Saturday, June 10, 2006

Af Hamas, ALCOA og strætó

Qassam-herdeildirnar skjóta eldflaug á Ísrael. Með því, segir Mbl.is, rjúfa Hamas-menn einhliða vopnahlé sitt. Kommon, Ísraelar hafa haldið uppi hernaði þetta eins og hálfa ár sem Hamas hafa haldið einhliða vopnahlé, og meðal annars drepið marga Hamas-aktífista og svo auðvitað urmul óbreyttra borgara. Hvað eiga meðð að sitja lengi með hendur í skauti? Sögðust þeir hafa lagt niður vopn? Nei: Einhliða vopnahlé er tilboð. Hinn aðilinn (Ísrael) þarf ekki annað en koma með vopnahlé á móti til þess að menn geti farið að tala saman. Ekki það, að viðræður eru á sinn hátt fjarstæða. Hver er samningsstaða Palestínumanna? Hvað geta þeir komið með að samningaborðinu? Hersetin, bláfátæk þjóð, að miklu leyti á vergangi í nágrannalöndunum og höfuðsetin af andskotum sínum, gráum fyrir járni... Ekki beysið, ef þið spyrjið mig.

Ég er hræddur um að mitt besta svar við vandamálum Palestínumanna (og Ísraela) sé það sama og við svo mörgu öðru: Byltingu, takk. Undirstétt Miðausturlanda ætti að taka sig saman, skipuleggja sig eftir megni, og varpa þessum þrælapískurum af sér eins og hverju öðru oki. Ísraelsku yfirstéttinni, þeirri egypsku, jórdönsku, saúd-arabísku, líbönsku, sýrlensku og já, þeirri palestínsku líka. Sameinuð sósíalísk alþýðulýðveldi Mið-Austurlanda, hvernig hljómar það?

Auðvelt fyrir mig að láta mig dreyma, sitjandi í mjúka stólnum mínum í upphituðu húsi og með fullan maga. Og nægan tíma.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Hr. Siewert, talsmaður umhverfisböðlanna ALCOA, heldur áfram aumkvunarverðri viðleitni fyrirtækisins til að bera af sér sakir. Þetta var misskilningur, segir hann, þetta var einföldun. Elsta brella í bókinni: A segir eitthvað sem kemur sér illa fyrir B, en B er ekki í aðstöðu til að segja einfaldlega að A segi ósatt, svo hann segir að A sé bara ónákvæmur. He's inaccurate. Ódýrt, ódýrt.

Ef þið misstuð af því í sjónvarpinu í gær, lítið þá á "fréttir vikunnar" í Íslandi í dag, þar sem Páll Ásgeir Ásgeirsson er annar viðmælenda og fjallar um ALCOA-málið, sem mér heyrðist spyrlarnir kalla "skúbb vikunnar" -- Páll mælir af viti, og ég, fyrir mitt leyti, kann mjög vel að meta það að hann skuli segja frá því að Eggin.net hafi dregið athygli hans að málinu. Heiðursmaður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Almenningssamgöngur á Akureyri verða gerðar gjaldfrjálsar. Það er frábært. Þarna er verið að gera það sem ætti að gera í Reykjavík, og hefði átt að gera fyrir löngu. Ókeypis í strætó! Það er miklu betra!

No comments:

Post a Comment