Fólk sem er gagnrýnið á eða óánægt með íslensk stjórnmál, skýtur oft fram hjá markinu þegar það krefst persónukjörs eða að kjósa "fólk en ekki flokka" eða talar um "flokksræði" eins og það sé stór hluti af vanda íslenskra stjórnmála. Það er auðvitað auðræðið, leynt og ljóst, sem er aðalvandamálið, og spillir m.a. flokkakerfinu, eða mótar það. Krafan um persónukjör missir marks af a.m.k. þrem ástæðum:
a) Flokkur er ekkert annað en hópur af fólki sem stendur saman og hjálpast að í stjórnmálum. Það gerir það í krafti félagafrelsis. Að "banna flokka" þýðir að afnema félagafrelsi í landinu. Ætli fólk átti sig almennt á því? Það er auk þess nauðsynlegt að mynda einhvers konar hóp þegar er á annað borð listakosning. Og vel að merkja hefur venjulegt fólk miklu meiri þörf fyrir samtakamáttinn heldur en þeir ríku; þeir sjá alltaf um sig.
b) Það eru nú þegar til persónukosningar og það er hægt að sjá hvernig þær virka. Til dæmis einmenningskjördæmi, eins og eru algeng í Bretlandi. Ef 51% kjósenda kjósa íhaldið en 49% Verkamannaflokkinn, þá fær íhaldið þingsætið en Verkamannaflokkurinn ekkert. Og til dæmis í sveitarstjórnarkosningum þar sem er óhlutbundin kosning, en ekki lista-/hlutfallskosning. Þar þýðir það að einfaldur meirihluti kjósenda getur tekið sig saman um að kjósa sömu frambjóðendurna, sem þá endurspegla vilja þeirra kjósenda. Það þýðir að einfaldur meirihluti hreppir alla sveitarstjórnina og minnihlutinn fær enga fulltrúa. Vorið 2018 hrepptu t.d. virkjanasinnar öll sætin í sveitarstjórn Árneshrepps. Er þetta það sem þessir ógurlegu lýðræðissinnar þrá?
c) Í hreinu persónukjöri hefur frægt fólk og ríkt ennþá meira forskot en í listakosningu. Við sáum það t.d. í kosningum til stjórnlagaþings hér um árið, að flestir sem náðu kjöri voru nokkuð þekkt fólk úr þjóðfélagsumræðunni. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið hæft fólk, en annað fólk sem var kannski jafnhæft átti eðlilega á brattann að sækja, og það verður eiginlega að kallast lýðræðislegt vandamál.
Your the bbest
ReplyDelete