Mér var alveg meinilla við að fara í skólasund þegar ég var barn. Hafði lítið gaman af sundi yfirhöfuð en alveg sérstaklega illa við skólasund. Fyrstu tvo veturna sem bekkjarfélagar mínir fóru í sund, skrópaði ég. Fór með í eins og eitt eða tvö skipti, en sat fullklæddur á bakkanum allan tímann. Aldrei var neitt sagt við þessu. Spéhræðsla var aðalástæðan.
Næstu fjóra vetur -- 9 til 12 ára -- fór ég svona oftast í skólasundið, lét mig hafa það þótt mér væri illa við það. Það var reyndar ömurlegt, eins og margt annað í Landakotsskóla.
Næstu tvo vetur eftir það: áttunda og níunda bekk, skrópaði ég alveg. Mætti ekki í eitt einasta skipti. Undir vor í níunda bekk hringdi leikfimikennarinn í mig. Hann bauð mér að koma í eitt skipti í Vesturbæjarlaug og ef ég sýndi að ég væri syndur, þá yrði þetta bara látið niður falla. Ég gerði þetta, mætti, sýndi að ég kynni að synda og fór eftir það ekki í neitt sund lengi, en það er önnur saga.
Mig hefur lengi grunað að leikfimikennarinn hafi áttað sig á að þar eð sundkennsla væri skylda, og enginn hafði sagt neitt í tvö ár þrátt fyrir 0% mætingu mína, þá mundu böndin berast að honum fyrir að ég hafi skrópað. Og hann hafi ekki getað losað sig úr þeirri klípu -- nema með því að losa mig úr henni. Ég hafi þannig notið þess að annar væri ábyrgur en hefði forsómað sína plikt.
No comments:
Post a Comment