Wednesday, April 5, 2006

Svolítil greinargerð um ástandið í Nepal í byrjun apríl

Á morgun, fimmtudag, hefst fjögurra daga allsherjarverkfall í Nepal. Á meðan á því stendur munu maóistar leggja niður vopn.

Sumir byltingarsinnar hafa gefið upp vonina á Prachanda og maóistana. Segja að þeir hafi selt sig burgeisunum með hrossakaupum um að stefnt skuli á lýðveldisstofnun með borgaralegu fyrirkomulagi, frekar en að taka völdin og stofna sósíalískt ríki í stað lénsks einveldis. Ég veit ekki. Ég held að forysta maóista sé ekki að svíkja byltinguna. Prachanda hefur gagnrýnt Lenín, Stalín og Maó og sagt að hann og aðrir í forystusveit maóistanna vilji „læra af mistökum“ þeirra. Hann nefnir að vísu aðallega niðurstöður fyrri byltinga og að þeir vilji læra af mistökum á borð við persónudýrkun eða að forystusveitin verði ómissandi og þar af leiðandi valdameiri en gott er. Ég fæ ekki séð annað en að þetta sé hárrétt hjá honum. Það dylst varla neinum að Lenín, Stalín og Maó eru þarna til tals -- en síðan hvenær eru þeir dýrlingar sem ekki má gagnrýna?

Lýðveldisstofnun -- ég held að hún sé af hinu góða í sjálfu sér, skref fram á við. Það er hins vegar réttmæt spurning hvort menn eigi að láta þar við sitja, eða láta kné fylgja kviði og taka öll völd þegar þeir geta það. Ég er á báðum áttum. Hallast helst að því að byrja á lýðveldisstofnun og stjórnlagaþingi, og næsta skref yrði þá útkljáð í næstu lotu, þegar lýðveldisskipulag hefur fest sig í sessi. Á hitt hefur verið bent, að hlutverk kommúnista og kommúnistaflokka sé að veita fólkinu forystu í byltingu, nú sé byltingin möguleg, og að enginn geti sigrað fólkið þegar það stendur saman. „Forysta í byltingu“, hlýtur það ekki að merkja að menn leggist á árarnar til þess að byltingin haldi áfram þangað til björninn er unninn? Það má hugsa sér að stríði fólksins ljúki ekki með lýðveldisstofnun, heldur taki maóistar völdin í landinu í sínar hendur. Það gerist ekki gegn vilja fólksins. Hvað svo? Fyrst þyrfti að brjóta gagnbyltingaröfl innanlands á bak aftur. Svo mætti búast við innrás erlendra ríkja til að reyna líka gagnbyltingu. Þá mætti búast við því að nepalska þjóðin mundi sameinast gegn innrásinni, National Front yrði þá til í stað People's Front og mundi þjappa þjóðinni saman um unninn byltingarsigur. Skæruhernaður yrði innrásarherjum þungur í skauti og mundi á endanum hrekja hann úr landi.

Maður spyr sig samt, yrði fórnarkostnaðurinn of mikill? Hvenær er fórnarkostnaður of mikill til að bylting geti verið hið rétta í stöðunni? Vissulega eru það afturhaldsöflin sem eiga upptökin að ofbeldinu. Krúnan og jarðeignaaðallinn núna, innrásarherinn ef það yrði gerð innrás. Þótt það sé fjarri mér að telja það rétt af fólkinu að gefa sífellt eftir -- þá mundi ég ekki vilja vera í þeirri stöðu að þurfa að velja. Valkost, sem felur í sér dauða þúsunda og þjáningar hundruða þúsunda, er erfitt að meta sem góðan, jafnvel þótt hörmungarnar yrðu á ábyrgð einhvers annars.

Á hinn bóginn, hvaða valkostur er það að ofurselja milljónir manna áframhaldandi arðráni og áhrifaleysi og ofbeldi af hálfu spilltra yfirvalda, ef það er mögulegt að gera byltingu að sópa þessu öllu út í hafsauga og byggja ríki af nýju tagi á rústunum? Ef það er mögulegt að gera farsæla byltingu og frelsa 25 milljónir manna úr ánauð -- og þá meina ég alveg úr ánauð, ekki bara með annan fótinn -- ef þetta er mögulegt, maður hefur aðstöðu til að beina atburðarásinni í þann farveg, og maður gerir það ekki, hvað er maður þá? Byltingarmaðurinn sem hrökk þegar hann gat stokkið. Maðurinn sem brast þegar hann þurfti að halda?

„Ef heimsbyltingin á öll að fara fram í einni atrennu verður engin bylting“ var mér sagt. Það er nú það. Á hvaða stigi stéttabaráttunnar erum við? Um það er varla hægt að segja nema eftir á. Á hvaða stigi voru Rússar 1917 eða Kínverjar 1949? Voru þeir tilbúnir fyrir byltinguna? Ef maður skoðar söguleg lögmál stéttabaráttunnar, er þá hægt að gera byltingu fyrr en tíminn er réttur? Eru líkur á því að heilbrigður kjúklingur komi úr eggi ef skurnin er brotin of snemma? Hvenær er bylting tímabær? Þegar hún heppnast? Ætli það sé til nokkur betri mælikvarði en það?

Hugsum okkur tvo valkosti: Annaðhvort það sem að ofan hefur verið lýst, að Nepal upplifi áframhaldandi byltingu, með öllu sem henni tilheyrir. Ellegar þá að kónginum verði gerð skil, lýðveldi stofnað og unnið á þeim grundvelli og beðið eftir því að aftur komi tími þegar byltingin er möguleg, og vona þá að til verði nógu traust skipulag meðal fólksins til að framkvæma hana örugglega og skipulega. Síðari kosturinn hefur þann galla að við getum ekki vitað hvort fólkið verður almennilega skipulagt við næstu byltingaraðstæður. Það er það núna, það gæti gert þetta núna. Á að hætta á blóðbað eða reginsvik í næstu umferð ef það gæti verið hægt að leiða hana til lykta núna? Eða á að nota dampinn og skipulagið sem núna eru og stofna „sósíalisma í einu landi“? Þegar Prachanda talar um að „læra af mistökum fortíðar“ -- hvað leynist þá á bak við orðin?

Ég get, skiljanlega, ekki sagt nákvæmlega til um hvað er rétt og hvað er rangt að gera við þessar aðstæður. Áframhaldandi bylting hljómar betur í mínum eyrum -- hún mundi ábyggilega heppnast ef fólkið vill hana og ef flokkurinn svíkur það ekki -- og fórnirnar þyrftu ekki að verða óbærilegar samanborið við ávinninginn: Þjóðfrelsi og sósíalisma. Fórnirnar hafa nú þegar verið það miklar að það væri móðgun við píslarvotta byltingarinnar að hún færi út af sporinu núna. Hitt játa ég, að mér þykir skiljanlegt að Prachanda og menn hans tali um að kapp sé best með forsjá, og svoleiðis. Prachanda er líklega valdamesti maður í Nepal -- og þegar menn eru í slíkri stöðu öðlast þeir mikla ábyrgð. Sagan dæmir valdamenn sem axla ekki ábyrgð sína. Nú er spurningin, hvort er ábyrgara: Að halda byltingunni áfram og leiða vígamóða alþýðuna til sigurs, sem etv. ynnist ekki fyrr en eftir einhver ár í viðbót -- eða að vinna áfangasigur og festa hann í sessi, en geyma næsta skref til næstu lotu.

No comments:

Post a Comment