess að átta sig á hvað málið snerist um, en ég er nú samt býsna viss um að tónleikarnir hafi verið þungt lóð á jákvæðu hlið vogarskálanna í þessari baráttu. Í fyrsta lagi held ég að lang flestir sem á þá komu hafi áttað sig á hvað málið snerist um, þótt einhverjir hafi ekki gert það. Í öðru lagi held ég að þeir sem komu ekki á tónleikana, heldur sátu heima, hafi öðlast jákvæðari sýn á málstað náttúruverndar. Loks held ég að tónleikarnir hafi bætt móralinn hjá náttúruverndarsinnum sjálfum, en góður mórall í eigin herbúðum skiptir ekki litlu máli, og veitti reyndar ekki af í okkar tilfelli.

Haldast „mjúkar“ og „harðar“ aðgerðir í hendur? Já auðvitað, en þar með er ekki öll sagan sögð, öðru nær. Hvort sem aðgerð er hörð eða mjúk, þá getur hún heppnast eða hún getur misheppnast. Harðar aðgerðir vekja jafnan meiri athygli en um leið ómálefnalegri umræðu. Ef þær misheppnast, þá hafa þær tilhneigingu til að misheppnast verr en mjúk aðgerð sem misheppnast, vegna þess sem er lagt undir. Harðar aðgerðir eru vandmeðfarnar. Í fyrsta lagi þarf að vera ærið tilefni og ekki aðrir möguleikar en harka. Í öðru lagi þurfa þær að vera vel skipulagðar – þá kemur títtnefnd strategía enn og aftur til sögunnar – og ef planið er að beita ofbeldi til þess að neyða valdamenn til að hætta við eitthvað, þá þurfa síðast en ekki síst að vera nægar bjargir til þess að hægt sé að beita svo miklu, eða vel útfærðu, ofbeldi, að valdið komi ekki vörnum við! Hörð aðgerð sem lýkur með því að lögreglan kemur og hendir fólki út eða hífir það niður úr byggingakrana eða ekur því burt í járnum er málstaðnum ekki svo mjög til framdráttar. Athyglin sem menn uppskera er bæði of skammvinn og of neikvæð til þess að hún svari kostnaði.

Reyndar er ein ástæða enn fyrir því að ég hef ímugust á herskáum aðgerðum, ef það er á annað borð mögulegt að komast hjá þeim. Sú ástæða er reyndar hugmyndafræðilegs eðlis, en ég mundi ætla að yfirlýstir anarkistar gætu samsamað sig henni. Er stefnubreyting, sem er þvinguð fram með valdbeitingu, ekki í ósættanlegri andstöðu við frjálslynda (þar með talda anarkíska) hugmyndafræði? Það hefði ég haldið – en að sama skapi má ég til með að taka fram tvo fyrirvara: Annars vegar að í sumum tilfellum verður valdbeiting ekki umflúin sem hluti af strategíu byltingarhreyfingar, þegar öll önnur sund eru lokuð. Hins vegar er Kárahnjúkamálið og andstaðan við stóriðjustefnu stjórnvalda eitt mál, og baráttan sjálf eins máls barátta, og lýtur sem slík lögmálum eins-máls-baráttu: Markmiðið er takmarkað, baráttan snýst m.a. um að safna öllum mögulegum bandamönnum um einn málstað. Þessu má ekki gleyma.

Þú klikkir út með því að segja að beinar aðgerðir „herskárra“ umhverfisverndarsinna séu eigingjarnar og best til þess fallnar að orna þeim sjálfum en ekki málstaðnum.“ heldur Haukur áfram, „Þetta stafi m.a. af því að ALMENNINGUR GETI EKKI VERIÐ MEÐ í beinum aðgerðum. Í fyrsta lagi tel ég það algert regin kjaftæði. Ástæðan fyrir því að almenningur tekur ekki þátt í slíkum aðgerðum er þeirra eigin aumingjaskapur og ótti við yfirvald.“ Þetta fells ég ekki á. Ástæðan fyrir því að fæstir taka þátt í herskáum aðgerðum er ekki sú að fólk þori því ekki, heldur einfaldlega að flestir eru ekki herskáir. Flestir kæra sig ekki um að taka þátt í átökum. Flestum þykir málið heldur ekki varða svo miklu að þeim finnist það á sig leggjandi. Það eru alvarleg mistök að afskrifa allan almenning sem gungur og aumingja. Hver á að koma í veg fyrir forpokahátt stjórnvalda ef ekki almenningur sjálfur? Við og 10 vinir okkar gerum það ekki upp á eigin spýtur, svo mikið er alla vega alveg víst.

Eigingjarnar kalla ég þessar aðgerðir vegna þess að þær eru ekki til þess fallnar að vinna málstaðnum fylgi, heldur friða þær samvisku og særða réttlætiskennd þeirra sem vinna þær. Þær eru heldur ekki til þess fallnar að breyta stefnunni. Er þá von að maður spyrji hver tilgangurinn sé?

Það er án efa rétt, „að yfirvöld vildu frekar að 20 daga í röð gengju 6000 manns niður laugarvegin til að mótmæla á þann hátt heldur en að einn 20 manna hópur stöðvaði vinnu á Kárahnjúkum einu sinni.“ Enda hikar lögreglan ekki við að grípa inn í þegar fólk stöðvar vinnu við Kárahnjúka með beinum afskiptum, en engum lögreglumanni dettur í hug að skipta sér af fjölmennri, friðsamlegri mótmælagöngu. Mótmælagangan ein og sér breytir ekki svo miklu. Hún er bara taktík og, eins og önnur taktík, háð strategíu og skipulagi. Hún getur heppnast vel eða illa, en er umfram allt bara liður í stærra samhengi.

Þar með er athugasemdum Hauks svarað að sinni. Víkur nú athyglinni að athugasemdum Gumma.

Gummi segir: „Beinar aðgerðir hafa ýmis markmið, og ekki bara að draga að sér athygli. Þegar vel tekst til ná slíkar aðgerðir að afhjúpa fasíska tilburði og fáránleika andstæðinganna/valdhafanna og vekja almenning þannig upp af svefninum. Skiltið góða náði því reyndar, en fyrir algjöra slysni, jafn vanhugsað og kjánalegt og það var.“ Ég tel að þetta geti vel verið rétt athugað. Taktísk mistök okkar manna geta fyrir slysni snúist okkur í hag ef andstæðingurinn gerir ennþá asnalegri taktísk mistök, eins og Valgerður virðist hafa gert. Andstæðingurinn er ekki heimskur og lætur varla plata sig út í hverja vitleysuna á fætur annarri, hvað svo sem má segja um hann að öðru leyti. Það er því tæpast skynsamlegt að veðja á að hann endurtaki sömu taktísku mistökin aftur og aftur – og þess vegna þarf að hugsa aðgerðir betur. Sá sem teflir af sér, en bjargast vegna þess að andstæðingurinn teflir ennþá verr af sér, fer varla að nota það sem strategíu að tefla viljandi af sér, eða hvað?

Um skyrsletturnar og eftirmála þeirra: „Þegar einn mótmælendanna sagði að það þyrfti ekkert að útskýra málstaðinn, aðgerðirnar töluðu sínu máli, þá eiginlega datt þetta upp fyrir sig. Fólk verður að geta staðið fyrir máli sínu, ef ekki fylgir orðræða detta aðgerðirnar um sjálfar sig.“ Undir þetta tek ég heils hugar. Þótt það hafi ekki beinlínis verið ætlunin, tókst þeim að draga kastljósið að sér, eins og reyndar mátti búast við af eins fréttnæmri aðgerð og skyrsletturnar voru. Að nýta ekki kastljósið málstaðnum til framdráttar voru mistök.

Gummi skrifaði: „Það er líka þetta viðhorf ... að vita betur, hafa sannleikann sín megin, aðrir séu bara vitleysingar sem eru ekki búnir að átta sig á hlutunum sem fer öfugt í mig (og mörgum öðrum).“ Þetta tel ég ástæðu til að taka undir. Sko – þótt við séum þess fullviss, að okkar málstaður sé réttur, þá dugir sú sannfæring okkar ekki sem rök fyrir þeim sem er ekki sannfærður um það sama! Það dugir ekki að hafa rétt fyrir sér, til þess að aðrir sjái hlutina í sama ljósi og maður sjálfur þarf að útskýra hvers vegna maður hefur rétt fyrir sér og hvers vegna andstæðingurinn ehfur rangt fyrir sér. Ef maður gerir það ekki, þá ætti maður ekki að búast við því að vinna marga á sitt band.

Það er dagsatt að friðsamlegar mótmælaaðgerðir nokkur þúsund manna hrökkva skammt, a.m.k. einar og sér. Hvað með þrjúhundruðþúsundin sem sátu heima? Mótmælafundur fimmtíuþúsund manna mundi ekki duga til að fá ríkisstjórnina til að leggja af stóriðjustefnuna, en það mundi ekki duga neitt betur að höfuðkúpubrjóta tvo eða þrjá ráðherra, þótt einhverjum gæti þótt þeir eiga það skilið. Þvert á móti: Arfavitlausa stefnu, á borð við stóriðjustefnuna, þarf í fyrsta lagi að afhjúpa fyrir það sem hún er: Arfavitlaus. Eftir því sem almenningur áttar sig á því, þá myndast þyngri og þyngri undiralda í þjóðfélaginu. Þá undiröldu þarf að vera hægt að nýta í pólitísku skyni, og til þess þarf strategíu og skipulag.

Gummi skrifar: „Valdhafar fagna [friðsamlegum mótmælaaðgerðum] að vissu marki, þá geta þeir sýnt að þeir leyfi mótmælin, lýðræðið sé í heiðri haft. Og ekkert breytist. Ekkert skrýtið þótt sumir gangi lengra.“ Satt og rétt. Það er ekkert dularfullt við að sumir vilji ganga lengra heldur en mótmæli sem engin áhrif hafa vegna skorts á strategíu. Og fjandinn, það er deginum ljósara að friðsamlegur útifundur, sem engin áhrif hefur, er rós í hnappagat þess stjórnmálamanns sem getur þannig sýnt hvað hann sé umburðarlyndur – og staðfastur.

Gummi heldur áfram: „Annar galli við batterí eins og Íslandsvini er híerarkíið sem óhjákvæmilega myndast (hópur fólks ákveður, þeir sem taka þátt í mótmælunum eru þátttakendur í því sem aðrir ákveða, ekki gerendur, o.s.frv.).“ Híerarkía myndast óhjákvæmilega í öllum hópum. Sumir hljóta óhjákvæmilega að taka forystuna, enda eru sumir betur til forystu fallnir en aðrir, því er ekki að neita. Þá vaknar enn sú stjórnlistarlega (strategíska) spurning, hvernig stendur forystan sig? Hópurinn hefur verkefni, sem í þessu tilfelli er að stöðva stóriðjustefnu stjórnvalda. Til þess að hægt sé að leysa úr því verkefni þarf að tromma upp allt það pólitíska kapítal sem hægt er, fá almenning á sitt band og – í þessu tilfelli – auk þess er umtalsverður hluti auðvaldsins sem hefur sömu hagsmuni og eru sjálfsagðir bandamenn. Þessi málstaður snýst ekki um að koma aá breyttu þjóðskipulagi þar sem er ekkert auðvald, þannig að ég sé ekki hvers vegna ekki er hægt að nýta bandamenn úr röðum auðvaldsins eins og aðra. Málstaðurinn verður að vera í fyrsta sæti. „Öll tiltæk ráð“ fela meðal annars í sér að samstarf við auðvaldið komi til greina.

Eini mælikvarðinn á það, hvernig forysta stendur sig, er vitnisburður verka hennar. Ef forystunni gengur vel að leiða baráttuna, fá bandamenn, vinna fólk á sitt band og opna fylkinguna fyrir viljugum stuðningsmönnum, þá stendur hún sig vel, annars ekki. Að ýmsu þarf að gæta, auðvitað, svosem að hreyfingin verði ekki infiltreruð og kompromíseruð af andstæðingnum. Það er þekkt taktík hjá valdinu að infiltrera hreyfingar með agentes provocateurs – útsendurum sem slást í hópinn og efna til vandræða á viðburðum, aðallega með því að egna lögregluna til ofbeldis. Andstæðingnum er óneitanlega mikill greiði gerður með því að spara honum það, að hafa agentes provocateurs á launaskrá hjá sér!

Mér, fyrir mitt leyti, hefur fundist hreyfing náttúrverndarsinna standa sig að ýmsu leyti vel, en ef það er eitthvað sem mér hefur ekki þótt of mikið gert af, þá er það að breiða út faðminn fyrir fólki sem hefur áhuga á að vera með en veit ekki hvert það á að snúa sér og hefur það ekki í sér að grafast fyrir um það. Taka ber fram, að það virðist vera skýr fylgni milli þess að eftir því sem hópur er herskárri, þess erfiðara er að taka virkan þátt í starfi hans!

Víkur næst að Einari bróður og athugasemdum hans: „Persónuárásir eru árásaraðilanum til mestrar minnkunar, sama hver á í hlut.“ Sammála því. „Það að þið birtist í Fréttatímanum þýðir ekki átomatískt að þið fáið fólk í lið með ykkur.“ Það er satt, það þýðir það ekki. Algengt er að fréttatímar snúist um eitthvað óvinsælt, og að viðtöl séu tekin við fólk sem er, af einhverjum ástæðum, milli tannanna á öðru fólki. Í þessu tilfelli má kannski þakka Valgerði Sverrisdóttur það sérstaklega, að hafa snúið málinu sjálfri sér í óhag með því að kæra Íslandsvini og reyna að blanda vinstri-grænum í þetta, eins og fáráður.

Einar ritar: „Ýmsir hafa líka misst trú á að þeir geti haft áhrif og það er mjög auðvelt að telja fólki trú um það. Þú verður líka að venjast þeirri hugsun að það hugsa ekki allir eins og þú eða hópurinn og versta leiðin til að fá fólk á sitt band er að gera lítið úr því eða skoðunum þeirra.“ Ég held að ég geti tekið heils hugar undir þetta ... hef annars í sjálfu sér ekki meiru við að bæta.

Einar skrifar: „Sterkasti leikurinn væri að biðjast formlega afsökunar,“ – merkilegt nokk, þá er ég ekki sammála því. Ég held að úr því sem orðið er væri sterkasti leikurinn að viðurkenna að þetta hafi verið vanhugsað (eins og hefur verið gert) en neita að biðjast afsökunar, og segja frekar að stjórnvöld eigi að biðjast afsökunar (en það hefur einnig verið sagt, ef mig misminnir ekki). Þannig að ég held að eftirmál þessa borða hafi að ýmsu leyti verið vel spiluð. Því neita ég ekki. Loks væri sterkur leikur að læra af þessari reynslu en vona að öðru leyti að almenningur verði sem fljótastur að gleyma honum.

Þið stæðuð eftir sem meiri menn og það myndi efla pólítískt kapítal ykkar.“ segir Einar, „Í stað þess að fá á ykkur neikvæðan stimpil lituð þið út eins og fólkið sem hafði þá reisn og þroska að viðurkenna mistök sín.“ Það er ekki nauðsynlegt að biðjast fyrirgefningar þótt maður viðurkenni að hafa gert mistök. Mikilvægast er að mistökin endurtaki sig ekki, að maður læri af reynslunni. Símon Bólivar sagði: „Góða dómgreind öðlast maður með reynslunni, reynslu öðlast maður með slæmri dómgreind.

Ég vil að lokum taka fram, að þótt gagnrýni mín sé mikil að vöxtum og alvarlegs eðlis, þá hefur það ekki hvarflað að mér eitt augnablik, að afneita þeim sem stóðu að þessum borða. Mín gagnrýni felur ekki í sér afneitun heldur þvert á móti er hún ætluð sem stuðningur við málstaðinn, og til þess að skýra hvers vegna mér finnst að sumir þyrftu að hugsa aðferðafræði sína nánar.

Ég læt þessari langloku lokið að sinni, en er reiðubúinn til frekari umræðu á þessum vettvangi eða öðrum ef ástæða er til.

No comments:

Post a Comment