Ég fór einu sinni í einhverja móttöku á Kjarvalsstöðum þegar ég var barn, varla meira en sjö ára. Ég fór með mömmu, sem var borgarfulltrúi, en Reykjavíkurborg hélt móttökuna og Davíð Oddsson var borgarstjóri og hélt ræðu fyrir gestina. Í ræðunni hafði hann orð á því hvað margir væru saman komnir, enda hefði hann boðið öllum sem honum hefði dottið í hug, meira að segja draugnum í Höfða.
Mér fannst spennandi að hjálpa konunum sem gengu um beina og fékk að taka bakka með glösum og halda á honum. Þá finn ég eins og stjakað sé í öxlina á mér, aftan frá, dett við, missi bakkann og glösin og allt fer í gólfið og allt í mask. Ég leit snöggt við til að sjá hver hefði hrint mér, og þar var enginn.
Það kom þá bara eitt til greina. Davíð hafði sagt að draugnum hefði verið boðið. Úr því enginn sýnilegur hafði hrint mér, hlaut það að vera eini ósýnilegi gesturinn í boðinu, draugurinn í Höfða. Og hananú.
No comments:
Post a Comment