Síðasta sumar var ég, einu sinni sem oftar, í vinnunni. Sjónvarpið var í gangi, stillt á Stöð tvö, og það rúllaði einhver auglýsing um dagskrána framundan. Klippt á nokkurra sekúndubrota fresti.
Bjartmar Guðlausson Mynd: Ismus.is |
Við sátum tveir, sjúklingur og ég, í stofu og ég reyndi að fitja upp á einhverju til að spjalla um. Það var sumar, þannig að ég spurði hvaða grillmat honum þætti best að borða. Kótilettur, sagði hann. Ah, svaraði ég, alveg sammála því. Þú ert þá orðinn kótilettukarl, eins og Bjartmar söng, bætti ég við. Eða -- ætlaði að bæta við. Þegar ég byrjaði að segja nafn Bjartmars Guðlaugssonar: Bja... -- birtist mynd af Bjartmari á skjánum. Í sekúndubrot. Ég sneri að sjónvarpinu og sá það, en ungi maðurinn viðmælandi minn sneri að mér og sá það ekki. Ég benti á sjónvarpið en nafn Bjartmars stoppaði í kokinu á mér og í hröðum klippingum auglýsingarinnar var hann löngu horfinn áður en sessunautur minn náði að líta við.
Sjúklingurinn spurði hvort væri allt í lagi. Jájá, svaraði ég -- náði fljótlega að koma nafninu út: Bjartmar! Bjartmar!
Bjartmar birtist á sama sekúndubroti og ég nefndi nafn hans. Þetta gat aðeins þýtt að ég hefði hitt á óskastundina, ellegar þá að það væri einfaldlega happadagurinn minn. Mér leið eins og ég væri sigurvegari alheimsins, hvorki meira né minna.
Vaktinni lauk undir miðnætti og ég fór auðvitað beint í sjoppuna í Hagkaupum í Skeifunni og keypti mér happaþrennu. Kom svo heim og hikaði. Á maður að freista gæfunnar? Á maður að taka sénsinn á að það sé ekki vinningur, og þá sé happadagurinn góði ekki lengur happadagur? Eða á maður að veðja á að það sé vinningur? Og ef maður er þegar á hátindinum -- sigurvegari alheimsins, eins og ég sagði -- væri þá ekki að bera í bakkafullan lækinn að vinna á happaþrennu líka?
Ég ákvað að geyma bara happaþrennuna. Ef ég verð svo gamall að eiga einhvern tímann virkilega vondan dag, þá gæti það bjargað deginum að vinna of fjár á happaþrennu. Hún fór í bjargráðaboxið og þar bíður hún vonandi lengi.
No comments:
Post a Comment