Wednesday, September 20, 2006

Íran, Ungverjaland, íslam o.fl.

Ahmadinejad virðist hafa gert merka ferð til New York. Hvers vegna ættu Íranir ekki að rannsaka kjarnorku? Hafa Bandaríkjamenn ekki gert það? Bush endurtekur enn eina ferðina að Sýrland og Hezbollah séu leppar Írans. Hvað með það ef Hezbollah er leppur Írans? Er Ísrael ekki leppur Bandaríkjanna? Gilda ekki sömu reglurnar? (Auðvitað ekki: Þumalputtareglan er að sá sterkari má, sá veikari þarf að hlýða.)
Andskotans þvættingur. "Land mitt vill frið" segir Bush. Auðvitað, almenningur vill frið, og ráðamenn vilja að ÍRanir og aðrir sem eru óþekkir hætti þessu karpi og gefist upp án mótspyrnu. "Við viljum frekar diplómatíska lausn" segir Bush. Auðvitað, frekar að semja um skilyrðislausa uppgjöf heldur en að þurfa að knýja hana fram með vopnavaldi. Eftir situr að auðvitað vill Bandaríkjastjórn helst þau átök, þar sem hún hefur mest forskot.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gyurcsany forsætisráðherra Ungverjalands hlýtur að vera eitthvað mesta fífl í forsætisráðherrastól í Evrópu, og er þó hörð samkeppni um þann eftirsótta titil. Maður skyldi ætla að (a) ef menn ætla að beita svikum og prettum til að ná sínu fram í pólitík, þá væru þeir nógu klókir til að láta ekki hafa neitt ftir sér og (b) ef menn verða uppvísir að lygum, hroka og öðru sem fólki finnst almenn neikvætt, þá ættu þeir að hætta strax, frekar en að snúa hnífnum í sárinu.
Það er ekki laust við að mér verði hugsað til fólksins sem ég þekki í Ungverjalandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er svei mér margt að ske í Thaílandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sem nýr nágranni Hallgrímskirkju tek ég undir umkvartanir Hnakkusar vegna óhljóðanna í klukkunum. Reyndar tek ég undir megnið af restinni líka. Ætli sé hægt að kæra Hallgrímskirkju fyrir hljóðmengun? Ég bý hálfan kílómetra frá, en samt er þetta mér til ama. Mikið hlýtur að vera gaman að búa nær.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í því samhengi rifjast annað upp. Ætli það hafi svo mikið sem einn einasti íslamski hryðjuverkamaður framið sjálfsmorðsárás til þess að komast til himna þar sem hans bíði herdeild af hreinum meyjum? Ég leyfi mér að efast um það. Það sem ég held að reki menn til herskárra verka, þar á meðal sjálfsmorðsárása, eru aðrar hvatir en handanheimagredda. Tal um himnaríki er bara myndlíking til að segja að guð kunni að meta það ef einhver fórnar sér fyrir málstaðinn. Er nokkuð óeðlilegt við slíka myndlíkingu? Ég meina, fyrirfinnst hún ekki í flestum trúarbrögðum? Og í hreyfingum um tiltekinn málstað, eru píslarvottar ekki hvarvetna lofaðir og dáðir? Dást menn ekki að heilögum Stefáni, sem leið píslarvætti fyrir sannfæringu sína? Dá menn ekki Giordano Bruno, Che Guevara eða Samson?

Það er gömul saga og ný að trúarbrögð og aðrir málstaðir umbuna fólki fyrir að vera reiðubúið að undirgangast píslarvætti, og mér finnst það vera evrósentrískt og hrokafullt viðhorf að gera múslimum upp frumstæðari hvatir en "okkar" mönnum sem eru í tölu píslarvotta.

Sjálfsmorðsárásir eða aðrar herskáar aðferðir eru svo allt annar handleggur. Ég er ekkert hrifinn af þeim, en þær eru ekkert verri heldur en loftárás. Munurinn liggur í því að sprengjuflugmaðurinn þarf ekki að horfast í augu við skotmörk sín og stofnar sjálfum sér ekki í mikla hættu. Að því leytinu er það ótrúlegur tvískinnungur að fordæma sjálfsmorðsárásarmenn en líta á sprengjuflugmenn sem eitthvað annað en morðingja, í besta falli firrt handbendi kaldrifjaðra stjórnmálamanna. Sheikh Ahmed Yassin, andlegur leiðtogi Hamas-samtakanna, sem var myrtur ekki alls fyrir löngu, orðaði það líklega best þegar hann sagði að sjálfsmorðssprengjan væri F-16 sprengjuþota fátæka mannsins. Það er ekkert flóknara en það.
En það er grundvallarmunur -- eðlismunur -- á ofbeldi kúgarans og ofbeldi sem hinn kúgaði grípur til í örvæntingu. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að bandaríski eða ísraelski herinn drepi 10 manns, eða að palestínskir eða íraskir andspyrnumenn geri það. Það eru gerólíkar aðstæður sem etja manni út í ofbeldi, eftir því hvort menn eru að berjast fyrir hagsmunum elítunnar heima hjá sér, eða fyrir því að þjóð manns fái að ráða sér sjálf.

Meira um það á morgun.

No comments:

Post a Comment