Monday, February 12, 2007

Hetjur hafsins og allt það...

Íslenskir sjómenn hafa löngum verið lofsungnir fyrir fórnfúst framlag til þjóðarbúsins. "Þeir eru hafsins hetjur" er þema sem er regla. Þessi lofsöngur er verðskuldaður -- ekki síst fyrr á tíð þegar mannskaðar á sjó tóku hryllilegan toll af sonum þjóðarinnar -- og um leið fyrirvinnurnar af fjölskyldum, syni, feður og bræður. Já, fórnir sjómannastéttarinnar hafa víst verið yfrið nægar til að afla henni virðingar.

Hin hliðin á peningnum hefur oft gleymst. Fiskverkakonur faldar inni í frystihúsum, eða norpandi á saltfiskplönum, með frostsprungna fingurgómana eða, í besta falli, illa haldnar af þrálátri sinaskeiðabólgu vegna einhæfra hreyfinga við að flaka fisk eða ormhreinsa. Nú er sinaskeiðabólga sjaldan mannskæð, en framlag fiskverkakvennanna er síst minna vert heldur en sjómannanna sem öllum þykir eðlilegt að lofa í hástert.

Bæði hlutverkin eru auðvitað jafn mikilvæg, að veiða fiskinn og að vinna úr honum. Bæði kynin ættu auðvitað að njóta sömu virðingar. Slorugir karlar eru einfaldlega ekki aðdáunarverðari en slorugar konur. Þau eru jafn aðdáunarverð. Jæja, að vísu er það talsvert suddalegra að vera í vinnu sem felur í sér stöðugan lífsháska. Ekki það, að það hafa víst orðið talsverðar framfarir í öryggismálum til sjós undanfarna áratugi.

En hér er spurningin sem ég vildi koma að: Ef sjómenn og fiskverkakonur leggja ámóta mikið til hagkerfisins, hver er þá hinn eðlilegi eigandi veiðiheimildanna?

No comments:

Post a Comment