Nú eru forsetakosningar, einhverjar þær óáhugaverðustu kosningar sem ég man eftir. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að velja milli meinleysingja og fábjána sem er of mislukkaður til að standa undir nafninu lýðskrumari. Og það kemur varla á óvart að allt að tíu prósent þjóðarinnar vilji hann sem forseta. Ég meina, kosningahegðunin hingað til gefur ekki tilefni til bjartsýni, er það? Nóg um það.
Ég veit ekki hvað Guðna Th. gekk til þegar hann svaraði spurningu vinar míns, á bókakynningu í Sögufélagi fyrir allmörgum árum. Það var verið að ræða Óvini ríkisins og vinur minn spurði Guðna um hans afstöðu, hvort honum þætti réttlætanlegt að beita símhlerunum gegn pólitískum andstæðingum, í þessu tilfelli sósíalistum og já, það var kalt stríð.
Sem ég segi, ég veit ekki hvað Guðna gekk til, en hann sagði að kannski væri "réttlætanlegt að víkja leikreglum lýðræðisins til hliðar til þess að vernda lýðræðið". Einmitt. Til að vernda borgarastéttina, hefði einhver getað skilið þetta. Ég ætla samt ekki að reyna að túlka þessi orð, ég tek þau bara á nafnverði.
Minn málstaður heitir sósíalismi og hann er ekki í framboði í þessum kosningum. Þannig að spurningin er hvort ég á að nenna að fara og skila auðu á morgun.
No comments:
Post a Comment