Thursday, July 6, 2006

Eggin, Írak, Kórea, Mexíkó, Nepal...

Vísir.is fjallar um ákæruna á hendur Bush eldri.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
SFR og LSH hafa loksins gengið frá nýjum stofnanasamningi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er greinarstubbur eftir mig á Egginni í dag. Talandi um Eggina, þá er víst óhætt að ljóstra því upp út úr núverandi síðu, sem í upphafi var hugsuð sem bráðabirgðaafdrep, mun innan skamms klekjast nú og mun flottari síða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Íraski shííta-leiðtoginn al-Hakím vill að þeim verði veitt sakaruppgjöf, sem hafa barist fyrir þjóðfrelsi Íraks, þótt þeir hafi drepið bandaríska hermenn. Ég held að ég geti samsinnt því. Þjóðfrelsisbarátta eða vopnuð barátta gegn erlendu hernámsliði sem fer fram á herteknu landi er réttmæt barátta. Það er auðvitað leiðinlegt fyrir hermennina að vera drepnir, en það er ekki eins og þeir hafi verið í sunnudagsbíltúr í Írak til að byrja með. Það er ekki glæpur að verja föðurland sitt þegar á það er ráðist.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Norður-Kóreumenn uppskera hörð viðbrögð við eldflaugatilraunum sínum. Þetta er ekki sanngjarnt. Sko, ég er á móti hernaðareldflaugum sem slíkum, en ef Bandaríkjamenn, Rússar, Kínverjar og aðrir „mega“ þróa og framleiða eldflaugar, þá er enginn grundvöllur fyrir því að Kóreumenn megi ekki gera það líka. (Ég tek m.ö.o. í sama streng og stjórn Venezuela.) Kórea er höfuðsetin. Íbúar hennar hafa ekki gleymt Kóreustríðinu og það er skiljanlegt að leiðtogar Kóreu vilji gera allt til að það endurtaki sig -- það er að segja, annað en að minnka sín eigin völd, býst ég við. Ef þeir væru það sem þeir segjast vera, þá ímynda ég mér að heimavarnarlið mundi spila miklu stærri rullu en það gerir og herinn sjálfur miklu minni. Ekki ósvipað því hvernig Kúba hagar sínum vörnum. Eða eins og Venezuela hefur í bígerð. Peningana, sem nú fara í herinn, væri þá ef til vill hægt að nota til þess að fæða og klæða þjóðina svo vel væri, og södd þjóð sem er ánægð með skipan mála mundi væntanlega vera miklu viljugri til að verja ríkið fyrir innrás úr suðri. Talandi um innrás í Kóreu, ég hef heyrt vangaveltur um það hvort það væri farsælasta lausnin á vígbúnaðarkapphlaupinu á Kóreuskaga, að Kínverjar innlimuðu einfaldlega norðurhluta Kóreu. Ég er nú reyndar efins um að það væri sniðugt...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Obrador vinnur á í endurtalningu á atkvæðum í Mexíkó. Ef hann vinnur kosningarnar gæti það í sjálfu sér haft ýmislegt ágætt í för með sér, t.a.m. varðandi olíuviðskipti Mexíkó og Bandaríkjanna. Á heildina litið hef ég samt nákvæmlega enga trú á að hann sé boðberi nýrra tíma í Mexíkó. Þessar kosningar eru ljóta blöffið. Tveir hægrimenn og sá þriðji sem ég býst við að gæti kallast hægrikrati, en ekki meira til vinstri en það. Hægrikratanum stillt upp sem mexíkönskum Hugo Chavez. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Ef þessir þrír frambjóðendur eru ekki pólitísk fölsk valþröng, þá hef ég ekki séð falska valþröng. Stilla upp þrem frambjóðendum, tveim slæmum og einum ekki alveg eins slæmum en samt slæmum, og svindla svo í ofanálag. Fuss.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Glefsur úr nýju viðtali við Prachanda formann í Nepal: „Nepal’s Maoist leader yesterday vowed in an interview that the rebels would not return to war but warned they could call protestors back onto the streets if talks with the government broke down.“ Ég held að það megi túlka sem vissa uppgjöf, að hann skuli heita því að maóistar taki ekki aftur upp vopn, a.m.k. ekki að fyrra bragði. Að vísu var róðurinn orðinn þungur fyrir her maóista; þótt þeir eigi mikið fylgi á landsbyggðinni, þá höfða þeir ekki eins til borgarbúa, og spurning hversu góð hugmynd það hefði verið að reyna að taka Kathmandú utanfrá. Þegar Prachanda segist geta kallað mótmælendurna aftur á göturnar, þá býr samt óneitanlega þungi að baki orðum hans. Þess er skemmst að minnast, er maóistar héldu útifun í Kathmandú þar sem hundruð þúsunda manna komu saman. Slíkt gera menn ekki að gamni sínu.
We may appeal to the people for a peaceful movement. Not just 19 days but if necessary 29 or 39 will be there but we will not go back to war“ segir hann. Ég get ekki annað en velt vöngum -- ég hugsa að þeir gætu það sennilega, en hvers vegna gera þeir það þá ekki? Í ljósi þess hvernig þeir hafa spilað baráttuna undanfarna mánuði, þá hlýt ég líka að velta vöngum yfir því hvað væri æskilegt. Ef þeir hafa brugðist byltingarhlutverki sínu, þá væri auðvitað pólitískt kvantítatífur munur á þeim og núverandi ríkisstjórn, en kvalítatífur munur yrði eiginlega óverulegur. Það er að segja, stjórn þeirra yrði ekki byltingarsinnuð. Þá væri kannski til lítils barist, a.m.k. til lengri tíma litið. Til skemmri tíma litið yrðu ávinningarnir samt væntanlega verulegir.
We have seen revolution and counter revolution in the 20th century, and Stalin’s experiment failed. We do not want to repeat the same phenomenon. We want to go ahead with competition“ segir Prachanda. Í sjálfu sér er ég sammála þessum orðum hans -- en finnst ég þó finna þef af endurskoðunarstefnu. Semsé að þetta sé ekki framþróun heldur úrkynjun á sósíalisma. Hver er munurinn á afvopnuðum maóista-þingræðisflokki og öðrum óvopnuðum þingræðisflokkum? Harla lítill, ef það er satt sem sagt er, að þingræðisleiðin sé ófær fyrir byltinguna.
Prachanda segir menn sína munu hætta að rukka byltingarskatta þegar sjálfstjórnarsvæði maóista renna saman við borgaralega ríkisvaldið. Það er eðlilegt; samhliða ríkisvald (eða ígildi þess) hlýtur að þurfa að innheimta skatta eins og annað ríkisvald, en samruni við borgaralegt ríkisvald, hvað er það annað en strategísk málamiðlun? Hann heldur áfram: „We are 21st century communists. We are not dogmatic. We are trying to develop our line, policy and programme for the changed situation, Try to understand our flexibility.“ Sveigjanleiki í strategískum efnum, hmm? Það er það sem kallast hentistefna á góðri íslensku. Það er líka dæmigert, að kommúnistaleiðtogar kalli flokka sína „nútímalega“ þegar þeir eru að útvatna stefnu sína og keyra byltinguna út af sporinu. Ekki svo að skilja að kommúnistaflokkur eigi ekki að vera nútímalegur -- orðið er bara oft notað sem skálkaskjól fyrir endurskoðunarstefnu.

No comments:

Post a Comment