Thursday, September 2, 2004

Í gær opnaði Þjóðminjasafnið aftur, með pompi og prakt.

Ég var óboðinn gestur við opnunina.

Þar sem ég kom inn um nýjan aðalinngang kinkaði ég kolli til ríkisbánsersins Geirs Jóns Þórissonar og veislustjóri ríkisins, Júlíus Hafstein, vísaði mér til stæðis. Var ég í góðum félagsskap, með ráðherra til hvorrar handar en biskup fyrir framan mig. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flutti ræðu sem að mínu mati var flatneskjuleg og gerði út á einhvers konar póst-þjóðernishyggju sem er bara asnaleg nú til dags.

„Þjóð sem gleymir uppruna sínum hættir að vera til“ sagði hún, og haft eftir henni í Mogganum í dag. Andvarpandi þjóta í gegn um huga mér hundrað hugsanir í einu. Hvaða uppruna? Uppruni þjóðarinnar er að miklu leyti tilbúningur, vaður snúinn saman úr ýmsum þáttum sögunnar og menningarinnar. Auðvitað á þjóðin sér uppruna. Vissulega er þjóðminjasafn í dag miklu nær því að endurspegla hann en þjóðminjasafn fyrir 60 árum, en engu að síður er þetta „opinber“ uppruni sem um ræðir. Uppruni sem er passlega fægður og færður í stílinn til að sýna útlendingum og til að ala nýjar kynslóðir fólks upp í hálfgerðri þjóðernishyggju. Eða hvað? Kannski er ég að ýkja? Alla vega örlaði á þessari tilhneigingu. Tilhneigingu ríkisvaldsins til að skapa þjóðina eins og það vill hafa hana. Best fannst mér samt sennilega þegar Þorgerður sagði að það væri vel við hæfi að „morgungjöf þjóaðrinnar til sjálfrar sín væri gerð upp og afhent á 60 ára lýðveldisafmælinu“. Það er hreinn skandall hvernig hefur verið staðið að þessu verki. 6 ára lokun! Hvað átti þetta að vera lokað lengi til að byrja með, 2 ár? 3 ár? Verktakar braskandi með kennitölur, farandi langt fram úr kostnaðaráætlunum, vitandi að ríkið borgar alltaf og svo framvegis. Vel bjargað fyrir horn að láta eins og margra ára tafir séu þess virði því þá sé dagsetning afhendingarinnar meira töff! Góð redding Þorgerður, góð redding.

Safnið er annars allt hið flottasta. Fastasýningin „Þjóð verður til“ er býsna töff. Ánægjulegt að uppsetningin skuli vera með sæmilega nútímalegu móti. Ég býst við að skipuleggjendurnir hafi lesið Hooper-Greenhill.

Ég var í góðu yfirlæti innan um fína og fræga fólkið. Mér leið eins og ég væri fínn og frægur en ekki bara lúsugur heilbrigðisstarfsmaður og horaður háskólanemi. Snitturnar voru ekki sérstaklega bragðgóðar, en vel var veitt af ódýru rauðvíni. Mér brá meira að segja fyrir í sjónvarpinu.

Semsagt, ánægjuleg heimsókn, flott sýning.

No comments:

Post a Comment