Thursday, September 13, 2012

Andstaðan við ESB-andstöðuna

Spurning: Hvað kallar maður fólk sem segist vera á móti aðild Íslands að ESB (eða eins og það orðar það sjálft svo varfærnislega, að „telja hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB“) en kýs samt með aðildarumsókn? Kýs með umsókn eða styður hana? Það eru til ýmis kjarnmikil nöfn á það, en í minni heimasveit heitir það að vera tækifærissinni.

Tækifærissinni hefur það höfuðmarkmið að komast til valda. Völdin eru ekki verkfæri, heldur eru þau sjálft markmiðið. Að við höfum völdin til þess að hinir hafi þau ekki. Við höfum okkar skoðanir, en erum tilbúin að semja um þær í staðinn fyrir völd.

Það er aumkvunarverð afstaða að þykjast vera á móti aðild, styðja samt umsóknina og aðildarferlið, og hatast svo út í ESB-andstæðinga sem beita sér í alvörunni gegn umsókninni og aðildarferlinu.

Í október í hittifyrra skrifaði Árni Þór Sigurðsson eina svona grein, „Evrópuvakt í gíslingu öfgahægrimanna“. Honum finnst Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason vera svo miklir delar að það sé vont að þeir séu áhrifamiklir í andófshreyfingunni gegn ESB. Ég skrifaði athugasemd sem einhverra hluta vegna hvarf af Smugu-vefnum (einskær tilviljun, er ég viss um) en þökk sé Evrópuvaktinni (!) getið þið ennþá lesið hana. Árni getur trútt um talað, hvernig ESB-andstæðingar eigi að haga baráttu sinni. Ef þeir greiddu allir atkvæði eins og hann gerði sjálfur, þann dimma dag 16. júlí 2009, þá þyrfti Evrópusambandið ekki stuðningsmenn á Íslandi.

Nú höggva Elías og Huginn í sama knérunn í annarri svona grein á Smugunni: Teboðshreyfing á Íslandi? Þeir standast það ekki að hnýta í þá VG-félaga sem meina það þegar þeir segjast vera á móti ESB-aðild, og reyna sama ódýra bragðið og Árni Þór, að spyrða þá saman við öfgahægriöfl og stilla þeim upp sem leiksoppum þeirra. Við skulum átta okkur á einu: Þótt ESB-sinnar séu tiltölulega einsleitur hópur, þá eru ESB-andstæðingar það ekki. Ég hef mínar góðu og vinstrisinnuðu ástæður fyrir að vera í alvörunni á móti ESB-aðild. Hægri-andstæðingar hafa annars konar ástæður. Niðurstaðan er samt sú sama: Nei við ESB. Í máli eins og þessu þurfa menn, sem eru ósammála um flest annað, að kyngja annarri misklíð og snúa bökum saman fyrir sameiginlegan málstað í einsmálssamtökum eins og Heimssýn. Ef Árni, Elías og Huginn meina það sem þeir segja, þá verður það ekki skilið öðruvísi en að þeir vilji að ESB-andstæðingar séu sundraðir. Dragi nú hver sem vill sínar ályktanir af því.

Við þessa herramenn – og alla aðra sem eru ESB-andstæðingar í hjartanu en eru svo pragmatískir að þeir hegða sér þveröfugt – vil ég segja og spyrja: Ef þið viljið ekki að öfgahægriöfl ráði ESB-andstöðuhreyfingunni, af hverju eftirlátið þið þeim þá sviðið? Af hverju látið þið ekki til ykkar taka og leggið vinstriandstöðunni lið? Eruð þið kannski meira á móti ESB-andstöðu heldur en ESB-aðild?

No comments:

Post a Comment