Thursday, April 23, 2020

Gleðilegt sumar ... í skugga asnans

Alveg er Facebook að gera mig gráhærðan. Mér kemur í hug hvað Jón Vídalín hefur eftir gríska ræðuskörungnum Demosþenesi: Þegar ég held ræðu um skugga asnans, leggja allir við hlustir. En þegar ég held ræðu um þarfir borgríkisins, þá loka allir eyrunum. Þannig er Facebook. Maður póstar mynd af þúfu með blómi á, og fær 50 læk. Maður póstar hlekk á mikilvæga grein um umhverfismál eða kannski mannréttindi, og fær 6 læk. Viðbrögðin reyna að draga mann til þess að tala um eitthvað sem er skemmtilegt en skiptir litlu máli, og fá mann til að halda sér saman um hitt. Maður finnur hvernig það spillir manni. En vera má að það sé ekki að öllu leyti við algríminn að sakast; er þetta ekki bara það sem fólkið vill? Það vill brauð og leika, skoða blóm og hugsa um skugga asnans, en nennir ekki að hugsa um erfiða hluti sem valda áhyggjum eða skylda okkur til athafna, til að bjarga heiminum og okkur sjálfum með.
-- -- -- --
Ég er auðvitað engin undantekning. Ég get rausað um fólk, en sjálfur er ég fólk. Ég er orðinn dauðþreyttur á átökum og langar bara til að velta mér upp úr grúski og safna hlutum og reynslu sem gera lífið skemmtilegra.

No comments:

Post a Comment