Tuesday, April 27, 2021

"List" hins mögulega? Bismarck rangþýddur

Það er stundum vitnað í hinn orðsnjalla Otto von Bismarck og haft eftir honum að stjórnmál séu "list hins mögulega", þegar fólk vill hljóma klárt. Þetta sagði Bismarck aldrei. Hann sagði Politik ist die Lehre des Möglichen. Lehre þýðir fræðigrein og þær eru (eða voru) kallaðar arts á ensku, náttúrlega sama orð og fyrir listir. Þannig að "Art of the possible" er í sjálfu sér rétt ensk þýðing, en "list" er það ekki á íslensku. Munið þetta, krakkar, þetta verður til prófs.

Bismarck var annars í nöp við lækna, er sagt, og leitaði helst ekki til þeirra. En einu sinni var hann svo veikur að það var samt kallaður til læknir, sem fór að skoða hann og spyrja hvernig honum liði. Karlinum leiddist þetta og sagði lækninum að hætta þessum spurningum og finna bara hvert meinið væri. Læknirinn svaraði þá: "Ef þér viljið lækni sem spyr ekki spurninga, ættuð þér að fá yður dýralækni." Bismarck þótti svarið svo snjallt að hann gerði þennan lækni að líflækni sínum.

No comments:

Post a Comment