Sunday, September 12, 2004

Tilkynning:

Takið frá miðvikudaginn 29. september næstkomandi, einkum kvöldið, og kannski seinni hluta síðdegisins. Nánar útskýrt síðar.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í gær stóð, eins og alkunna er, Gagnauga.isminningardagskrá um fórnarlömb fjöldamorðanna 11. september 2001. Yfirskriftin var Opið sár. Dagskrána má sjá hér. Ég var þarna.



Hér fylgir lausleg endursögn á því helsta sem kom fram, ásamt því sem ég hugsaði meðan ég hlustaði á framsögurnar.



Ögmundur Jónasson fór á kostum. Fyrirlestur hans hefði átt að varðveitast á spólu. Ég vona að hann setji hann í það minnsta á síðuna sína. Ögmundur talaði um pólítísk eftirköst atburðanna, en ræddi ekki minna um formálann að þeim, sem vitanlega er mjög mikilvægt að skilja, enda samhengi í þeim. Það varð ekki grundvallarstefnurbreyting í utanríkisstefnu Bandaríkjanna þann 11. september. Atburðirnir virkuðu sem katalysator og urðu bandarísku valdastéttinni átylla til að koma fram vilja sínum við þjóð heims á óvægnari og sérplægnari hátt en áður. Viðhorf almennings breyttust, en réttara er að segja að þeim var breytt. Þessir heiðursmenn voru einnig til umræðu, auk þessara heiðursmanna.

Stöðug skæðadrífa áróðurs dynur á okkur. Haldið er að okkur vondum fréttum af vondu fólki sem er skuggalegt á litinn og hyggur flátt. Hryðjuverkamenn liggja í fleti fyrir undir rúmunum okkar og við hlaupum skelkuð í faðminn á stórabróður, sem lofar að passa okkur. Dæminu er snúið við: Palestínumenn, sem berjast fyrir frelsi og mannréttindum, eru gerðir að herskáum óþokkum. Íraqar, sem berjast fyrir þjóðfrelsi og yfirráðum yfir eigin landi, eru gerðir að uppreisnarklerkum og glæpamönnum. Þriðji heimurinn, sem berst gegn arðráni og heimsvaldastefnu á skilið sín óskemmtilegu örlög.

Þeir sem veita viðnám heimsvaldastefnu Bandaríkjastjórnar eru óvinir hennar. Með því að vekja upp draug Óvinarins - sem í þetta sinn er holdgerður í hryðjuverkamönnum - er réttlætt stríð gegn andstæðingum Bandaríkjstjórnar. Látið er sem þessi andstæðingurinn sem barist er við sé skeggjaður ofstækismaður í pakistönskum helli. Sannleikurinn er sá, að spjótunum er beint gegn okkur. Alþýðu manna.



Næst talaði Kristín María Birgisdóttir, formaður Ungra frjálslyndra. Hennar umfjöllunarefni var skerðing mannréttinda í kjölfar fjöldamorðanna. Meðal þess sem hún talaði um var PATRIOT Act og sú fáheyrða aðferð sem þar var við höfð: Mannréttindi Bandaríkjamanna skorin við trog á einu bretti, yfirvöldum færð óhugnanleg völd og samtímis því sem einkamál fólks eru gerð opinber er starfsemi hins opinbera sveipað stöðugt meiri dulúð, öfugt við það sem eðlilegt er. Það vottar fyrir þessu sama hér á Íslandi. Útlendingalöggjöf og stækkun sérsveitar þessa heiðursmanns er hluti af því sama. Að ógleymdum íslenska hernum, sem um þessar mundir heldur hlífiskildi yfir ópíumsmyglurum á Kabúlflugvelli.

Grýlurnar hafa verið margar í gegn um tíðina. Nefna má hina klassísku: Hitler, Stalín, Maó, Pol Pot, Khomeini. Nú í seinni tíð Saddam og Ósama. Er Bush að taka á sig mynd grýlu líka?

Hvort er betra, slæmur friður eða réttlátt stríð?

Hversu trúverðug samtök eru Sameinuðu þjóðirnar, þegar varla eitt einasta aðildarríki (ef ekki bókstaflega ekkert) stendur við skuldbindingar sínar, svo sem um mannréttindi?



Þriðji á mælendaskrá var Elías Davíðsson. Hann byrjaði á að tala um atburðina sjálfa. Hvað gerðist? Hryðjuverk? Hvað eru hryðjuverk? Er til einhver opinber skilgreining á þeim? Nei. Hvers vegna er verið að gera greinarmun á hryðjuverkum og öðrum glæpum? Hver er munurinn á því að drepa mann og að drepa mann? Hvað eru atburðirnir 11. september annað en fjöldamorð? Þá á líka að rannsaka þá sem slíkt. Sem glæpamál. Það hefur Bandaríkjastjórn ekki gert. Þvert á móti hefur hún lagt á sig krók til að leggja stein í götu rannsakenda.

Mörgum spurningum er ósvarað varðandi 11. september. Hvort fór flug 77 frá hliði 26 eða 32? Hvoru tveggja er haldið fram. Hvernig var hægt að hringja úr síma í flugvélinni? Það er ekki hægt í alvörunni.

Hvernig stendur á því að þetta fjöldamorð átti sér stað? Ef þetta var værukærð, eins og sagt er, hvers vegna hefur enginn verið víttur fyrir saknæma vanrækslu? Vanefndum hers og stjórnsýslu getur ekki verið um að kenna; þá hefðu einhverjir verið látnir svara til saka.

Fórnarlömb 11. september dóu fæst þann 11. september. Um 3000 dóu þá. Auk þeirra hafa þúsundir dáið í Afghanistan og þúsundir í Íraq. Það sér enn ekki fyrir endann á afleiðingunum. Fórnarlömbin hrannast ennþá upp. Sakamenn á valdastóli í Bandaríkjunum hafa gert Bandaríkin að útlagaríki; gráðugu heimsvaldaríki sem svífst einskis.



Á eftir þessu var minningarstund, þar sem lesin voru ljóð og leikið undir á kontrabassa. Virkilega vel heppnuð athöfn, og það gladdi mitt guðlausa hjarta, að æðri máttarvöld voru víðs fjarri. Það þarf ekki alltaf að blanda hjátrú inn í helgiathafnir!

Eftir minningarstundina voru sýndar tvær myndir um 9/11: Truth and Lies of 9/11 og Painful Deception. Báðar þessar myndir eru frábærar, og þótt ég hafi séð aðra þeirra tvisvar áður og hins þrisvar eða fjórum sinnum, þá horfði ég á báðar aftur. Þær eru þess virði! Í stuttu máli er rakinn langur listi af ósennilegum staðhæfingum og hvers vegna þær eru ósennilegar, tekin fyrir dæmi um augljósar lygar yfirvalda varðandi árásirnar, og líkum leitt að öðrum mögulegum skýringum en hinni opinberu. Sjá meira um þær hér. (Og næst þegar þær verða sýndar skuluð þið sko drífa í því að sjá þær!)



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Úr fréttum:

---- Hafnarstjórn New York stefnir Saúdi-Arabíu fyrir hryðjuverkin 9/11. Gott hjá hafnarstjórninni. Vonandi eru þeir með góðan lögfræðing og eldmóð sem dugir þeim til sigurs.

---- Bandarískir stríðsglæpamenn fórna peði. Einum böðli refsað. Einni undirtyllu. Einu handbendi. Ætli einhver trúi því að þessi ógæfumaður hafi tekið upp á því upp á eigið einsdæmi að pína saklausa? Sökin gengur alla leið upp metorðastigann. Rumsfeld er samsekur. Ef sá skrattakollur væri heiðursmaður hefði hann sagt af sér núna. Sagt af sér og gengið í klaustur.

---- Bush með forskot á Kerry. Hvað með það? Ef Bush verður áfram forseti verða stefnumálin óbreytt. Þá verður farið í nokkur stríð á kjörtímabilinu (eins og venjan er) og athyglinni beint í auknum mæli að S-Ameríku. Ef Kerry er kosinn? Ósköp svipað. Ætli verði ekki stungið dúsu upp í borgaralega stjórnarandstæðinga. Ætli „verkalýðsaðallinn“ svokallaði verði ekki keyptur með mútum. Ekki það, að Kerry á varla eftir að verða forseti. Ef það stefnir í að hann vinni kosningarnar verður gert hryðjuverk nálægt miðjum október. Mark my words. Fylgið sópast að Bush, sem gersigrar, nema þá að verði lýst herlögum og kosningar einfaldlega blásnar af. Það er ekki fráleitur möguleiki. Fyrir utan það er líklegt að bin Laden (muniði eftir honum?) finnist í haust.

---- 40% Bandaríkjamanna trúa því að Saddam hafi staðið á bak við 9/11. Ekki skrítið, miðað við heilaþvottinn og áróðurinn sem hefur dunið á þeim.

---- Bush stýrði minningarathöfn um fórnarlömg 9/11 í Rósagarðinum við Hvíta húsið og það setur að mér klígju. Ef ég væri fórnarlamb 9/11 og þessi morðingi saurgaði minningu mína svona, þá mundi ég ganga aftur og gera hann gráhærðan. Hugsa sér hræsnina, skinhelgina, yfirlætið. Ef eitthvað í líkingu við réttlætiskennd, bróðurkærleik eða sanngirni bærðist undir höfuðleðrinu á hr. Bush, þá hefði hann haldið talsvert öðruvísi á spilunum en hann hefur gert. Ég tek dæmi: Í staðinn fyrirnota 9/11 sem átyllu fyrir nýtt stig í heimsyfirráðastefnu Bandaríkjanna hefði hann leitað framsækinna leiða til að draga úr andúð sumra manna á þeim. Í staðinn fyrirkoma með beinum hætti í veg fyrir alvöru rannsókn á 9/11 hefði hann hjálpað til með beinum hætti. Og í staðinn fyrir að vera sjálfur viðriðinn tröllaukin hryðjuverk gegn sinni eigin þjóð hefði hann komið í veg fyrir að 9/11 ætti sér stað. Annars vísa ég í þarsíðasta blogg til frekari glöggvunar.

---- Ódýr brögð hjá Rússum. Ja, kannski ekki ódýr í þeim skilningi, að Júdasarpeningarnir eru auðvitað miklir, en ódýr brögð fyrir því. Ég verð að játa að ég brosti út í annað yfir að skæruliðarnir hefðu svarað í sömu mynt, með því að setja fé til höfuðs Pútín.



---- „Sumir eru þó efins um að rétt sé að sýna Hitler sem mannveru, sérstaklega sé það varhugavert í þýskri kvikmynd.“ Hvað er málið? Efins um að rétt sé að sýna hann sem mannveru?? Hvað á hann að hafa verið, annað en mannvera? Mannvera með alvarlega bresti í persónuleikanum já, kolgeggjaður já og vitfirrtur, já, en mannvera var hann nú samt. Sem hvað ætti annars að sýna hann? Það er kominn tími til að fólk átti sig á að til eru margar og misjafnlega fagrar tegundir af mannverum.....

(Hmmm... ætli Hitler hefði annars talist sakhæfur skv. nútíma viðmiðum?)

No comments:

Post a Comment