Friday, September 25, 2009

Fréttir af skónum mínum

Vinstra stígvélið mitt er drasl, það er með einhverjum flipa sem losnaði í þriðja eða fjórða skiptið sem ég fór í það og skósmiðurinn er búinn að festa hann og hann rifnaði aftur. Svo setti skósmiðurinn annan flipa yfir, sá rifnaði líka og hann límdi hann og hann rifnaði aftur. Svo setti hann annan flipa yfir þann. Það var verulega erfitt að komast í stígvélið þá, enda ekki mjög vítt til að byrja með, og auk þess ... rifnaði nýi flipinn frá. Límdur, rifnaði aftur. Ég gafst þá upp og þarf nú að nota skóhorn í yfirstærð til þess að komast auðveldlega í stígvélið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um að gefast upp, þá hef ég notað sömu leðurgrifflurnar daglega í mörg ár. Eftir því sem þær hafa slitnað hefur skóarinn bætt þær, aftur og aftur. Nú er svo komið að elstu bæturnar eru orðanar svo slitnar að það þyrfti að bæta þær. Upprunalega leðrið er orðið svo morkið að það heldur ekki tvinna svo vel sé og starfsheiður skósmiðsins, sem iðnmeistara, forbýður honum að koma nálægt þeim aftur, svipað og hárskerameistari sem vinnur ekki með skítugt hár eða skraddari sem gerir ekki við skítug för. Ég meina, menn hafa nú standard. Þá spyr ég, þekkir einhver skósmið, leðursmið, söðlasmið eða einhvern sem getur lappað upp á skyrmorknar leðurgrifflur með svörtum leðurbótum?

No comments:

Post a Comment