Wednesday, March 2, 2005

Fór áðan ásamt Örnu í Borgarholtsskóla, þar sem eru einhvers konar þemadagar. Við töluðum um Palestínu í um einn og hálfan tíma og ég held að við höfum sloppið ágætlega frá því.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hinn svokallaði kvartett tjáir sig um sjálfsmorðsárásina í Tel Aviv. Þessi kvartett er ljóti skrípaleikurinn. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Bandaríkin og Rússland. Ákvarðanir eru teknar einróma, sem þýðir að hver þessara fjögurra aðila hefur neitunarvald. Það þýðir að í gegn um Bandaríkin hefur Ísrael neitunarvald í öllu sem kvartettinn gerir. Það hafa Palestínumenn ekki.
Condoleezza Rice segist hafa "óyggjandi sannanir" fyrir því að Islamic Jihad í Sýrlandi hafi skipulagt árásina. Ég blæs á tal Bush-stjórnarinnar um "óyggjandi sannanir". Varla hafa menn gleymt þessum "óyggjandi sönnunum" sem þeir þóttust hafa fyrir gereyðingarvopnunum í Írak, sem engin voru. Þær sannanir áttu að vera óyggjandi. Rumsfeld sagði að "það væri vitað hvar þau væru: Nokkuð fyrir norðan, sunnan, austan og vestan Baghdad" og gott ef heiðursmaður Ásgrímsson át það ekki upp eftir honum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hjúkk, þarna skall hurð nærri hælum. Gott að þetta ómenni komst undir manna hendur áður en skaði hlaust af. Verst að hann er of ungur til að það megi drepa hann, öðrum til viðvörunar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
15 ára breskri skólastúlku leyft að klæðast eins og teppahrúga í skólanum. Íslamistar fagna. Ég hristi hausinn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég bendi á þessa grein á Vantrú þar sem tekin eru fyrir ummæli Egils Helgasonar um hvað kristni séu miklu betri trúarbrögð en íslam, hindúismi og fleiri. Greinin er góð, og umræðurnar eftir hana eru áhugaverðar líka. Um þær ætla ég ekki að tjá mig, en vil segja eitt: Ef við höfum það betra á Vesturlöndum en múslimar í arabalöndum eða hindúar í Indlandi, þá er það ekki því að þakka, að við séum kristin. Kirkjan er afturhaldsafl og framfarir undanfarinnar aldar hafa meira að gera með að við séum lítið kristin en mikið. Framfarir, þekking og menntun eru vogarstangirnar sem hafa lyft okkur flestum upp úr mestu for trúarinnar, þótt margir dingli ennþá tánum (og sumir andlitinu) ofan í hana. Framfarir og trú hafa öfuga fylgni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þetta fyllir mig óhug. CIA á og rekur "pyntingaþotu" til að ræna andstæðingum sínum erlendis, taka þá úr landi og pynta þá síðan. Djöfulsins ógeð! Hugsa sér hræsnina, þegar þeir tala af skinhelgi um virðingu fyrir mannréttindum og mannslífum og lýðræði og eitthvað. Blaður! Blaður allt saman og ekkert annað! Eða eins og einhver orðaði það, "Much law, but little justice."

No comments:

Post a Comment