Fyrr á árinu bloggaði ég um útþenslustefnu kínverska drekans í Þingeyjarsýslu. Þeir kalla það ekki herstöð, en skarpskyggnir Íslendingar vita að útlendingar eru varhugaverðir og kalla herstöðvar sínar jafnan tilbeiðsluhús, glæsihótel eða þá norðurljósaathugunarstöðvar. (Það er hins vegar allt í lagi með herstöðvar sem eru bara kallaðar herstöðvar, að áliti skarpskyggnra Íslendinga, sbr. þá sem var á Miðnesheiði.) Ekki skil ég ábyrgðarleysi Framsóknarflokksins, að aðhafast ekki meðan gula hættan hreiðrar um sig í Reykjadalnum.
En hvað um það, ég ætlaði ekki að skrifa um herstöðina í Reykjadal, heldur fangabúðir í Garðstræti, Reykjavík. Og þá meina ég ekki húsaþyrpinguna í garði rússneska sendiráðsins.
Næst þegar þið gangið Garðastræti í Reykjavík, athugið þá Garðastræti 41, þar sem kínverska sendiráðið hefur Efnahags- og viðskiptaskrifstofu. Þar má ganga niður að spennistöð sem er milli Garðastrætis 41 og 43 og kíkja norður og niður yfir vegginn: þar sést stór tennisvöllur, umlukinn hárri, mannheldri girðingu. Ef þið eigið ekki leið hjá getið þið séð þetta á Borgarvefsjá, þar sem skuggarnir sýna glöggt stærð mannvirkisins. Hvað er þetta eiginlega? Hefur einhver séð Kínverja í tennis þarna? Ég bara spyr.
Ég er með kenningu. Kínverjana vantaði fangabúðir, ef Njarðvíkurskóli stæði ekki til reiðu næst þegar Falun Gong kæmu til landsins. Og þá kemur öfuga verkfræðin: Hvernig réttlæta menn það að byggja fangabúðir inni í Reykjavík, og það á Garðastætinu, þessari meinleysislegu götu?
Menn láta nágrannana auðvitað fara fram á það. Og maður fær þá til þess með því að slá nokkra tennisbolta í gegn um rúður á gróðurhúsi þeirra (sem sést ekki á loftmynd fyrir laufþekju).
Þannig að Kínverjarnir byrjuðu á tennisvellinum.
Nú, granninn kvartar eins og sjá mátti fyrir, sendiráðið lofar að leysa málið -- og byggja 5 metra háa fangabúðagirðingu í kring um tennisvöllinn. Ég fylgdist með í rauntíma og fannst skrítið að breyta gamla bílastæði Síldarútvegsnefndar í tennisvöll -- en það meikaði meiri sens þegar 5m há girðing bættist við.
Byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt hana ef nágranninn hefði ekki beðið um þetta. Í girðingunni er svo hægt að geyma a.m.k. 200 manns, við þröngan kost. Lögregluyfirvöld geta ekkert gert þar sem Vínarsáttmálinn undanskilur sendiráð og -lóðir lögum og rétti gestgjafalandsins. Þannig að þarna eru fangabúðirnar, faldar sjónum ókunnugra milli krónmikilla trjáa Suðurgötu og Garðastrætis, og bíða eftir kínverskum stjórnarandstæðingum.
Byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt hana ef nágranninn hefði ekki beðið um þetta. Í girðingunni er svo hægt að geyma a.m.k. 200 manns, við þröngan kost. Lögregluyfirvöld geta ekkert gert þar sem Vínarsáttmálinn undanskilur sendiráð og -lóðir lögum og rétti gestgjafalandsins. Þannig að þarna eru fangabúðirnar, faldar sjónum ókunnugra milli krónmikilla trjáa Suðurgötu og Garðastrætis, og bíða eftir kínverskum stjórnarandstæðingum.
(Völlurinn er þarna í alvörunni og girðingin mikla var reist eftir á, en best er að taka fram að kenningin um tilganginn er frá mér komin og ekki annað en tilgáta sem gengur grunsamlega vel upp.)
No comments:
Post a Comment