Og er hann var albúinn og skip hans lá til byrjar fyrir bryggjunum þá kom þar að honum Suðurmaður einn, ættaður af Brimum úr Saxlandi. Hann falar af Karlsefni húsasnotru hans.
"Eg vil eigi selja," sagði hann.
"Eg mun gefa þér við hálfa mörk gulls," segir Suðurmaður.
Karlsefni þótti vel við boðið og keyptu síðan. Fór Suðurmaður í burt með húsasnotruna en Karlsefni vissi eigi hvað tré var. En það var mösur kominn af Vínlandi.
Grænlendinga saga, 8. kafli
Ég er ekki sá eini sem hefur hnotið um þessar línur í Grænlendinga sögu. En smá orðskýringar, áður en lengra er haldið. Íslensk orðabók (2007) skýrir: húsasnotra: ... verðmætur smíðisgripur úr tré (skraut eða siglingatæki?); mörk: ... hálfpund ... 214 eða 217 grömm; mösur: ... 1 ... hlynur ... 2 ... hnúður, vaxinn sem meinsemd á tré [þ.e. viðarnýra].
Þjóðverjinn gefur Þorfinni karlsefni hálfa mörk gulls, það eru yfir hundrað grömm og mundi kosta yfir 5000 bandaríkjadali að núvirði. Fyrir smíðisgrip úr tré. Hvað í fjandanum var þetta?
Páll Bergþórsson hefur skrifað það fróðlegasta sem ég hef séð um húsasnotru Karlsefnis og ég hef svo sem engu við þann fróðleik að bæta. Nema því að ég skil vel að Karlsefni hafi þótt vel boðið, að fá fyrir smíðisgrip úr tré kannski þyngdar virði í gulli.
(Viðurnefnið Karlsefni er líka skrítið.)
No comments:
Post a Comment