Wednesday, September 29, 2004

Fáheyrt! Hugsa sér að þessir sokkar skuli vera svo óforskammaðir að telja sér stætt á þessu! Einhvers staðar á nú eftir að heyrast hljóð úr horni, er ég hræddur um! Nepótisminn allsráðandi, spilling og fyrirgreiðsla.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

olíuverðið er komið upp í rjáfur. 50 dollarar tunnan, síðast þegar ég vissi. Það er engin ástæða til bjartsýni, það á ekki eftir að lækka mikið aftur. Ekki í bráð, og varla nokkurn tímann. Að öllum líkindum erum við að horfa á fyrstu ummerki olíutindsins svokallaða - þegar olíuframleiðsla heimsins nær hámarki og fer að dragast saman aftur. Hraðar og hraðar. Hvað kemur í staðinn? Tja, ég býst við að við getum alltaf bitið gras.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í Nepal stendur yfir allsherjarverkfall. Maóistum gengur nokkuð vel í byltingarstríðinu gegn harðstjóra-einvaldinum Gyanendra og forneskjulegu aðalsveldinu. Byltingarstríð nepalskra maóista er nokkuð sem ég fylgist með af áhuga. Las um daginn málgagn þeirra og þeir eru með allt á hreinu, fræðilega séð. Ég er bjartsýnn á að þeir hafi þetta.

Wednesday, September 22, 2004

Kominn heim frá Ungverjalandi. Ferðing þangað, dvölin þar og ferðin heim gekk allt eins og í sögu. (Eiginlega svo vel að mér datt helst í hug að ég væri orðinn vanur ferðamaður.) Mér tókst meira að segja að bjarga mér smávegis á ungversku!



Ég lenti á Stansted kl. 8:30 í gærmorgun (þriðjudag). Tók lest niður í bæ. Þar sem ég átti nokkra klukkutíma í heimsborginni ákvað ég að fara í bókabúðir. Ég hafði farið á stúfana daginn áður og leitað á netinu og þetta er búðin sem ég fór í fyrst:

Housmans Bookshop

5 Caledonian Road

London N1 9DX


Leiðbeiningar: Farið með Underground á King's Cross St. Pancras. Finnið götu sem heitir York Way. Gangið hana frá lestarstöðinni. Fyrsta gata til hægri heitir Caledonian Street. Hún endar í Caledonian Road og þetta er númer 5.

Housmans Bookshop er róttæk bókabúð. Þar er bæði venjuleg bókabúðar-deild, ritfangadeild, deild með róttækum blöðum og loks, síðast en ekki síst, fornbókadeild (second hand)!

Ég undi mér þarna nokkra stund og rogaðist á endanum út með fullan plastpoka. Þarna mun ég koma aftur og með fleiri peningaseðla en síðast. Í húsinu við hliðina (Cal.Rd. 7 eða 9) er svo krá sem er ódýr og subbuleg en selur ágætan Guinness.

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Fleyg orð: „Ég ber [konuna mína] vegna þess að kona á að óttast eiginmann sinn og með þessu móti neyði ég hana til að virða mig“ - svo segir karl einn í Íran. Hann hlýtur að vera alveg ótrúlega heimskur; flestir sem hugsa svona hafa nú í það minnsta vit á að þegja um það...

Sunday, September 12, 2004

Tilkynning:

Takið frá miðvikudaginn 29. september næstkomandi, einkum kvöldið, og kannski seinni hluta síðdegisins. Nánar útskýrt síðar.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í gær stóð, eins og alkunna er, Gagnauga.isminningardagskrá um fórnarlömb fjöldamorðanna 11. september 2001. Yfirskriftin var Opið sár. Dagskrána má sjá hér. Ég var þarna.



Hér fylgir lausleg endursögn á því helsta sem kom fram, ásamt því sem ég hugsaði meðan ég hlustaði á framsögurnar.



Ögmundur Jónasson fór á kostum. Fyrirlestur hans hefði átt að varðveitast á spólu. Ég vona að hann setji hann í það minnsta á síðuna sína. Ögmundur talaði um pólítísk eftirköst atburðanna, en ræddi ekki minna um formálann að þeim, sem vitanlega er mjög mikilvægt að skilja, enda samhengi í þeim. Það varð ekki grundvallarstefnurbreyting í utanríkisstefnu Bandaríkjanna þann 11. september. Atburðirnir virkuðu sem katalysator og urðu bandarísku valdastéttinni átylla til að koma fram vilja sínum við þjóð heims á óvægnari og sérplægnari hátt en áður. Viðhorf almennings breyttust, en réttara er að segja að þeim var breytt. Þessir heiðursmenn voru einnig til umræðu, auk þessara heiðursmanna.

Stöðug skæðadrífa áróðurs dynur á okkur. Haldið er að okkur vondum fréttum af vondu fólki sem er skuggalegt á litinn og hyggur flátt. Hryðjuverkamenn liggja í fleti fyrir undir rúmunum okkar og við hlaupum skelkuð í faðminn á stórabróður, sem lofar að passa okkur. Dæminu er snúið við: Palestínumenn, sem berjast fyrir frelsi og mannréttindum, eru gerðir að herskáum óþokkum. Íraqar, sem berjast fyrir þjóðfrelsi og yfirráðum yfir eigin landi, eru gerðir að uppreisnarklerkum og glæpamönnum. Þriðji heimurinn, sem berst gegn arðráni og heimsvaldastefnu á skilið sín óskemmtilegu örlög.

Þeir sem veita viðnám heimsvaldastefnu Bandaríkjastjórnar eru óvinir hennar. Með því að vekja upp draug Óvinarins - sem í þetta sinn er holdgerður í hryðjuverkamönnum - er réttlætt stríð gegn andstæðingum Bandaríkjstjórnar. Látið er sem þessi andstæðingurinn sem barist er við sé skeggjaður ofstækismaður í pakistönskum helli. Sannleikurinn er sá, að spjótunum er beint gegn okkur. Alþýðu manna.



Næst talaði Kristín María Birgisdóttir, formaður Ungra frjálslyndra. Hennar umfjöllunarefni var skerðing mannréttinda í kjölfar fjöldamorðanna. Meðal þess sem hún talaði um var PATRIOT Act og sú fáheyrða aðferð sem þar var við höfð: Mannréttindi Bandaríkjamanna skorin við trog á einu bretti, yfirvöldum færð óhugnanleg völd og samtímis því sem einkamál fólks eru gerð opinber er starfsemi hins opinbera sveipað stöðugt meiri dulúð, öfugt við það sem eðlilegt er. Það vottar fyrir þessu sama hér á Íslandi. Útlendingalöggjöf og stækkun sérsveitar þessa heiðursmanns er hluti af því sama. Að ógleymdum íslenska hernum, sem um þessar mundir heldur hlífiskildi yfir ópíumsmyglurum á Kabúlflugvelli.

Grýlurnar hafa verið margar í gegn um tíðina. Nefna má hina klassísku: Hitler, Stalín, Maó, Pol Pot, Khomeini. Nú í seinni tíð Saddam og Ósama. Er Bush að taka á sig mynd grýlu líka?

Hvort er betra, slæmur friður eða réttlátt stríð?

Hversu trúverðug samtök eru Sameinuðu þjóðirnar, þegar varla eitt einasta aðildarríki (ef ekki bókstaflega ekkert) stendur við skuldbindingar sínar, svo sem um mannréttindi?



Þriðji á mælendaskrá var Elías Davíðsson. Hann byrjaði á að tala um atburðina sjálfa. Hvað gerðist? Hryðjuverk? Hvað eru hryðjuverk? Er til einhver opinber skilgreining á þeim? Nei. Hvers vegna er verið að gera greinarmun á hryðjuverkum og öðrum glæpum? Hver er munurinn á því að drepa mann og að drepa mann? Hvað eru atburðirnir 11. september annað en fjöldamorð? Þá á líka að rannsaka þá sem slíkt. Sem glæpamál. Það hefur Bandaríkjastjórn ekki gert. Þvert á móti hefur hún lagt á sig krók til að leggja stein í götu rannsakenda.

Mörgum spurningum er ósvarað varðandi 11. september. Hvort fór flug 77 frá hliði 26 eða 32? Hvoru tveggja er haldið fram. Hvernig var hægt að hringja úr síma í flugvélinni? Það er ekki hægt í alvörunni.

Hvernig stendur á því að þetta fjöldamorð átti sér stað? Ef þetta var værukærð, eins og sagt er, hvers vegna hefur enginn verið víttur fyrir saknæma vanrækslu? Vanefndum hers og stjórnsýslu getur ekki verið um að kenna; þá hefðu einhverjir verið látnir svara til saka.

Fórnarlömb 11. september dóu fæst þann 11. september. Um 3000 dóu þá. Auk þeirra hafa þúsundir dáið í Afghanistan og þúsundir í Íraq. Það sér enn ekki fyrir endann á afleiðingunum. Fórnarlömbin hrannast ennþá upp. Sakamenn á valdastóli í Bandaríkjunum hafa gert Bandaríkin að útlagaríki; gráðugu heimsvaldaríki sem svífst einskis.



Á eftir þessu var minningarstund, þar sem lesin voru ljóð og leikið undir á kontrabassa. Virkilega vel heppnuð athöfn, og það gladdi mitt guðlausa hjarta, að æðri máttarvöld voru víðs fjarri. Það þarf ekki alltaf að blanda hjátrú inn í helgiathafnir!

Eftir minningarstundina voru sýndar tvær myndir um 9/11: Truth and Lies of 9/11 og Painful Deception. Báðar þessar myndir eru frábærar, og þótt ég hafi séð aðra þeirra tvisvar áður og hins þrisvar eða fjórum sinnum, þá horfði ég á báðar aftur. Þær eru þess virði! Í stuttu máli er rakinn langur listi af ósennilegum staðhæfingum og hvers vegna þær eru ósennilegar, tekin fyrir dæmi um augljósar lygar yfirvalda varðandi árásirnar, og líkum leitt að öðrum mögulegum skýringum en hinni opinberu. Sjá meira um þær hér. (Og næst þegar þær verða sýndar skuluð þið sko drífa í því að sjá þær!)



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Úr fréttum:

---- Hafnarstjórn New York stefnir Saúdi-Arabíu fyrir hryðjuverkin 9/11. Gott hjá hafnarstjórninni. Vonandi eru þeir með góðan lögfræðing og eldmóð sem dugir þeim til sigurs.

---- Bandarískir stríðsglæpamenn fórna peði. Einum böðli refsað. Einni undirtyllu. Einu handbendi. Ætli einhver trúi því að þessi ógæfumaður hafi tekið upp á því upp á eigið einsdæmi að pína saklausa? Sökin gengur alla leið upp metorðastigann. Rumsfeld er samsekur. Ef sá skrattakollur væri heiðursmaður hefði hann sagt af sér núna. Sagt af sér og gengið í klaustur.

---- Bush með forskot á Kerry. Hvað með það? Ef Bush verður áfram forseti verða stefnumálin óbreytt. Þá verður farið í nokkur stríð á kjörtímabilinu (eins og venjan er) og athyglinni beint í auknum mæli að S-Ameríku. Ef Kerry er kosinn? Ósköp svipað. Ætli verði ekki stungið dúsu upp í borgaralega stjórnarandstæðinga. Ætli „verkalýðsaðallinn“ svokallaði verði ekki keyptur með mútum. Ekki það, að Kerry á varla eftir að verða forseti. Ef það stefnir í að hann vinni kosningarnar verður gert hryðjuverk nálægt miðjum október. Mark my words. Fylgið sópast að Bush, sem gersigrar, nema þá að verði lýst herlögum og kosningar einfaldlega blásnar af. Það er ekki fráleitur möguleiki. Fyrir utan það er líklegt að bin Laden (muniði eftir honum?) finnist í haust.

---- 40% Bandaríkjamanna trúa því að Saddam hafi staðið á bak við 9/11. Ekki skrítið, miðað við heilaþvottinn og áróðurinn sem hefur dunið á þeim.

---- Bush stýrði minningarathöfn um fórnarlömg 9/11 í Rósagarðinum við Hvíta húsið og það setur að mér klígju. Ef ég væri fórnarlamb 9/11 og þessi morðingi saurgaði minningu mína svona, þá mundi ég ganga aftur og gera hann gráhærðan. Hugsa sér hræsnina, skinhelgina, yfirlætið. Ef eitthvað í líkingu við réttlætiskennd, bróðurkærleik eða sanngirni bærðist undir höfuðleðrinu á hr. Bush, þá hefði hann haldið talsvert öðruvísi á spilunum en hann hefur gert. Ég tek dæmi: Í staðinn fyrirnota 9/11 sem átyllu fyrir nýtt stig í heimsyfirráðastefnu Bandaríkjanna hefði hann leitað framsækinna leiða til að draga úr andúð sumra manna á þeim. Í staðinn fyrirkoma með beinum hætti í veg fyrir alvöru rannsókn á 9/11 hefði hann hjálpað til með beinum hætti. Og í staðinn fyrir að vera sjálfur viðriðinn tröllaukin hryðjuverk gegn sinni eigin þjóð hefði hann komið í veg fyrir að 9/11 ætti sér stað. Annars vísa ég í þarsíðasta blogg til frekari glöggvunar.

---- Ódýr brögð hjá Rússum. Ja, kannski ekki ódýr í þeim skilningi, að Júdasarpeningarnir eru auðvitað miklir, en ódýr brögð fyrir því. Ég verð að játa að ég brosti út í annað yfir að skæruliðarnir hefðu svarað í sömu mynt, með því að setja fé til höfuðs Pútín.



---- „Sumir eru þó efins um að rétt sé að sýna Hitler sem mannveru, sérstaklega sé það varhugavert í þýskri kvikmynd.“ Hvað er málið? Efins um að rétt sé að sýna hann sem mannveru?? Hvað á hann að hafa verið, annað en mannvera? Mannvera með alvarlega bresti í persónuleikanum já, kolgeggjaður já og vitfirrtur, já, en mannvera var hann nú samt. Sem hvað ætti annars að sýna hann? Það er kominn tími til að fólk átti sig á að til eru margar og misjafnlega fagrar tegundir af mannverum.....

(Hmmm... ætli Hitler hefði annars talist sakhæfur skv. nútíma viðmiðum?)

Thursday, September 9, 2004

Chechenía, Palestína, Nýtt afl og Kastljósið í fyrradag



Þar kom það, rússnesk yfirvöld munu nota hryðjuverkið í Beslan sem átyllu til að myrða chechenska aðskilnaðarsinna hvar sem til þeirra næst. Líka þá sem komu ekki nálægt þessu hryðjuverki, svo sem Mashkadov forseta. Með því að svipta chechensku þjóðina útlægri pólítískri forystu sinni er gengið milli bols og höfuðs á Chechenum pólítískt séð. Þegar leiðtogarnir eru felldir skapast auk þess hætta á að hreyfingar þeirra splundrist. Þegar tvenn eða þrenn samtök eru sannars vegar er hægt að semja við leiðtogana um að samtökin leggi niður vopn. Ef samtökins klofna upp og verða, þess vegna, margir tugir talsins, þá er um leið loku fyrir það skotið að hægt sé að semja við þau. Þá heldur stríðið áfram, rússnesku valdastéttinni til hagsbóta, en chechenska andspyrnan er veikluð og rússneskir pólítíkusar verða vinsælir meðal smáborgaralega þenkjandi fólk fyrir að miða vel í sínu „stríði gegn hryðjuverkum“ og hljóta endurkjör. Pottþétt plan, ekki satt?

~~~~~~~~~~~~~~~

Valdimar Jóhannsson frá Nýju afli var í viðtali hjá Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi sögu í gær. Helvíti mæltist honum vel um margt. Takið eftir þessu: Fyrir nokkrum árum fór Valdimar í mál við ríkisstjórn Íslands og kærði fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir að brjóta gegn jafnræðisrglu stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur dæmdi honum í vil, það er að segja, að fiskveiðistjórnunarkerfið væri ólöglegt. Undir það tóku einir 105 af (alls um 150) prófessorum við HÍ. Hvernig brást ríkisstjórnin við? Halldór og Davíð sögðu að þessir menn hefðu bara ekkert vit á þessu, væru illa upplýstir og hefðu rangt fyrir sér. Hin ólöglegu lög voru auðvitað ekki numin úr gildi. Eindreginn brotavilji.

Með upptöku kvótakerfisins var íslenska þjóðin rænd dýrmætustu eign sinni, fiskimiðunum. Á þessu þýfi hefur fámenn elíta ræningjabaróna og þjófsnauta („kvótakónga“) fleytt sér síðan. Fyrir mitt leyti finnst mér að það ætti að hafa þetta að engu og að menn fari bara og sæki sjóinn eins og þeim sýnist þangað til almennilegt kerfi hefur verið tekið upp. Borgaraleg óhlýðni er svarið.

Valdimar talaði líka um framkvæmdirnar fyrir austan og deCode-svindlið, meðal annars. Margt áhugavert kom fram. Framkvæmdirnar fyrir austan eru lýðskrum til að kaupa Framsóknarflokknum vinsældir, en meintur væntanlegur ávinningur af þeim er líkast til mun minni en látið er líta út fyrir. Tap er vel hugsanlegt. Margur maðkur í þeirri mysu. Skuldir Landsvirkjunar eru ekki taldar með skuldum ríkisins. Hvers vegna ekki? Einhverja kann að ráma í deCode-svindlið, þar sem stór hluti þjóðarinnar lét ginna sig til að leggja stórfé í deCode ævintýrið mikla. Hvað varð af því máli öllu? Hvers vegna lét fólk sig bara hafa það að vera haft að féþúfu?



Hér er ein ráðlegging: Ef það virðist vera of gott til að geta verið satt, þá er það yfirleitt ekki satt!

~~~~~~~~~~~~~~~

Sjálfsmorðsárásirnar í Beersheba í Ísrael hafa, skiljanlega, fengið mikla umfjöllun fjölmiðla nýverið. Eins og við mátti búast hafa vestrænir fjölmiðlamenn hallað réttu máli. Tek nokkur dæmi:



CBS News segir: 16 Dead In Israel Bus Bombs (CBS/AP) Palestinian suicide bombers blew up two buses in this Israeli desert city on Tuesday, killing at least 16 passengers and wounding more than 80 in the deadliest attack in nearly a year. The blasts ended a six-month lull in attacks Israel had said was a result of its separation barrier, arrest sweeps and a widespread network of informers.

Fréttastofa CBS heldur því fram að það hafi verið 6 mánaða kyrrð. Á undanförnum mánuðum hafa næstum því 400 Palestínumenn verið drepnir! Er það kyrrð?? Annað: „Ísrael segir kyrrðina vera vegna múrsins“ - þetta er étið gagnrýnislaust upp eftir Ísraelum. Múrinn er eitt allsherjar hryðjuverk, og ekkert annað. Þeir sem hann skýlir fyrst og fremst eru glæpamennirnir sem ræna landinu undan fótum Palestínumanna, landtökumennirnir. Múrinn bitnar á palestínsku þjóðinni og hann er glæpur gegn mannkyni.



Í rökréttu framhaldi af því étur Washington Post gagnrýnislaust upp eftir Ísraelum: „"What we've learned in the last half year is that where there is a fence, there's no terror, and where there isn't a fence, there is terror," said Public Security Minister Tzachi Hanegbi. "That is the equation."

Það mætti umorða þetta: Þar sem er veggur eru hryðjuverk, þar sem er ekki veggur eru stundum hryðjuverk. Veggurinn er hryðjuverk sjálfur.

(Hjá Washington Post rakst ég reyndar líka á þessa grein, þar sem hryðjuverk og önnur vígaferli af hálfu herskárra Palestínumanna eru fordæmd og sagt frá duldum hörmungum árása, svo sem hvernig sá sem er kallaður „særður“ er miklu meira en bara smávegis særður. Þessi grein er hlutdræg og það má gera athugasemdir við ýmislegt í henni, en eftir stendur spurningin: Hvers vegna sér maður ekki svona greinar um árásir Ísraela á Palestínumenn prentaðar í Washington Post? Svar: Vegna þess að í vestrænum fjölmiðlum eru Palestínumenn framandgerð ómenni sem skiptir ekki máli þótt drepist.)



Newsday.com segir: Bus attacks break calm BEERSHEBA, Israel - At least 16 Israelis were killed yesterday and almost 100 injured when two Palestinians aboard buses blew themselves up within seconds of each other. The explosions shattered five months of relative calm in Israel.

Er þetta sanngjarnt orðalag? Fyrirsögnin segir að ró undanfarinna mánaða hafi verið raskað. Undanfarna mánuði hefur ekki verið nein ró! Ísraelar hafa þjarmað illa að Palestínumönnum og drepið nokkur hundruð. Ég hef Newsday-menn sterklega grunaða um að hafa lagfært þessa frétt eftir að hafa fengið athugasemdir!

~~~~~~~~~~~~~~~

Í Kastljósinu 7. september (í fyrradag) voru gestir Jón Hákon Magnússon stjórnmálafræðingur og Davíð Logi Sigurðsson blaðamaður. Þeir voru að ræða bandarísku forsetakosningarnar. Ég skil ekkert í honum Davíð Loga. Hann er gott dæmi um blaðamann sem kemst til metorða með yfirborðslegri umfjöllun um mál sem gjarnan eru mjög merkileg í sjálfu sér. Barnaleg sýn á stjórnmál. Pólítísk barnatrú.

Bush hefur frumkvæðið í þessari kosningabaráttu. Það vopn sem best mundi bíta gegn honum notar Kerry ekki. Hvers vegna? Bush er harðsvíraður auðvaldsseggur og heimsvaldasinni af verstu gerð. Hann er óvæginn lurkur bandarísku valdastéttarinnar, hvort sem er gegn bandarískum almenningi eða öðrum þjóðum. Auk þess er hann nautheimskur. Ef Kerry reyndi að gagnrýna þetta væri það pólítískt sjálfsmorð fyrir hann sem borgaralegan stjórnmálamann. Demókrataflokkurinn er nefnilega líka heimsvaldasinnaður auðvaldsflokkur. John Kerry er líka heimsvaldasinnaður auðvaldsseggur. Hvassasta vopnið mundi bíta hann sjálfan og pólítíska bakhjarla hans ekki síður en þykjustu-andstæðinginn Bush. Þeir eru meira að segja fóstbræður í fóstbræðralaginu Skull and Bones!

Wednesday, September 8, 2004

Efasemdaraddirnar eru farnar að heyrast. Vladimír nokkur efast um að hin opinbera saga rússneskra stjórnvalda um gíslatökuna í Beslan. Aðrir segja að kannski hafi gíslatökumennirnir ekki einu sinni verið Chechenar, alla vega ekki nema fáir. Voru engir arabar og enginn blámaður í hópi gíslatökumannanna? Hvað ef þeir voru ekki? Hvað ef það er lygi sem er hluti af áróðursstríði? Lesið þessa grein líka. Rússar reyna að láta líta út fyrir að barátta þeirra gegn Chechenum eigi eitthvað skyld við það sem Bandaríkin eru að gera. Tengja aðskilnaðarsinna í Checheníu við al-Qaeda.

Said Ibrahayev spyr: Hvers vegna gera menn ekkert veður út af 250.000 Chechenum, þar af 42.000 börnum, sem hafa fallið fyrir morðingjahendi rússneska hersins á undanförnum árum?

Leiðari Morgunblaðsins í gær, um gíslatökuna, var annars óvenjulega góður. Blaðið skýtur kannski fastari skotum og er óvægnara þegar Rússar eiga í hlut?

Í kvöldfréttum sjónvarps sást hvernig Pútín notar þennan hrylling til að fyllkja þjóðinni í kring um sjálfan sig. 200.000 manns, ekki færri, mættu á mótmælafund. Auðvitað túlka yfirvöld svona fund sem stuðningsyfirlýsingu við áframhaldandi stríð í Checheníu og viðurkenningu á „frækilegri framgöngu“ forsetans. Vekur grunsemdir. Vitanlega er þetta ekkert endilega vísbending um að Pútín hafi haft hönd í bagga. Sá armur chechensku aðskilnaðarsinnanna sem aðhyllist þjóðernis- og trúarrembu er nefnilega nægilega reactionary til að gera svona grimmileg heimskupör upp á eigin spýtur. Er Basajev á mála hjá FSB (frv. KGB)? Ég efa það. Hins vegar eru áreiðanlega einhvejrir nánustu aðstoðarmanna hans það. FSB-menn geta áreiðanlega togað í spotta, eins og Mossad og Shin Bet gera í Palestínu, með því að infiltrera hópa vígamanna. Basajev klýfur fylkingu Chechena og er næg átylla fyrir frekara stríði.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

“We remember, honor and mourn the loss of all those who have made the ultimate sacrifice defending freedom, and we also remember those who lost their lives on Sept. 11,” [Scott] McClellan told reporters as Bush addressed a campaign rally

in Columbia, Mo. * (leturbr. mín)


Dóu fyrir frelsið. Fórnuðu lífinu til að „verja frelsið“. Ætli einhver sé nógu vitlaus til að gleypa ennþá við þessum fúla lyga/áróðursgraut?

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Út er komið 55. bindi af Complete Collection of Kim Il Sung's Works í Norður-Kóreu. Langar mig í þá bók? Ekki sérstaklega.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Halldór Ásgrímsson er 57 ára í dag. Gott hjá honum.

Tuesday, September 7, 2004

Gíslataka, bylting, hómópatar og Kórea



1. Gíslatakan í Beslan

Á Propaganga Matrix eru menn tortryggnir á gíslatökuna í Beslan og opinberan fréttaflutning af henni. Ég verð nú að segja að ég er skeptískur á það sem þeir eru að segja. Eru rússnesk yfirvöld flækt í málið? Mér þykir það ólíklegt í þetta skipti. Sennilegasta skýringin er nefnilega mun einfaldari.

Chechenska þjóðin er kúguð og pínd og hefur verið beitt ótrúlegu harðræði, bæði af Yeltsín og Pútín og forvera þeirra Stalín. Þessi óskemmtilegu örlög setja vitanlega mark sitt á þjóðina og þjóðarsálina. Hörmungarnar síðan núverandi átök hófust hafa komið svo óþyrmilega við þjóðarkauninn á Chechenum, að engan skyldi undra að öfgamenn í þeirra hópi séu orðnir margir. Öfgamenn? Reactionary þjóðernis- og trúarofstæki hefur skotið djúpum rótum í chechensku andspyrnunni. Andspyrnan skiptist, má segja, í tvennt. Sekúlar arm sem er ívið jarðbundnari (Mashkadov forseti og Kameyev eru meðal leiðtoga hans) og þjóðernistrúararmur (Shamil Basayev sennilega frægasti leiðtoginn, og núna Magomed Jevloyev kannski líka). Quislinga á borð við Kadyrov heitinn tel ég ekki með.

Þjóðfrelsisstríð Chechena hefur goldið mjög fyrir það hvað þjóðernis- og trúarofstækið hefur orðið ríkur þáttur í því. Ekki hefur hjálpað að heittrúaðir vígamenn frá öðrum íslömskum löndum hafa slegist í hópinn, og þar með enn skekkt vogarskálarnar.

Án þess að ég þurfi svosem að taka það fram, þá var gíslatakan í Beslan hræðilegur og óafsakanlegur glæpur. Ennfremur virðast viðbrögð yfirvalda hafa farið meira og minna í handaskolun. Ég harma innilega þennan voveiflega atburð. Ég harma líka það sem sjaldnar er talað um, en það eru aðfarir rússneska hersins í Checheníu og hvernig níðst er á chechenum með morðum, nauðgunum og tortímingu. Ég spái því að næsta verk rússneska setuliðsins í Checheníu verði að fara til heimaþorpa hryðjuverkamannanna og leggja þau í rúst.

Þetta mál allt saman sýnir vel að hryðjuverk stuðla ekki að neinu sem kallast gæti framfarir, framsækið eða uppbyggilegt. Hryðjuverk koma beint í kollinn á óbreyttum borgurum og ekki einu sinni göfugasta málstað er unnið gagn með grimmd eða hrottaskap.

~~~~~~~~~~~~~~



2. Bylting

Þórarinn Hjartarson skrifar greinina „Byltingar og endurbætur. Svar.“ á Múrnum. Þetta er framhald af „Nokkrum atriðum í stefnuumræðu fyrir íslenska byltingarsinna“ (1., 2., 3. hluti), afar langri og áhugaverðri grein sem birtist fyrir skemmstu. (Lesið hana!) Sverrir Jakobsson svaraði henni og nú svarar Þórarinn semsagt Sverri. Þórarinn hefur margt gott og gilt til málanna að leggja og ég vona að ég sjái fleiri skrif frá honum á næstunni.

~~~~~~~~~~~~~~



3. Hómópatar

Skrifaði landlæknisembættinu áðan bréf og hvatti til þess að látið yrði til skarar skríða gegn hómópatíu og öðru skrumi sem gefur sig út fyrir að vera heilnæmt. Hvers á hrekklaus almúginn að gjalda, þegar loddarar með gerfivísindi og hjátrú að vopni eru ekki einu sinni gagnrýndir kröftuglega? Þar sem ég var að snuðra um netið í örvæntingarfullri leit að skjaldborg læknastéttarinnar um alvöru læknisfræði (fann enga slíka) fann ég þessa síðu. Fyrir áhugasama um hómópatíu bendi ég á þessa áhugaveðru frétt. Hópi Belga mistókst að fremja fjöldasjálfsmorð, enda þótt þeir hefðu tekið inn eitur sem skv. formúlum hómópata ætti að vera afar kröftugt.

~~~~~~~~~~~~~~



4. Kórea

Viti menn, bandamenn okkar í Suður-Kóreu viðurkenna að hafa fiktað við að auðga úran! (Grein WSWS um málið.) Hversu harkalega ætli Bandaríkjamenn taki á því? Hversu harkalega hefðu þeir tekið á sambærilegri játningu frá t.d. Íran? Talandi um Kóreu: [Kim Jong-il] was widely believed by the West to be insane until Madeleine Albright, the former American secretary of state, declared him to be "perfectly rational" after a summit in 2000.* Madeleine Albright sagði að sér þætti dauði 500.000 írasqra barna vera „ásættanlegur fórnarkostnaður“ fyrir viðskiptabannið gegn Íraq. Í ljósi þeirra ummæla, sem sýna hennar dómgreind og siðferðisstig, eru ummælin um Kim Jong-il áhugaverð.

Thursday, September 2, 2004

Í gær opnaði Þjóðminjasafnið aftur, með pompi og prakt.

Ég var óboðinn gestur við opnunina.

Þar sem ég kom inn um nýjan aðalinngang kinkaði ég kolli til ríkisbánsersins Geirs Jóns Þórissonar og veislustjóri ríkisins, Júlíus Hafstein, vísaði mér til stæðis. Var ég í góðum félagsskap, með ráðherra til hvorrar handar en biskup fyrir framan mig. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flutti ræðu sem að mínu mati var flatneskjuleg og gerði út á einhvers konar póst-þjóðernishyggju sem er bara asnaleg nú til dags.

„Þjóð sem gleymir uppruna sínum hættir að vera til“ sagði hún, og haft eftir henni í Mogganum í dag. Andvarpandi þjóta í gegn um huga mér hundrað hugsanir í einu. Hvaða uppruna? Uppruni þjóðarinnar er að miklu leyti tilbúningur, vaður snúinn saman úr ýmsum þáttum sögunnar og menningarinnar. Auðvitað á þjóðin sér uppruna. Vissulega er þjóðminjasafn í dag miklu nær því að endurspegla hann en þjóðminjasafn fyrir 60 árum, en engu að síður er þetta „opinber“ uppruni sem um ræðir. Uppruni sem er passlega fægður og færður í stílinn til að sýna útlendingum og til að ala nýjar kynslóðir fólks upp í hálfgerðri þjóðernishyggju. Eða hvað? Kannski er ég að ýkja? Alla vega örlaði á þessari tilhneigingu. Tilhneigingu ríkisvaldsins til að skapa þjóðina eins og það vill hafa hana. Best fannst mér samt sennilega þegar Þorgerður sagði að það væri vel við hæfi að „morgungjöf þjóaðrinnar til sjálfrar sín væri gerð upp og afhent á 60 ára lýðveldisafmælinu“. Það er hreinn skandall hvernig hefur verið staðið að þessu verki. 6 ára lokun! Hvað átti þetta að vera lokað lengi til að byrja með, 2 ár? 3 ár? Verktakar braskandi með kennitölur, farandi langt fram úr kostnaðaráætlunum, vitandi að ríkið borgar alltaf og svo framvegis. Vel bjargað fyrir horn að láta eins og margra ára tafir séu þess virði því þá sé dagsetning afhendingarinnar meira töff! Góð redding Þorgerður, góð redding.

Safnið er annars allt hið flottasta. Fastasýningin „Þjóð verður til“ er býsna töff. Ánægjulegt að uppsetningin skuli vera með sæmilega nútímalegu móti. Ég býst við að skipuleggjendurnir hafi lesið Hooper-Greenhill.

Ég var í góðu yfirlæti innan um fína og fræga fólkið. Mér leið eins og ég væri fínn og frægur en ekki bara lúsugur heilbrigðisstarfsmaður og horaður háskólanemi. Snitturnar voru ekki sérstaklega bragðgóðar, en vel var veitt af ódýru rauðvíni. Mér brá meira að segja fyrir í sjónvarpinu.

Semsagt, ánægjuleg heimsókn, flott sýning.