Tuesday, May 18, 2021

Ég trúi ekki á fylgjur, en...

Annan janúar 2020 fékk ég gesti. Um þetta leyti dvaldi ég hjá mömmu, og gestirnir komu þangað. Mamma var ekki heima, og við, vinahjón mín og ég, sátum lengst í borðstofunni og drukkum te. Þegar klukkan var um hálfellefu heyrum við skýrt að útidyrunum er lokað. Halló, kallaði ég, og reiknaði með að þetta hefði verið mamma. Ekkert svar. Ég reiknaði þá með að hún hefði ekki heyrt í mér, enda kallaði ég svose ekki meira en stundarhátt. En mamma kom ekki inn í borðstofu -- og þá reiknaði ég með að hún hefði farið upp, einhverra erinda, kannski vildi hún bara ekki trufla okkur, en hún þekkti gestina ekki.

Nú, klukkan var orðin þetta margt, og vinahjón mín sögðust ætla að fara að tygja sig. Ég fylgdi þeim til dyra. Og þegar þau fóru, sá ég út í garð, að innkeyrslan var tóm. Og ég kallaði og fór upp, og þá var mamma alls ekki heima. Hún kom heim nokkrum mínútum eftir að gestirnir fóru, eða á að giska tuttugu mínútum eftir að ég heyrði fylgjuna hennar.

Mér fannst þetta mjög skrítið. Þetta er ekki eina, en langskýrasta skiptið sem ég hef heyrt í fylgju. Ég trúi ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri, en ég gat ekki skýrt þetta. Við heyrðum þetta þrjú og annar gestanna er ekki einu sinni Íslendingur. Það kom enginn annar. Og það fór enginn, því það var enginn annar heima. Hurðin getur ekki hafa lokast af sjálfu sér, því hún var læst og ég hafði sjálfur lokað henni og læst þegar gestirnir komu.

Þannig að "skrítið" er eiginlega það eina sem ég get sagt.

No comments:

Post a Comment