Ég hata stundum þegar ég hef rétt fyrir mér. Í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 var eitt af baráttumálum Alþýðufylkingarinnar að borgin ætti að byggja íbúðarhúsnæði umfram það sem þarf í rauntíma, þ.e. að það yrði viljandi skapað eins konar offramboð. Eins konar, segi ég, vegna þess að í raun væri bara verið að gera ráðstafanir í tæka tíð, byggja fram í tímann.
Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er, held ég, stærsta geðheilbrigðisvandamál íslensku þjóðarinnar. Áhyggjur og kvíði fólks sem rétt svo nær endum saman vegna þess hvað húsnæði er dýrt, eru raunverulegar áhyggjur og kvíði. Fólk neyðist til að vinna meira og verja þannig minni tíma með börnunum sínum. Ætli börnin finni ekki fyrir því?
Offramboð þurrkar út spekúlatífar verðhækkanir, sem stafa af alvarlegum og áralöngum skorti. Það er fyrsta og fremsta ástæðan fyrir að það væri til bóta. En aðrar góðar ástæður mæla líka með því: Segjum að það kæmi kreppa og byggingariðnaðurinn gengi i stå eins og eftir Hrun. Þá væri til forði af húsnæði. Nú, segjum að við vildum taka við þúsund flóttamannafjölskyldum. Það væri auðveldara ef það væri þegar til húsnæði handa þeim öllum.
Segjum að flóttamennirnir kæmu ekki einu sinni frá útlöndum. Í því samhengi nefndi ég eldgosið í Heimaey. Segjum að það endurtæki sig. Mér brá nú samt þegar spáin rættist næstum því, þegar fór að skjálfa í Grindavík. Eða aurskriðurnar að renna á Seyðisfirði. Það kemur auðvitað að því fyrr eða síðar í þessu landi, að það þarf að rýma heilt byggðarlag og koma þúsundum fyrir annars staðar. Þegar það gerist, þá væri gott að hafa í hús að venda.
Ekki draugaborg heldur hverfi sem er ekki enn búið að flytja inn í (Wikipedia) |
En það er til land þar sem ráðstafanir eru gerðar. Munið þið eftir því sem maður sá annað slagið í fréttum
fyrir ekki svo löngu síðan, að í Kína stæðu draugaborgir fullbyggðar, gætu tekið hundruð þúsunda manns en það byggi enginn í þeim? Getið hvað, þær voru og eru byggðar samkvæmt plani. Þar eru byggð heilu hverfin -- hundruð þúsunda geta búið í einu hverfi í milljónaborg -- heilu hverfin, tilbúin fyrir fólksfjölgun í borgum, sem er vitað að kemur. Og hún kemur. Þessi hverfi eru reist, síðan er flutt inn í þau. Þau eru tilbúin þegar þarf að nota þau. Og við Vesturlandabúar, við getum aldeilis hlegið að þessum Kínverjum, sem gera ráðstafanir og byggja upp innviði áður en þarf að nota þá. Hí á þá.
No comments:
Post a Comment