Friday, April 24, 2009

Hvað á að kjósa?

Í kosningum má gróflega skipta byltingarsinnum í tvo hópa, þá sem vilja frekar styðja skásta kost heldur en ekkert, og þá sem neita að styðja borgaraleg framboð. Nú eru sjö framboð sem munu keppa um hylli kjósenda á laugardaginn kemur, öll borgaraleg. Ég ætla hvorki að eyða orðum í hægriflokkana fjóra né Ástþór Magnússon að sinni. Þá eru eftir Vinstrihreyfingin-grænt framboð og Borgarahreyfingin, framboðin tvö sem vekja mesta athygli fólks sem vill alvöru breytingar.

Thursday, April 9, 2009

Að vera kommi en kjósa krata

Steingrímur J. segir: Ekki tveir turnar heldur þrír.

Ég vil byrja á að taka það fram að ég reikna með að kjósa VG í komandi kosningum.

Steingrímur segir tillögur VG vera "hófstilltar" og "ábyrgar" -- ég skal ekki dæma um það, en er núna tíminn fyrir "hófstilltar" tillögur? Ég meina, ástandið sem íhaldið skildi eftir sig er ekki beint hófstillt, er það? Ef þið spyrjið mig væri nær að setja fram róttækar tillögur. Og ábyrgar? Ábyrgar gagnvart hverjum?

Ég mun kjósa VG nema eitthvað makalaust komi upp á, og ég hvet aðra til hins sama. Hinir flokkarnir eru meira og minna handónýtir. Að því sögðu, þá er rétt að fram komi að þótt VG séu besti kostur í stöðunni, þá má samt finna ýmislegt að þeim. Tékkið á þessu:

Af efnahagsmálum á landsfundi Vinstri-grænna og:
VG og sósíalisminn eftir sjálfan mig, og:
Nokkur orð um VG eftir Þórarinn Hjartarson.

Farið svo og kjósið VG, en ekki halda að þið séuð að kjósa einhvern sósíalistaflokk, hvað þá kommúnistaflokk. VG er vinstrikratískur flokkur, en sá besti sem við eigum í stöðunni.

Monday, April 6, 2009

Köllum það sínu rétta nafni

Jónas Kristjánsson skrifar:
Hugmyndafræði [Alþjóðagjaldeyris]sjóðsins er gömul og úrelt, af sumum fræðimönnum beinlínis talin vera glæpsamleg.
Þetta er út af fyrir sig rétt hjá honum. En til að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, þá kallast þessi stefna heimsvaldastefna á mannamáli: Alþjóðavæðing fjármálaauðvaldsins og hæsta stig auðvaldsskipulagsins. Það verður ekki bakkað frá henni, aftur á bak í hagþróun. Eina leiðin út úr þessari bóndabeygju er áfram -- kollvarpa auðvaldsskipulaginu, og taka í staðinn upp nýtt þjóðskipulag á öðrum og manneskjulegri forsendum: Lýðræði, mannréttindi, réttlæti og skynsemi eiga að vera útgangspunktarnir. Með öðrum orðum, sósíalismi.

Thursday, April 2, 2009

A-manneskja

Eldey vaknaði um hálfsjö-leytið í morgun. Öllum að óvörum rak hún upp skellihlátur.
Það er allavega greinilegt að hún hefur ekki morgungeðvonskuna úr föðurættinni.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Afhendingar tvær:

Litlu vil ég lofa um hvað leysa kratar,
formenn þeirra og flokkasnatar.

En bráðum kemur byltingin með blóm í haga,
og sósíalíska sumardaga.
Mér skilst að Ísland taki við færri flóttamönnum en nokkurt annað vestrænt ríki. Hverslags ræfilgangur er þetta, að þykjast ekki geta veitt hröktu og örvæntingarfullu fólki athvarf? Einhvern tímann var talað um hvað Íslendingar væru gestrisnir. Ætli þeim hafi fundist það, Böskunum sem Ari í Ögri drap hér um árið? Eða gyðingunum sem voru sendir aftur í klærnar á nasistum? Ætli við höfum lært eitthvað af þeim dýrkeyptu mistökum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Réttindi kvenna hafa oft verið notuð sem átylla fyrir árásarstríðinu og hernáminu á Afganistan. Talibanar voru svo vondir en Ameríkanar eru svo góðir, nefnilega. Þess vegna er það víst kvenfjandsamlegt að vilja að Afganistan verði sjálfstætt ríki. Eða, það mætti halda það ef maður tryði áróðrinum. Stjórnarskrá landsins ku taka það fram að engin lög megi brjóta í bága við íslam. Þessi frétt segir líka sitt. Mér þykir lítið standa eftir af meintum ávinningi afganskra kvenna af hernáminu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvers vegna á Omar al-Bashir að sætta sig við að vera tekinn fastur vegna ódæða í Darfur, ef George Bush fær að leika lausum hala þrátt fyrir ódæði í Írak, Afganistan, Sómalíu, Kúbu, Bandaríkjunum og víðar?

Á ráðstefnunni sem við Rósa fórum á í Cairo í fyrra, talaði Rósa við konu frá Súdan. Sú hélt nú ekki að það væri neitt þjóðarmorð í gangi í Darfur. Seisei nei. Tryðum við öllu sem við læsum í fjölmiðlum? Við skyldum bara skella okkur þangað sjálf og sjá með eigin augum. Ættum við á hættu að verða myrt eða nauðgað eða eitthvað slíkt? Við ættum það líka á hættu ef við værum stödd í, segjum, New York, er það ekki?

Þetta dugði nú ekki alveg til að sannfæra okkur um að allt væri með felldu í Darfur, og við höfðum ekki tíma til að þekkjast heimboð konunnar góðu.

Wednesday, April 1, 2009

VG og sósíalisminn

Það er grein eftir mig á Egginni í dag -- VG og sósíalisminn:
Á landsfundi Vinstri-grænna var lögð fram ályktunartillaga, sem ég var meðflutningsmaður að, þess efnis að Vinstrihreyfingin-grænt framboð væri sósíalískur flokkur og skyldi kalla sig það. Flokkurinn væri nú þegar yfirlýstur feminískur og umhverfisverndarsinnaður, en verkalýðsmálin hefðu orðið útundan og því skyldi kippa í liðinn með þessari yfirlýsingu. Samþykkt var að vísa tillögunni, lítið breyttri, til flokksráðs til afgreiðslu. Þetta segir sitt.
Lesa restina: VG og sósíalisminn