Sú var tíðin að ég var svo kúl, að ég gekk á kúrekastígvélum hvunndags. Ég varð þess fljótlega var, að hælarnir slitnuðu mun hraðar en aðrir hlutar sólans. Eðlilega, enda steig ég mest í þá. Einu sinni setti Hafþór skósmiður í Garðastræti nýja hæla, og setti í leiðinni litlar skeifur undir. Bara þunnar málmplötur skrúfaðar aftast undir hælinn. Þær hægðu auðvitað mjög á slitinu. Auðvitað, hugsaði ég. Skeifur.
Þegar þær voru uppurnar, fór ég í Brynju og keypti stóra skinnu, sagaði hana og boraði og gerði þannig úr henni tvær skeifur sem ég gat sjálfur skrúfað undir stígvélin. Algjör snilld. Nú, svo tók ég einu sinni bensín í Hveragerði og rak þar augun í alvöru skeifur til sölu. Skeifur undir hesta. Keypti einn gang af skaflaskeifum. Þær gætu komið sér vel.
Það liðu nokkrir mánuðir. Það kom vetur, það kom frost, það kom hláka og það kom logndrífa yfir hlákuna. Og ég ætlaði út. Logndrífa á hláku gerir auðvitað manndrápshálku, en ég var viðbúinn: Dró fram hermannastígvél og dreif skaflajárnin undir framanverð. Gekk svo út, förinni var heitið eitthvað í suðurátt og ég gekk því niður Kirkjugarðsstíg og svo suður Suðurgötu. Skaflajárnin gerðu að veggripið var eins og á sumardegi. Fór á fullri ferð í beygjur og haggaðist ekki á svellinu. Gekk svo hvatlega.
Slóð Kölska |
Þegar ég leit um öxl, genginn spölkorn í snjónum, sá ég að þar sem venjulega hefðu verið venjuleg spor, voru auðvitað för eftir skeifurnar. Eins og hófför. Eins og spor eftir tvo hófa. Enginn gengur á tveimur hófum, nema auðvitað Grýla.
Ég tók nú skeifurnar undan stígvélunum þegar ég kom heim. Vildi ekki villa um fyrir sakleysingjum sem gætu dregið hjátrúarfullar ályktanir.
Enginn nema Grýla? Í Bretlandi sáust reyndar spor Kölska í febrúar 1855 og þau voru ekki ólík tveimur skeifum. Kannski hef ég óvart ráðið gátuna um hvernig stóð á þeim...?
No comments:
Post a Comment