Wednesday, March 9, 2005

Líbanon, Sýrland og sýndar-lýðræðishreyfingar á mála hjá Vesturveldunum

Í Morgunblaðinu í dag var sýnt frá stærðarinnar mótmælum í Beirút, þar sem Líbanir mótmæltu veru sýrlenska hersins í Líbanon. Þar kom ekki fram hvaða Líbanir þetta voru né hvers vegna þeir voru að mótmæla veru sýrlenska hersins.

a) Þetta voru líbanskir maronítar (það er kristin kirkjudeild), sami þjóðfélagshópurinn og myndaði Falange, dauðasveitirnar sem frömdu massakerið í Sabra og Shatilla 1982, undir verndarvæng ísraelska hersins og á ábyrgð þáverandi varnarmálaráðherra Ísraels, Ariels Sharon. (Athugið nafnið "Falange" - þetta er sama og "falangistar", flokkur Francos og fasista hans í spænska borgarastríðinu. Falange er m.ö.o. fasistaflokkur.)
b) Það sem þeir hafa á móti veru sýrlenska hersins er hann heldur hlífiskildi yfir Hizbollah-samtökunum og öðrum hreyfingum shííta-múslima, sýrlenski herinn heldur ísraelska hernum í skefjum, og vera sýrlenska hersins kemur í veg fyrir að kristnir fasistar í Líbanon geti gert Líbanon að leppríki Bandaríkjanna og Ísraels og hrakið líbanska múslima og palestínskt flóttafólk af höndum sér eða brotið á bak aftur.
c) Í Serbíu, Georgíu og nú síðast Úkraínu hafa, eftir fjöldamótmæli, náð völdum vel skipulagðar vestrænt-hallar stjórnmálahreyfingar sem eru fjármagnaðar frá Bandaríkjunum (og að einhverju leyti frá öðrum vesturveldum). Sams konar hreyfing hefur ítrekað reynt að ná völdum í Venezuela. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi and-sýrlenska hreyfing hefur stuðning frá Bandaríkjunum (og Ísrael).

Þessar hreyfingar eiga það sameiginlegt að gefa sig út fyrir að vera lýðræðissinnaðar þjóðfrelsishreyfingar, en eru í raun ekki nema Bandaríkja- eða Vesturveldasinnaðar hreyfingar í valdastéttinni á hverjum stað. Þetta lítur voða fínt út: Þúsundir marsera á götum Kíev til að Jústsénkó geti orðið forseti. Til hvers? Til þess að snúa Úkraínu meira til vesturs, til þess að opna hana fyrir vestrænu heimsvaldafjármagni, til þess að tryggja Vesturveldunum strategískt betri stöðu í Úkraínu en þau áður höfðu og til þess að gera óvinunum erfitt fyrir. Þessar hreyfingar útmála sig sem framsæknar hreyfingar lýðræðis og þjóðfrelsis, en eru í raun afturhaldssamar hreyfingar auðvalds og landráða.
Skiptið Úkraínu út fyrir Líbanon, eða Serbíu eða Georgíu. Sama má segja um Venezuela, nema hvað stjórnin sem sótt er að þar er talsvert framsækin, öfugt við hinar.
Nú hefur líbanska þingið útnefnt nýjan forseta, sem er hallur undir Sýrlendinga. Hvað næst? Munu átök brjótast út að nýju? Ég býst við að það sé hætt við að það gerist, án þess svo sem að ég viti það. Altént verður mikið um að vera í Líbanon næstu vikurnar, og það lítur út fyrir að í augnablikinu sé það Sýrland sem er í sigti heimsvaldasinna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Stefán Pálsson bloggar líka um Líbanon. Lesið það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Moldavíu var Kommúnistaflokkurinn að vinna stóran sigur í þingkosningum. Evrópusambandið segir að kosningarnar hafi í aðalatriðum gengið heiðarlega fyrir sig, Bandaríkjastjórn segir að það hafi verið hnökrar á þeim. Nú er ég ekki kunnugur Kommúnistaflokki Moldavíu, og get satt að segja ekki sagt að ég vænti mikils af honum. Engu að síður verður fróðlegt að fylgjast með. Kannski að eitthvað jákvætt komi út úr þessu.

No comments:

Post a Comment