Friday, June 9, 2006

„Drekkjum Valgerði“

Ég átti víst alltaf eftir að segja meiningu mína á borðanum fræga sem var í göngu Íslandsvina á dögunum. Mér finnst hann barnalegur, heimskulegur, vanhugsaður, ómálefnalegur og óviðeigandi. Það hefur talsvert verið fjallað um hann. Ég lít á það sem útúrsnúninga og undanbrögð, þegar því er haldið fram að í raun hafi verið átt við stóriðjustefnuna. Það stóð samt „Valgerði“, ekki „stóriðjustefnunni“ á borðanum. Er ætlast til þess að fólk lesi hugsanir þeirra sem gera svona borða? Ekki það, að manneskja með fullu viti tekur svona borða varla alvarlega.

Davíð Þór Jónsson hefur skrifað um þennan óheppilega borða, Stefán Þór Sæmundsson einnig, og fleiri. Ég hef í sjálfu sér varla fleiru við það að bæta. Samt svolitlu.

Svona borði gagnast málstaðnum ekki, um það er ég fullviss, og mér finnst ekki bara of langt gengið, heldur líka ástæðulaust að beina persónuárásum að einstökum stjórnmálamönnum með þessum hætti. Borgaralegir stjórnmálamenn eins og Valgerður eru hver öðrum líkir. Ef hún stæði ekki í þessum hermdarverkum, þá væri bara einhver annar sem væri iðnaðarráðherra og væri að því. Þegar persónu Valgerðar er kennt um, þá er gefið í skyn að þetta væri betra ef einhver annar [borgaralegur] stjórnmálamaður sæti við stjórnvölinn. Þar með er ekki sagt að hún sé saklaus - hún er það ekki - en persóna hennar er ekki rót vandans og dauði hennar mundi auðvitað ekki breyta stefnu stjórnvalda.

Það hefur verið minnst á skyrsletturnar frægu í þessu samhengi. Sú líking er ekki fráleit. Það er kvantítatífur munur á þessu tvennu, auðvitað, en kvalítatífur er munurinn ekki. Hvorug aðgerðin er málstaðnum til framdráttar. Helst væri það málstaðnum til framdráttar að þær gleymdust sem fyrst. „Líttu á skyrsletturnar,“ var sagt í mín eyru, „allir sögðu að þær væru vanhugsaðar, en hver varð niðurstaðan? Umhverfisvernd óx fiskur um hrygg!“ Heyr á endemi! Þetta er skólabókardæmi um post hoc-rökvillu! Ég lýsi eftir þeim manni sem snerist, að eigin mati, á sveif með umhverfisvernd vegna skyrslettna eða drekkingarborða! Gefi hann sig fram, og ég skal sýna ykkur furðufugl!

Hinn herskái armur umhverfisverndarsinna kann á því lagið að draga að sér athygli. Ég játa fúslega að það er gott að málstaðurinn fái athygli, en hana hlýtur að mega fá með öðrum hætti. Ég tel t.d. að náttúruverndartónleikar Hætta-hópsins 6. janúar sl. séu fyrsta flokks dæmi um vel heppnaða aðgerð. Herskáar aðferðir eru beggja handa járn, þær láta málstaðinn líta illa út (í augum sumra), þær færa óvininum átyllur til að leiða umræðuna enn frekar afvega, og þær eru því (oft) taktísk vindhögg.

Fyrir málstaðinn er samt kannski verst að herskáar aðferðir eru oft eigingjarnar. Þær fróa hinum herskáa og nokkrum herskáum vinum hans, en hinir – venjulega fólkið sem árangurinn veltur þrátt fyrir allt á – eru settir í stöðu áhorfanda frekar en þátttakanda. Fjöldaganga + útifundur eða risastórir tónleikar gera hinum almenna, friðelskandi umhverfisvini auðvelt að vera með. Skyrslettur, níðstangir eða hjólalásar um vinnuvélar og hálsa gera það ekki. Herskáar aðferðir eru því pólitískt firrandi og vinna að því leyti gegn málstaðnum. Baráttan gegn eyðingu hálendis Íslands er alvörumál. Það er í lagi að gera hana skemmtilega, en hún er ekki einhver leikur og það er ekki í lagi að spilla fyrir henni með Rambó-töktum sem eru í óþökk næstum allra.

Jákvæð barátta laðar fólk að málstaðnum; neikvæð barátta fælir það frá.

No comments:

Post a Comment