Ég hef lengi haft mikinn áhuga á Brennu-Njáls sögu. Það eru nokkur ár síðan mér var bent á að hlusta á hljóðbókina þar sem Hallmar Sigurðsson les hana; sjálfur lesturinn, var mér sagt, væri svo góður að það væri næg ástæða til að hlusta á hana. Og því var ekki logið. Lestur Hallmars er skýr, laus við öll tilþrif og leyfir textanum sjálfum að njóta sín til hins ítrasta.
Mynd: Eldsveitir.is |
Nú um daginn keypti ég svo aðra hljóðbók með Njálu, tíu segulbandssnældur með upplestri Einars Ól. Sveinssonar frá 1973. Ég var spenntur að hlusta á hana og bera saman, því ég átti von á góðu þar sem EÓS var en bjóst ekki við að hann næði að skáka Hallmari. Og hann gerir það satt að segja ekki. Lestur EÓS er að vísu lýtalaus. En lestur Hallmars er bara ennþá lýtalausari. (Er ekki annars hægt að stigbreyta þessu orði?)
Að Höskuldi Þráinssyni drepnum er gengið langt til að reyna að ná sáttum. Þingheimur skýtur saman silfri til að borga hæstu manngjöld sem höfðu þekkst: sex hundruð silfurs. Svo fjúka óvífin orð milli Flosa og Skarphéðins og allt fer út um þúfur.
Og ég fæ skrítna tilfinningu. Þótt ég hafi bæði lesið bókina og hlustað á hana nokkrum sinnum, er ég samt alltaf að vona að nú takist þetta, að nú náist sættir og brennunni verði afstýrt. Og verð alltaf fyrir vonbrigðum þegar allt kemur fyrir ekki. Og þegar Njáll er brenndur ... enn einu sinni ... sakna ég hans og líður nánast eins og ég hafi misst vin.
No comments:
Post a Comment