Monday, February 25, 2013

Svona minnkum við vægi verðtryggingarinnar

Verðtrygging væri ekki vandamál ef það væru ekki vextir og verðbólga. Vaxta- eða gróðakrafa kapítalísks fjármálakerfis er aðalástæðan fyrir verðbólgunni. Alþýðufylkingin vill félagsvæða fjármálakerfið, reka það sem opinbera þjónustu við fólk og fyrirtæki, sem er ekki rekin í gróðaskyni heldur beinlínis með það markmið að veita hagstæða fjármálaþjónustu. Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, hélt erindi sem tekur vel á þessu: Félagsvæðing fjármálastarfseminnar. Um félagsvæðingu almennt segir í stefnuskránni okkar:
Alþýðufylkingin berst fyrir jöfnuði. Til þess er nauðsynleg umfangsmikil félagsvæðing í hagkerfinu. Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður: Hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu.

Auk þess:
Lykilatriði er að öll fjármálastarfsemi verði félagslega rekin svo hún hætti að soga til sín stóran hluta verðmæta úr hagkerfinu til ágóða fyrir fámennan minnihluta. Þannig skapast mikið svigrúm til að reisa myndarlega velferðarkerfið við og styrkja alla innviði samfélagsins. Einnig skapast með því færi á að verðmætin skili sér til þeirra sem skapa þau með vinnu sinni, og þannig til samfélagsins. Með því að létta vaxtaklafa af vöruverði og húsnæðisskuldum almennings má bæta lífskjörin og stytta vinnutíma.
Lesið nánar um þetta og fleira í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar
Fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallar í dag um ýmis stefnumál Vinstri-grænna. Í fréttinni segir meðal annars þetta:
Katrín segir [þurfa] að skoða verðtrygginguna og hvernig hægt sé að draga úr hennar vægi. Þetta verði hins vegar ekki gert nema að hér verði rekin aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum og mjög skýr stefna í efnahagsmálum. Hún segir það framtíðarstefnumið að hér verði ekki verðtrygging. Það ríki hins vegar ekki nægur stöðugleiki í efnahagsmálum í dag til að hægt sé að afnema verðtryggingu í einum vettvangi. Hún segir flokkana nokkuð sammála um þetta atriði.
Ég er nokkurn veginn sammála því sem Katrín segir. Vil þó bæta við: Auðvaldið hefur aldrei og mun aldrei stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Óstöðugleiki er innbyggður í það. Það er hannað til þess að safna saman auði, og þegar gróðinn minnkar verður kreppa. Ef fólk vill út úr kreppunni, og út úr óstöðugleikanum, þarf að minnka vægi auðvaldsins. Þá er hægt af alvöru að minnka vægi verðtryggingarinnar, og svo afnema hana þegar vægi hennar hefur minnkað. Ég er sammála aðhaldi -- í efnahagsmálum almennt, í þeim skilningi að ég vil spara samfélaginu hinn ofboðslega kostnað af gróðadrifnu fjármálakerfi. Það hlýtur, fjandakornið, að vera hægt að eignast heimili án þess að þurfa að borga þrefalt verð. Krónuna ber að sama brunni; vandi íslensku krónunnar er að fjármálakerfið stelur annarri hverri krónu af okkur.

Það er augljóst að hér í landinu þarf að vera skýr stefna í efnahagsmálum. Samfylkingin hefur það forskot á aðra flokka, að hafa nokkuð skýra stefnu, sem snýst að miklu leyti um aðild að Evrópusambandinu, með öllu sem því tilheyrir. Ég er ósammála þeirri stefnu, en ég veit ekki til að neinn annar af gömlu flokkunum hafi alvöru efnahagsstefnu. En einn af nýju flokkunum hefur hana. Það er flokkurinn minn, Alþýðufylkingin. Lesið stefnuskrána okkar (óttist ekki, hún er stutt), þar kemur fram skýr og skorinorð stefna: Félagsvæðing, í einu orði sagt. Hún felur í sér að við þurfum að verja fullveldið af mikilli festu, efla innviði samfélagsins og lýðræðið (meðal annars efnahagslegt lýðræði) og setja fjármálaöflum miklar skorður.

Fullveldissinnaður vinstriflokkur

Alþýðufylkingin tekur eindregna afstöðu gegn ESB-aðild og þegar við tölum um andstöðu þýðir það ekki að greiða atkvæði með aðildarumsókn eða álykta um að vilja ljúka viðræðum (eins og sumir). Það þýðir að við viljum slíta viðræðunum. Stefnuskráin okkar er skýr og afdráttarlaus um þetta og auk þess leggjum við frekari áherslu á mikilvægi málsins með sérstakri ályktun um ESB, sem framhaldsstofnfundurinn okkar samþykkti á dögunum.

Tvískinnungshátturinn afhjúpar tækifærisstefnuna


Katrín Jakobsdóttir "Unir niðurstöðunni um ESB" -- "VG vill ljúka ESB-viðræðum", greinir Moggi frá.

Það þarf forhertan haus til að sjá ekki þversögnina í því að "telja hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins" en vilja samt halda áfram aðlögunar- og samningaferlinu. Ég hefði getað kyngt ýmsum málamiðlunum sem VG hafa gert fyrir ríkisstjórnarsamstarfið, en að samþykkja ESB-umsókn er eitt af því sem ég get ekki sætt mig við. Sá sem vill ekki ganga í sambandið sækir hvorki um aðild að því, né samþykkir umsókn um aðild að því, né kýs flokk sem gerir það. Það er svo einfalt.

Alþýðufylkingin er eini vinstriflokkur á Íslandi sem er fortakslaust á móti ESB-aðild.Stefnuskrá hennar tekur af öll tvímæli um það og framhaldsstofnfundur okkar um síðustu helgi lagði enn frekari áherslu á andstöðuna í Ályktun um Evrópusambandið.

Alþýðufylkingin er flokkur sem vinstrisinnaðir fullveldissinnar geta fylkt sér um og stutt án þess að vera með óbragð í munninum.

Sunday, February 24, 2013

"Stefnt að félagshyggjustjórn"

Landsfundur VG vildi ekki útiloka stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar, eins og UVG lögðu til, en samþykkti þess í stað ódýrt orðalag um að "stefnt" skyldi "að félagshyggjustjórn". Þá geta þau varla ætlast til þess að Samfylkingin útiloki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn heldur.

Saturday, February 23, 2013

Steingrími bolað burt

Þann 13. febrúar síðastliðinn greindi Sandkorn í DV frá því að mjög væri þrýst á Steingrím J. Sigfússon að víkja sem formaður VG, til þess að minnka skaðann í komandi kosningum. Fram kom að jafnframt væri þrýst á Katrínu Jakobsdóttur að gefa kost á sér í hans stað, en hún hefði tekið dræmt í það.
Þann 14. febrúar reyndi Steingrímur að bera sig vel í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins: „Ég hef ekkert annað gefið í skyn en það standi til. Ég er formaður og var kosinn á landsfundi 2011 og ég veit ekki til þess að ég hafi gefið mönnum tilefni til vangaveltna um neitt annað.“

Þann 15. febrúar fjallaði DV aftur um að reynt væri að fá Steingrím til að víkja og Katrínu til að taka sæti hans.
Þann 16. febrúar tilkynnir Steingrímur loks að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Auðvitað sagðist hann ekki vera að bregðast við minnkandi fylgi í skoðanakönnunum – hverjum hefði nú getað dottið það í hug? – en hann trúði því samt að ákvörðun hans yrði til góðs fyrir flokkinn. Ansi er ég hræddur um að það sé of seint í rassinn gripið. Og auðvitað sagði hann, eins og hann hefur svo oft orðað það áður, að hann hefði nú aldrei ætlað að verða eilífur augnakarl í þessum stóli. Þvert á móti þætti honum vera kominn tími fyrir kynslóðaskipti.

Lesið restina af greininni Steingrími bolað úr: Pólitísk eftirmæli á Eggin.is.