Þegar ég var lítill og var að læra að hjóla, var sagt við mig, eins og alla, að þegar maður læri einu sinni að hjóla, þá gleymi maður því aldrei. Það er kjaftæði.
Ég fór allra minna ferða hjólandi, meira og minna, frá því ég lærði að hjóla og þangað til ég var fjórtán ára, fór til giktarlæknis vegna verkja og stirðleika í hnjám, og hann sagði mér að taka pásu frá því að hjóla í svona ár eða svo. Og frí úr leikfimi, allan tíunda bekk.
Ég hef ekki hjólað síðan, og er fertugur ... það gerir um það bil 26 ára pásu frá hjólinu.
"Ekki síðan" er reyndar ekki alveg nákvæmt, því ég hef reyndar sest á hjól síðan, í tvö eða þrjú skipti, eða á svona tíu ára fresti, og komist að því að ég held ekki lengur jafnvægi þegar ég hjóla og er þ.a.l. ekki öryggur á stýrinu, og reyndar ekki á pedölunum heldur. Og einu sinni ætlaði ég að bremsa, fattaði ekki að það væru handbremsur, reyndi að bremsa með fótbremsu sem engin var og var næstum lentur í slysi.
Þannig að það er bull að maður gleymi því aldrei, hvernig maður hjólar. Ég segi ekki að ég gæti ekki rifjað það upp frekar auðveldlega, en hef engu að síður gleymt því.
Hins vegar fór ég einu sinni ekki í sund í 20 ár, eða frá því ég var fjórtán þangað til ég var þrjátíuogfjögurra. Og eftir tuttugu ára pásu var ég ennþá alveg jafn vel syndur og ég var 1994. Í því hafði ég engu gleymt.
Við gleymum hjóli, en við gleymum ekki sundi.
Merkilegt.
No comments:
Post a Comment