Thursday, June 8, 2006

ALCOA og orkuverðið

„Old news“ segir Már Örlygsson um það, sem að mínu mati er frétt vikunnar. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, hefur einnig bent réttilega á að fyrir tæpum mánuði síðan greindu NVSÍ frá því á heimasíðu sinni að söluverðið væri um 1,20 kr á kílówattstund, samkvæmt heimildum sem NVSÍ tilgreina ekki en segja öruggar. Ekki rengi ég það, og niðurstaðan er líka nokkurn veginn sú sama.

Páll Ásgeir Ásgeirsson fer nánar ofan í sumt og auðgar fréttina með sinni eigin eftirgrennslan, og á þakkir skildar fyrir. Varla hefði hann samt ofreynt sig þótt hann hefði vísað í ísbrjótinn sem ruddi þessari frétt leið upp á yfirborðið, Eggin.net.

(Ath., uppfært: Páll hefur fylgt færslu sinni í gær eftir með annarri, hreint ágætri, færslu í dag, þar sem hann m.a. getur þess að Eggin.net hafi vakið athygli hans á málinu.)

Ég get nú ekki alveg tekið undir með Má. „Old news“ er fréttin auðvitað í þeim skilningi að þessar upplýsingar eru ekki alveg nýjar – en hún er hins vegar ekki „old news“ í þeim skilningi að það sé gagnslaust að flytja hana vegna þess að fólk viti þetta nú þegar. Í sjálfu sér er skiljanlegt að Landsvirkjun vilji hvorki játa né neita upplýsingunum, en það verður samt varla sagt að verðið hafi verið á vitorði margra annarra en innvígðra stóriðjusinna.

Gildi þessarar fréttar núna felst kannski helst í athyglinni sem hún beinir að þeim smánarsamningum sem Landsvirkjunar-kvislingarnir gerðu fyrir okkar hönd. Svíkja fjallkonuna í böðla hendur fyrir 30 silfurpeninga. Þá er athyglisvert, að mínu mati, að upplýsingarnar, sem Landsvirkjun hefur legið á eins og skoffín, skuli koma frá ALCOA-mönnum sjálfum. Landsvirkjun fer með þetta eins og mannsmorð (viðeigandi) en ALCOA-menn leggja þetta á glámbekk og afhjúpa þannig lítilsvirðinguna enn frekar.

Það nýjasta er að ALCOA „biðst afsökunar á þessu leiðinda atviki“ og veit greinilega upp á sig skömmina. Ég, fyrir mitt leyti, dreg það samt í efa að samviskan nagi þá svona. Frekar tryði ég viðskiptahagsmunum til að stýra klofinni tungu þeirra. Friðrik Sophusson segir upphæðina ranga, sem hermd hafi verið upp á samninginn. Það er þá greinilegt að einhver er að ljúga að einhverjum. Annað hvort lýgur Friðrik að Íslendingum, til að bjarga eigin skinni, eða að ALCOA lýgur Brasilíumönnum til að þvinga niður verðið hjá þeim. Nema báðir ljúgi, það kemur auðvitað líka til greina.

No comments:

Post a Comment