Thursday, September 21, 2006

Um íslam II, taktík og strategía fyrir andstæðinga heimsvaldastefnunnar

Í allri umræðu um fjandskap milli Vesturlanda og heimshlutans sem gjarnan er kenndur við íslam, þá er ákveðin þversögn sem mér finnst sýra allt. Það er þversögnin um íslam. Sumir hafa illan bifur á íbúum heimshlutans sem gjarnan er kenndur við íslam og beina spjótum sínum m.a. að íslam og hvað íslam sé villimannleg trú. Á meðan eru hinir, sem hafa meiri samúð með íbúum nefnda heimshluta, sem ítrekað falla í þá gryfju að bera í bætifláka fyrir íslam. Er íslam aðaldeiluefnið?

NEI!

Í fyrsta lagi vil ég að það komi fram að íslam er í mínum augum jafn mikil staðleysa og önnur trúarbrögð og þar sem ég tel að trúarbrögð séu bjánaleg og komi illu til leiðar, þá er ég ekki minna á móti íslam en öðrum trúarbrögðum. Íslam er síst skárri en kristni, gyðingdómur, hindúismi, búddatrú eða aðrar ranghugmyndir sem milljónir manna hampa sem einhverju hrikalega merkilegu.

Það er stundum talað um að íslam séu trúarbrögð friðar og eitthvað slíkt. Það tel ég vera blaður. Kristni eru ekki trúarbrögð friðar heldur, svo það komi fram, þótt hún komist kannski ögn nær því en íslam. Það fer um mig þegar ég heyri fólk tala um hvað íslam séu falleg trúarbrögð. Ég hef séð fallega skreyttar moskur og fagurlega skrautskrifaða bænatexta – það er fallegt – en trúarbrögðin sem þetta snýst í kring um eru það ekki, að mínu hógværa mati. Sandkornið þarf ekki að vera fallegt þótt perlan sé það. "Love the sinner, hate the sin" segja krysslingar. Ég get verið á móti trúarbrögðum þótt mér þyki vænt um þann sem er svo óheppinn að aðhyllast þau. Geta trúarbrögðin verið aukaatriði þegar þau skipa stóran sess í ídentíteti fólk í átökum? Já og nei – sameiginlegt ídentítet skiptir vitanlega miklu í baráttu á borð við baráttuna gegn vestrænni heimsvaldastefnu. Íslam er að því leyti óheppilegt sameiningartákn, að í fyrsta lagi eru minnihlutahópar sem búa innan um múslima sem eru fyrir vikið ekki með í samfylkingunni, í í öðru lagi er erfitt að mynda bandalög við Vesturlandabúa sem hafa annars samúð með málstaðnum, ef íslam er sameiningargrundvöllurinn.

Það er mikið reynt að stilla Vesturlöndum og íslam upp sem andstæðum. Sú skipting er bull og vitleysa, afturhaldssöm og afvegaleiðandi. Hún er samt ekki alveg út í bláinn: Vesturlönd eru langstærsta og frekasta blokk heimsvaldasinnaðra ríkja, og olíuauðurinn er það sem helst er bitist um, en hann er, sem kunnugt er, að mjög miklu leyti á svæðum byggðum múslimum. Hinar sönnu andstæður fara hins vegareftir stéttalínum: Annars vegar er yfirstétt Vesturlanda og leppar hennar, yfirstétt arabalandanna og annarra landa sem verða fyrir barðinu á heimsvaldastefnunni. Hins vegar er vinnandi fólk, bæði á Vesturlöndum og í löndunum sem eru vitlausu megin við vestrænu heimsvaldastefnuna.

Yfirstéttirnar hafa vit á að standa saman. Stéttarvitundin liggur í augum uppi fyrir þeim. Hvar er hún hjá okkur sem stöndum á móti? Hún er til, en hún þarf að sækja ærlega í sig veðrið ef hún á að ná einhverjum árangri að heitið geti.Af taktískum ástæðum þykir mér það kolrangt að ráðast harkalega á íslam, eins og Jótlandspósturinn og páfinn hafa gert. Ég ítreka, af taktískum ástæðum. Sem slík eru trúarbrögð gagnrýni verð, sama hver eiga í hlut. En vegna þess að almenn séð sæta lönd, byggð múslimum, ásælni af hálfu ríkisstjórna landa sem eru ekki byggð múslimum, þá þykir mér rétt að beina skeytunum annað, gegn sameiginlegum andstæðingi. Með öðrum orðum: Vestræna heimsvaldastefnan er skotspónninn sem athyglin ætti að beinast að.

Misskiljið mig ekki, þetta er alls ekki einfalt. Pólitísk ítök múslimaklerka beina þjóðfrelsisbaráttunni í afturhaldssaman farveg. Lög sharía búa konum kröpp kjör. Það má spyrja hvaða mál sé brýnast, þjóðfrelsisbarátta, barátta fyrir sekúlar samfélagi, barátta fyrir kvenfrelsi eða barátta fyrir einhverju öðru. Baráttan sem ætti að vera efst á baugi að mínu mati er vitanlega barátta fyrir lýðræði og sósíalisma. Meðan hún er ekki á dagskrá þarf hins vegar að taka afstöðu til hinna málanna, þótt þau séu takmarkaðri að eigindlegu umfangi. Þar mundi ég setja baráttuna fyrir þjóðfrelsi í fyrsta sæti. Það er líka í henni sem við Vesturlandabúar getum lagt mest af mörkum með því að setja þrýsting á ríkisstjórnir hér heima fyrir.

Segjum að vinnandi stéttir landanna, sem gjarnan eru kennd við íslam, setji þjóðfrelsisbaráttuna á oddinn og vinni þá baráttu. Þegar ytri óvinum sleppir hljóta sjónir að beinast að innri óvinum. Þá leiðir af sjálfu sér að óréttlæti heima fyrir er næsta mál á dagskrá, hvort sem það er kvenfrelsi, sekúlarísering eða lýðræði og sósíalismi.

Að lokum vil ég ítreka að ef menn hafa á annað borð samúð með andófinu gegn heimsvaldasinnaðri ásælni Vesturveldanna, þá ættu menn ekki að falla í þá gryfju að láta umræuna snúast um íslam. Íslam er góður skotspónn fyrir vestræna afturhaldsseggi og slæmur málstaður fyrir framsækið þenkjandi Vesturlandabúa. Framsækið þenkjandi Vesturlandabúar ættu að beina umræðunni frá íslam og að heimsvaldastefnunni, stríðsrekstrinum, olíuhagsmununum og ruddaskapnum sem valdastéttin gerir sig seka um í Írak, Palestínu, Saúdi-Arabíu og öðrum löndum sem gjarnan eru kennd við íslam.

Þótt maður sé alfarið andvígur trúarbrögðum -- og materíalísk heimssýn sé kjölfesta í strategíunni -- þá er það sannkallaður dogmatismi að ríghalda svo í harða andúð að maður verði ósveigjanlegur og geti ekki hagað seglum eftir vindi. Við ættum, af taktískum ástæðum, ekki að beina spjótum okkar að íslam eða því sem heimamönnum er kært. Það er fólkið sem byggir umræddan heimshluta sem við ættum að samsama okkur við. Málstaður okkar ætti að vera réttindi þess – eins og okkar – til að lifa með frelsi og reisn.

No comments:

Post a Comment