Wednesday, December 20, 2006

Málefni líðandi stundar

Ég held að í seinni tíð hafi ég tjáð mig eitthvað minna um ýmis málefni líðandi stundar en ég var kannski vanur, ef ég man rétt. Kompásmálið sem allir eru að tala um er til dæmis hít sem ég nenni ekki einu sinni að þykjast hafa einhverju í að bæta. Af hverju ætti ég að gera það? Af hverju ætti ég að segja það sem allir eru að segja, að ég er sammála öllum sem ég hef séð tjá sig um það? Ég veit ekki hvað er satt og hvað er logið í málinu. Ég hef ímugust á því að hjálparstarf sé rekið á trúarlegum grundvelli -- skil auðvitað vel að menn geri það -- en lít svo á að það eigi að koma til móts við t.d. þörf fyrir úrræði fyrir fíkla á samfélagslegum jafnréttisgrundvelli -- og það þarf að vera sekúlar, annars er jafnréttið í hættu.

Svo það komi fram: Jólin fara ekkert sérstaklega í taugarnar á mér nú á efri árum, ég sé ekki að Árni Johnsen hafi bætt ráð sitt hætishót, Eyþór Arnalds hefur sýnt að hann er efnilegur stjórnmálamaður ef satt er sem sýnist, að hann kunni ekki að skammast sín heldur. Færeyskir kynvillingar eiga mína samúð alla, en ég fann ekki hjá mér sérstaka þörf fyrir að tilkynna að ég samgleddist þeim yfir löngu tímabærri réttarbót. Ég held í fljótu bragði að tvöföldun Hellisheiðarvegar sé peningasóun, að 2+1 leið væri lógískt fyrsta skref og að menn hljóti að geta ekið nógu varlega til að drepa sig ekki.

Ég held ég hafi tjáð mig nógu mikið um nógu margt til þess að ekkert af ofangreindu þurfi að koma neinum á óvart, af þeim sem lesa þetta blogg eða þekkja mig að öðru leyti. Hvers vegna ætti ég þá að vera að segja þeim það? Hvers vegna að eyða tímanum í að vélrita texta sem 3000 bloggarar eru búnir að vélrita á undan mér? Og hver mundi nenna að lesa þetta blogg ef það innihéldi ekki annað en vísanir í önnur blogg?

En hafið ekki áhyggjur, einhverjum gæti virst þetta hljóma eins og formáli að tilkynningu um blogghlé, en sú er ekki raunin. Þið losnið ekki við mig alveg strax. Nema ég detti niður dauður eða gleymi af einhverjum ástæðum hvernig maður vélritar. Þetta á sér skýringar, sem ég ætla að vélrita frekar en að fara strax að sofa eins og skynsemin býður næturverðinum í síðdeginu.

Eggin.is er verkefni sem ég tel í alla staði verðugt tíma míns. Ég held að ég hafi skrifað meira þar en hér upp á síðkastið. Vantrú hefur líka fengið sinn skerf, og svo er ég snúinn aftur á Töfluna eftir rólegt tímabil. Þar við bætist skólinn og svo ýmislegt fleira. Þetta eru samt smærri skýringarnar. Aðalskýringin er þessi: Ég er ekki eins spenntur og ég var fyrir því að velta mér upp úr dægurmálum. Pólitík á hug minn allan, en ég held að ég líti í seinni tíð minna í hornin sem hinir eru að líta í. Annars vegar er þeoría mér mjög hugleikin, hins vegar eitt og annað mál sem ekki fær mikla athygli, sbr. ítarlega umfjöllun mína um Nepal á tímabili.

Jæja, þá vitið þið það, þið sem voruð að velta þessu fyrir ykkur. Ég er farinn í háttinn.

No comments:

Post a Comment