Sumarið 1998 var hringt í mig og spurt hvort ég vildi koma í prufu fyrir kvikmynd. Ég vissi ekkert hvers vegna ég varð fyrir valinu en sá enga ástæðu til að segja nei, svo ég sló til. Kom í niðurnítt hús við Hverfisgötu, upp einhverja rangala og inn í vinnurými. Vísað inn í rökkvað herbergi og átti þar að leika, án neinna hjálpartækja, átjándu aldar skólapilt sem laumast inn í herbergi, opnar kistil á borði og verður undrandi yfir innihaldinu. Fórst mér þetta vel úr hendi. Flott, sagði kona, það verður svo haft samband við þig.
Liðu nú nokkrir mánuðir. Kominn var desember. Ég gekk snemma til náða, þar eð ég átti að mæta í próf morguninn eftir. Um hálfellefu um kvöldið hringir síminn, pabbi svarar. Kemur svo upp og segir að það sé síminn til mín. Ég fór framúr og hugsaði að þetta hlyti nú að vera mikilvægt fyrst það væri verið að hringja svona seint.
Röddin í símanum sagði:
Já, Vésteinn? Já, við erum að fara að taka upp. Geturðu verið kominn til Krýsuvíkur eftir klukkutíma?Mynd: Kvikmyndir.is
Ég hváði. Krýsuvíkur eftir klukkutíma? Hugsaði mig örstutt um: Vetur, seint, ég ekki með bíl og auk þess ekki með bílpróf, próf á morgun, fyrirvarinn enginn. Nei, það gat ég ekki. Það var bara ekki séns.
Röddin í símanum sagði þá vandræðalegt: Ó...
Þarna missti ég af semsagt smáhlutverki í Myrkrahöfðingjanum eftir Hrafn Gunnlaugsson, sem kom út árið eftir. Ég hef nú séð meira eftir ýmsu öðru. En fyrir vikið get ég sagt að ég sé föðurbetrungur, að minnsta kosti að þessu leyti. Ég lék í það minnsta ekki í mynd eftir Hrafn.
No comments:
Post a Comment