Tuesday, May 11, 2021

Elverhøj

Christian IV, mynd: Wikipedia
Elverhøj er leikrit eftir Heiberg og Kuhlau, trúlega frægasta leikrit Danmerkur og hefur verið sýnt meira en þúsund sinnum síðan það var frumsýnt árið 1828. Konunglegi danski þjóðsöngurinn, Kong Christian stod ved højen mast, er notaður í verkinu.

Ég komst fyrst á snoðir um Elverhøj fyrir ekki mörgum árum, þegar ég var með lagið Geng ég fram á gnípur á heilanum. Ég hafði aldrei kunnað nema fyrsta erindið en tók mig til og lærði allan textann. Hann er auðvitað eftir Matthías Jochumsson og úr leikritinu Skugga-Sveini, en lagið er vanalega kallað "erlent" þegar textinn er prentaður. Og ég komst í færi við mér fróðari mann, sem sagði mér að þetta væri eftir Kuhlau og úr Elverhøj.

Nú settist ég niður um daginn og hlustaði á Elverhøj frá upphafi til enda. Og það er að sönnu magnað verk, og væri mjög gaman að heyra það flutt á tónleikum. En viti menn, þar blasir við annað "íslenskt lag", sem við þekkjum sem Frjálst er í fjallasal, eftir Steingrím Thorsteinsson. Aldrei hafði ég heyrt áður að það lag væri erlent. Og týpískt að það sé danskur höfundur að einhverju sem við mundum nánast kalla ættjarðarsöng.

No comments:

Post a Comment