Tuesday, August 31, 2004

Mótmælin í New York eru kröftug yfirlýsing bandarískra borgara um að þeir hafi fengið nóg. Repúblíkanaflokkurinn og demókrataflokkurinn eru ekki annað en tvær hliðar á sama peningnum. John Kerry fylgir sömu stefnumálum og vitringurinn Bush, hann er bara með örlítið breyttar áherslur. Hann yrði sjálfsagt afleitur forseti og varla hótinu skárri en Bush. Jæja, hótinu kannski, en ekki meira.

Hvað með fólk sem vill ekki stríð? Hvað með fólk sem er andvígt þessari aðför að lífskjörum, réttaröryggi, friðhelgi einkalífs, mannréttindum og öðru? Hvað með fólk sem sér í gegn um lygavefinn og vill kjósa almennilega frambjóðendur? Hvert á það að snúa sér? Það fólk hefur í engin hús að venda í hinu núverandi tveggja-flokka kerfi!

Socialist Equality Party er einn þeirra flokka sem berst í bökkum og reynir að komast að með framsækna og sósíalíska stefnuskrá. Þegar Demókrataflokkurinn kærði stuðningsmannalista þeirra í aðdraganda kosninga til fylkislöggjafarþings Illinois var lögfræðingur að nafni Spiegel til þess að verja þá, sá sami og varði lista Naders í Illinois. Hann komst svo að orði: „Every time you go through an experience like this you realize the ballot access laws in the US must change. The American people are supposed to chose who represents them, but they can't if the power-brokers keep their choices off the ballot.“ (leturbreyting mín; lesið greinina)

Gott og vel, margt fólk má kannski kjósa. En hver ræður hvað kosið er um?

Repúblíkanaflokkurinn stal kosningunum 2000 með eftirminnilega óprúttnum hætti. Hann framdi valdarán. Demókrataflokkurinn sagði ekkert við því, en lét sér það lynda. Þegar hins vegar koma fram þriðju framboð hamast demókratar gegn þeim sem mest þeir mega. Hræsnarar.

~~~~~~~~~~~~~

Frá Íraq: Skoðanakönnun sýnir að um 60% landsmanna hefur velþóknun á al-Sadr og meira en 70% á al-Sistani. 63% landsmanna vilja frekar „modern“ stjórnmálamenn en „traditional“ og hvorki meira né minna en 80% hafa ekki enn valið sér stjórnmálaafl til að fylgja að málum. Ég er nú hræddur um að framsæknum öflum verði ekki gert hátt undir höfði. Framsæknum svo langt sem þjóðfrelsisbaráttan nær, en ég efast um að það nái mikið lengra. Ansi er ég t.d. hræddur um að hvorki Kommúnistaflokkur ÍraqsKommúnistaflokkur írasqra verkamanna muni standa sig í stykkinu. Sá fyrrnefndi er meira að segja aðili að quislingastjórn Bandaríkjamanna*.

Talandi um Íraq, hversu róttækur er Muqtada al-Sadr? Það er umfjöllunarefni í góðri grein eftir Sharif Hikmat Nashashibi -- sem ég hvet fólk til að líta á.

~~~~~~~~~~~~~

Jæja, svo þeir geta ekki sigrað en ætla að sigra samt, hmm? Þetta „hryðjuverkastríð“ er ekki bara óvinnandi, heimskulegt og byggt á lygum blekkingu og yfirhylmingu, auk þess sem bandarískir ráðamenn tengjast sjálfir hryðjuverkum, heldur er það ofan í kaupið háð á einstaklega reaktífan hátt og óvænlegan til árangurs.

~~~~~~~~~~~~~

Hér þykir mér áhugaverð frétt: Half of New Yorkers Believe U.S. Leaders Had Foreknowledge of Impending 9/11 Attacks and "Consciously Failed" To Act. Það þýðir að starf efasemdarmanna á borð við Mike Ruppert hefur kannski verið að bera árangur?



~~~~~~~~~~~~~

Um daginn tók ég mig til og styrkti eitt af uppáhalds vefritunum mínum. Fékk svo í pósti í gær áritað eintak af Rogue State: A Guide to the World's Only Superpower eftir William Blum, í viðurkenningarskyni. Það þótti mér mjög ánægjulegt! Þeim sem hafa áhuga á að gera hið sama bendi ég hingað eftir upplýsingum.

Friday, August 27, 2004

Ég held niðri í mér andanum: Það eru stóratburðir að gerast í Najaf í Íraq. Stuðningsmenn al-Sistanis flykkjast þangað í tugþúsundatali en ekki hefur enn komið í ljós hvað al-Sistani ætlast fyrir. Kannski gengur honum það eitt til, að með tugþúsundir stuðningsmanna sinna á götum Najaf hefur hann geysimikið vald yfir borginni. Al-Sistani er friðsemdarmaður. Þótt hann hnykkli pólítíska vöðva sína er mjög ólíklegt að hann beiti þeim til ills. Það var skotið á stuðningsmenn hans og nokkrir féllu. Hver ætli hafi verið þar að verki? Hver hagnast á því að hleypa upp friðsamri göngu þessa valdamikla klerks og stuðningsmanna hans?

Eins og dr. Magnús Þorkell Bernharðsson rakti í góðum pistli sínum fyrir nokkru síðan, þá er al-Sistani sennilega mikilvægasti maður heims um þessar mundir. Í öllu falli með þeim allra merkilegustu. Hvers vegna? Hann þarf ekki annað en að gefa út yfirlýsingu og þá getur hann steypt Íraq í bál og brand - miklu meira en orðið er. Núna býður hann stuðningsmönnum sínum að safnast til Najaf. Hann er ólíklegur til valdbeitingar, en hann hefur feiknaleg völd í krafti áhrifa sinna. Skemmst er að minnast þess, þegar hann smalaði hundruðum þúsunda manna út á götur til friðsamlegra mótmæla, og með því að smella fingri kallaði hann þá aftur af götunum. Slíkt getur ekki hver sem er gert. Með öðrum orðum, Bandaríkjamenn komast ekki hjá því að taka tilliti til al-Sistanis. Allt sem þeir eru að reyna að gera í Íraq veltur á því hvort þeim tekst að halda al-Sistani góðum eða ekki. Hvernig þeim reiðir af í Íraq hefur svo skiljanlega mikil áhrif á margt annað.



Á sama tíma handtekur lögreglan í Najaf fréttamenn, hótar að drepa þá og rekur þá úr borginni. Það liggur í augum upp, hvað þeim gengur til: Fækka vitnunum að því sem þeir hyggjast fyrir. Hvað sem Bandaríkjamenn ætla að fara að gera af sér vilja þeir ekki að augu heimsins (fjölmiðlar) beinist að þeim. Ég efast um að þeir láti til skarar skríða núna þegar al-Sistani er kominn til baka, samt.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Annars vil ég benda fólki á þetta og þetta. Greinar eftir Sigurð Hólm á Skoðun.is, og umræður um þær, þar sem ég hef vaðið elginn í dag og í gær. Hressileg skoðanaskipti. Hvet fólk til að kíkja á það.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Stofnfundur „umbótamiðstöðvarinnar“ (í alvöru, það vantar almennilegt nafn!) í Garðastræti 2 í gærkvöldi var vel heppnaður, og betur sóttur en nokkur þorði að búast við. Voru þó margir sem ekki komust. Mér líst vel á þetta verkefni. Býsna vel.

Monday, August 23, 2004

Fyrir fáum vikum var allt í ólgu út af lýðræðismálum og hiti í mönnum. Þjóðarhreyfingin hefur ekki haft hátt upp á síðkastið. Varla hefur Ólafur Hannibalsson látur Hannes Dólgstein þagga niður í sér? Annars, hreyfingin segir á heimasíðu sinni: „Lýðræði: Þar sem flestir hafa sem mest áhrif á sem flest mál.“ Hvað á það að þýða?? Það er ekki lýðræði, það er meirihlutaræði. Lýðræði er það að fólk hafi sjálft áhrif á þær ákvarðanir sem koma því við. Hvað kemur það mér við hvort Húsvíkingar vilja byggja sér nýja sundlaug? Svo fremi að ég eigi ekki að borga fyrir hana, þá kemur það mér ekkert við og þá ætti ég heldur ekki að hafa áhrif á það!

~~~~~~~~~~~~~~~

Ef ég var ekki búinn að því, þá vil ég benda á þessa grein á Palestína.is, „Marie og draugarnir“ heitir hún og er eftir Uri Avnery, formanni friðarhreyfingarinnar Gush Shalom, en þýðingin er gerð af mér.

~~~~~~~~~~~~~~~

Ég held að vanmetnasta stétt Íslands séu kennarar. Það er erfitt verk og vandasamt að vera góður kennari, en góður kennari er þyngdar sinnar virði í gulli og gott betur. Er hægt að setja verðmiða á það, hvernig börnin manns eru úr garði gerð? Það er ætlast til mikils af kennurum, vinnuþjakaðir foreldrar ætlast til þess að skólinn ali upp börnin þeirra en eru sjálf vinnandi úti allan daginn og hafa ekki tíma fyrir gríslingana. Hendur kennaranna eru samt bundnar svo þeir geta ekki einu sinni gert það sem til er ætlast. Það er valdatóm í uppeldismálum. Þegar báðir foreldrar eru útivinnandi og kennaranum settar þröngar skorður, hver sér þá um að veita börnum aðhald og uppeldi og kenna þeim það sem þau læra ekki í skólanum? Ég held að þetta sé ekki bara svartagallsraus. Mér finnst að laun og neysla ættu að vera þannig, að laun einnar fullorðinnar útivinnandi manneskju gætu framfleytt einni meðalfjölskyldu. Alla vega, það skiptir miklu máli að vandað fólk sé laðað til kennslustarfa og að kennarar séu ánægðir í starfi. Það ku stefna í kennaraverkfall. Sumir fussa yfir því og tala um hvað það kosti mikið vesen að hafa öll þessi börn heima við og hvað þau verði nú heimsk af því að missa nokkrar vikur úr námi. Ég blæs á það. Það gerir krökkunum ekkert til þótt kennararnir fari í verkfall. Það eru bara foreldrar sem halda að tíma þeirra sé betur varið í launaþrældóm en uppeldi eigin barna. Það, eða alvöru en óþarfur ótti við afleiðingar verkfallsins. Sumir fussa yfir hvað þessir kennarar séu alltaf að færa sig upp á skaftið og eitthvað. Kennarar hafa bara fullan rétt til þess. Þeir eiga betra skilið. Þeir eiga mína samúð alla ef til verkfalls kemur.

Talandi um skólamál, ég er ennþá alveg bit yfir heimskunni í menntamálaráðuneytinu nú í vor, þegar kom í ljós að það var ekki pláss fyrir viðbúinn fjölda framhaldsskólanema. Ekki pláss? Eins og þessi kynslóð hafi dottið af himnum ofan? Kom hún ekki fram á sjónarsviðið fyrir rúmum hálfum öðrum áratug síðan?

~~~~~~~~~~~~~~~

Njósna Bandaríkjamenn um Íslendinga?

~~~~~~~~~~~~~~~

Ég vil benda á þessa grein Ögmundar Jónassonar um land/sjóflutninga og þessa, um Jón Baldvin og ekki-útilokaða endurkomu hans í íslens stjórnmál. Á heimasíðu Ögmundar er auk þess grein eftir Torfa Stefánsson, sem er þess virði að lesa hana...

~~~~~~~~~~~~~~~

Gagnauga.is er komið með nýtt útlit og fyrir höndum er formlegur stofnfundur hinnar róttæku umbótamiðstöðvar í Garðastræti, á miðvikudag klukkan 20. Áhugasamir eru hvattir til að mæta. Heitt á könnunni.

Þegar ég stal lögreglubíl

Fyrir nokkrum árum gekk ég einu sinni heiman frá mér og niður í miðbæ. Gekk niður Túngötuna, sem leið liggur. Á horni Túngötu og Suðurgötu er bílastæði, og þar var eitthvað á seyði. Myndatökulið, leikarar (Fóstbræður, held ég), leikmunir. Mest áberandi leikmunurinn var lögreglubíll sem þarna stóð. Mannlaus. Í gangi. Ólæstur.

Nei, ég stóðst freistinguna. Lét hann eiga sig. Ég hugsa samt ennþá til þess stundum, hvaða prakkarastrik ég lét mér úr greipum ganga þennan sumardag.

o~o~o~o~o~o~o~o~o~o~o



Minn bróðir á afmæli í dag og er tvítugur. Til hamingju með það!

o~o~o~o~o~o~o~o~o~o~o







Ég vil lýsa yfir ánægju minni með nýbyggingar í Aðalstræti. Hótelið sem verið er að byggja í Aðalstræti 14-18 er að verða að sannri prýði á miðbænum. Þegar það er tilbúið ætla ég að fara og gista þar.

Sunday, August 22, 2004

Menn Sadrs verjast enn í moskunni, skv. síðustu fréttum sem ég hef heyrt. Hetjurnar í Bandaríkjaher geta víst hreykt sér af að hafa drepið marga menn, en misst fáa sjálfir, ef eitthvað er að marka fréttaflutning. Hetjuskapur, af þungvopnuðum úrvalshermönnum, að salla niður með vélum léttvopnaða menn Sadrs. Þess ber reyndar að geta, að það mun vera venja hjá Bandaríkjaher, að telja mann ekki fallinn í bardaga, ef hann særist og deyr svo af sárum sínum þegar honum hefur verið komið af vígvellinum. Það er því rétt að taka opinberum tölum frá þeim með fyrirvara.

Það er ekki hægt að segja annað, en að vörn Sadrs og manna hans er frækileg. Hvað svo sem líður pólítískri stefnuskrá þeirra, þá er barátta þeirra gegn innrásarhernum fyllilega réttmæt. Hún er mótspyrna gegn heimsvaldastefnu ofvaxins þrjótaríkis. Sjá hér, hér.

~~~~~~~~~~~~

Umsátur nepalskra maóista um Katmandú er í algleymingi. Lesið t.d. þetta og þetta.) Mér finnst eftirtektarvert hvað fréttamenn hafa eftir nepölskum yfirvöldum, en hins vegar minnist ég þess ekki að hafa heyrt vitnað í maóistana sjálfa. Miðað við að það eru tvær aðalfylkingar í þessum átökum, og að byltingarhreyfing maóista hefur mjög mikið umleikis í landinu, væri þá ekki eðlilegt að heyra þeirra hlið á málunum líka?

~~~~~~~~~~~~

Finnt fólki hrakfarir Teds Kennedy fyndnar? Öldungadeildarþingmaðurinum hefur þráfaldlega verið meinað að stíga um borð í farþegaflugvélag, vegna þess að hann á nafna á lista yfir meinta/ grunaða/ óæskilega menn/fólk í ónáð hjá bandarískum yfirvöldum. Þetta ristir dýpra. WSWS.org er með grein um þetta, sem vert er að lesa. Hversu fyndið er þetta eftir lestur hennar?

~~~~~~~~~~~~

Ég vil svo benda á grein hjá Venezulea Electronic News, um stjórnarandstöðu Venezuela og styrrinn sem hefur staðið um nýafstaðnar kosningar þar.

Saturday, August 21, 2004

Skæruliðar maóista í Nepal halda uppi umsátri um sjálfa Katmandú, höfuðborg landsins. Það hlýtur að teljast til tíðinda. Konungdæmi Gyanendra konungs (tröll hirði þann hund) virðist vera valt í sessi, svo ekki sé meira sagt. Bandaríkin og Bretland hafa dælt í það vopnum til að berjast við maóistana, en þeir vinna hvern sigurinn á fætur öðrum. Ráða milli 40 og 70% af landinu eftir 8 ára borgarastríð og 9.600 manns fallna. Ætli þeir séu við það að taka öll völd í sínar hendur?

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Sadr virðist hafa dregið her sinn frá Imam Ali moskunni. Eins og er svo algengt í stríði, þá ber mönnum ekki saman, jafnvel ekki um stór mál. Hver stjórnar moskunni, lögregla írösqu leppstjórnarinnar eða menn ayatollah Sistani? Kannski Mahdi herinn ennþá? Það lítur helst út fyrir að Mahdi herinn sé að víkja fyrir Sistani og mönnum hans. Rök hafa verið leidd að því að Sistani sé einn mikilvægasti maður heims um þessar mundir, sem æðsti klerkur shí'íta í Íraq. Hann hefur frekar haldið sig til hlés, ekki viljað eiga saman við leppstjórnina að sælda, né heldur hernámsliðið. Hann hefur ekki hvatt til ofbeldis, en þó gæti hann fylkt geysilegu liði ef hann kysi það, enda hefur hann mikil og sterk ítök meðal shí'íta. Ef snert væri hár á höfði hans yrðu tugþúsundir manna til að rísa upp, honum til varnar, og það gæti gert útslagið um herför Bandaríkjamanna, hvorki meira né minna.

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Það er eitt í opinberu málfari sem styggir mig meira en flest annað. Þegar menn eru teknir fastir fyrir „brot gegn valdstjórninni“ -- er hægt að orða þetta á berorðari hátt? Það sem ég meika ekki við þetta er einfaldlega það sem blasir við í þessum orðum. Ég veit vel af því þegar því er leynt með orðskrúði eða flækjum, en mér finnst „brot gegn valdstjórninni“ svo óforskammað hreinskilið að það setur að mér stugg. Þeir stjórna með valdi. Sá sem streitist gegn valdinu fremur afbrot. Sá sem neitar að láta stjórna sér er afbrotamaður.

Finnst einhverjum öðrum en mér þetta ógeðfellt orðalag?

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Halldór Ásgrímsson kom í sjónvarpi og sagði að menn mundu „sakna Siv“ þegar hún hætti sem umhverfisráðherra. Hvað hafa þau unnið lengi saman? Hvað er milli eyrnanna á manni sem kann ekki að beygja nafn náins samstarfsmanns síns? Þessi maður er krónprins Íslands og ríkiserfingi!

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Úr tilkynningu frá Háskóla Íslands [leturbreyting mín]:
Spekingar Vísindavefsins, örfyrirlestrar, leikur að ljósi og rafmagni,

furðuverk, farartæki og margt, margt fleira í Öskju,vísindaleikir og Qi gong í

Skeifunni, Spaðarnir í Norræna húsinu. Og loftbelgurinn hans Ara Ólafssonar

svífandi í 30 metra hæð!
Qi gong?? Hvað er Háskólinn að vasast í að boða hindurvitni?? (Lesið „Passaðu þig á qi'inu“.)

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Meiri ólánsmaðurinn er Bobby Fischer. Hlustaði á viðtal við hann á Útvarpi Sögu í gær. Það var ekki annað að heyra en manngreyið væri fárveikur. Á geðsmunum. Hugsa sér að bandarísk stjórnvöld skuli ekki telja sig yfir það hafin að níðast á sjúklingum eins og honum, að ofsækja mann sem er ofsóknaróður fyrir! Alla vega, hann kvaðst ekki mundu flytja til Íslands. Ekki meðan bandaríski herinn væri hérna. Þar er komin enn ein ástæðan til að losna við herinn!

Thursday, August 19, 2004

Í tilefni af frekar líflegri umræðu um jafnréttismál og Framsóknarflokkinn á ýmsum af heldri vefritum (m.a. Sellunni, Vefþjóðviljanum, Deiglunni), þá ætla ég að gera grein fyrir afstöðu minni. Ég er heitur jafnréttissinni og mér finnst gjörsamlega ótækt að konur skuli ekki sitja við sama borð og karlar í þjóðfélaginu, hvað varðar laun, völd og annað. Á hinn bóginn er ég einnig heitur andstæðingur reaktífra og afturhaldssamra lausna („lausn“ er reyndar rangnefni í þessu sambandi), enda eðli þeirra að vera lélegar, tímabundnar og falskar. Glaður skal ég gangast við því að vera femínisti, en það er ekki þar með sagt að ég skrifi undir allt sem allir femínistar segja. Pólítískt séð er er ég, umfram annað, marxisti, og yfirleitt vantrúaður á hvernig borgaralegt afturhald tekur á málunum.

Ef við notum representasjón kynjanna í hinum ýmsu stjórnunarstöðum sem mælikvarða á stöðu kvenna almennt í þjóðfélaginu, og leitumst við að fjölga konum í stjórnunarstöðum handvirkt (t.d. með kynjakvótum), þá breytist útkoma reikningsdæmisins. Ekki vegna þess að staða kvenna hafi almennt batnað í alvörunni, heldur vegna þess að fiktað hefur verið við mælikvarðann. Ég efast um að Löggildingarstofan mundi samþykkja þetta mælitæki. Sem dæmi um þetta má nefna Ráðstjórnarríkin sálugu. Þar var jafnrétti kynjanna bundið í lög = reaktíf jafnréttisstefna. Þegar þau hrundu og lögbundið jafnrétti heyrði sögunni til var launamunur kynjanna heldur ekki lengi að verða mjög mikill aftur. Það var vitanlega vegna þess að jafnrétti kynjanna var haldið með handafli þar. Handafl breytir ekki náttúrulegri tilhneigingu. Þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún út um síðir, eins og skáldið kvað. Umbæturnar verða að koma neðan frá. Raunverulegt jafnrétti næst ekki nema konur ryðji sér raunverulega til rúms í þjóðfélaginu, taki sjálfar það sem þeim ber og helst að karlaveldið hindri þær ekki í því. Nú gjalda konur vitanlega fyrir ýmsa þætti sem ekki verður hjá komist, s.s. meðgöngu. Ég er fyllilega fylgjandi löggjöf um jafnt fæðingarorlof karla og kvenna og fleira þvíumlíkt sem stuðlar að jafnri stöðu kynjanna. Kynjakvótar eru hins vegar afturhaldssöm nálgun á vandamálið. Það sem þjóðfélagið vantar eru ekki fleiri kvenkyns kapítalistar.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í Fort Myers á Flórída: Cops Use Taser Gun On Man Trying To Get Home - lítið á þetta, lögregluofbeldi í Bandaríkjunum færist í aukana. Það styttist í lögregluríkið, gott fólk. Vandsveinar ríkisvaldsins hafa nú þegar fengið óhugnanlega mikil völd yfir fólki. Borgaraleg réttindi eru stórskert og réttaröryggi, friðhelgi einkalífs og fleira horfin eins og dögg fyrir sólu. Það eru ekki lengur mannréttindi að njóta meðfæddra réttinda sinna: Það eru forréttindi. Sá sem nýtur réttinda sinna gerir það ekki vegna þess að hann hafi réttindi heldur vegna þess að yfirvaldinu þóknast að leyfa honum að njóta þeirra. Meðan hann er þægur.

Talandi um það, þá styttist í að tekin verði upp opinber umræða í Bandaríkjunum um national ID skilríki. Ég get varla til þess hugsað að Íslendingar -- hrekklausir sem við erum -- skuli hafa tekið upp kennitölukerfið þegjandi og hljóðalaust. Aðeins svo auðveldara sé að flokka okkur í spjaldskrá og hafa eftirlit með okkur og sortera okkur í andlegar og félagslegar réttir.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Raven Rock Mountain í Pennsylvaníu hýsir tröllaukið kerfið neðanjarðarbúnkera með leynilegri stjórnstöð fyrir leyniríkisstjórnina sem getur tekið við valdstjórninni í Bandaríkjunum ef eitthvað stórfenglegt kemur upp á. Þar földu Dick Cheney, Paul Wolfowitz og fleiri sig eftir 9/11. Tékkið á þessari síðu sem er tileinkuð þessu mikla fylgsni.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ögmundur Jónasson skrifar hreint ágæta grein um forsetakosningarnar í Venezuela, þar sem lýðræðið vann áfangasigur á afturhaldinu nú um helgina.

Wednesday, August 18, 2004

Er bankanum mínum sama um mig?

Þegar ég var lítill gerðist ég viðskiptavinur Búnaðarbankans. Undanfarin ár hefur bankinn tekið upp á því að „strjúka mér öfugt“ eins og það er kallað. Í viðleitni sinni til að vera sniðugur lætur hann mér líða illa. Ég er alveg að fá mig fullsaddan, en af einhverjum ástæðum hangi ég enn á horriminni. Líkast til eru það vanafestan og efinn um að ég finni skárri banka, sem ráða þar mestu um. Ef ég hefði haldið til haga öllu því sem hefur farið í taugarnar á mér við bankann minn væri sá listi eflaust orðinn vænn núna. Ég sé eftir því að hafa ekki gert það. Nokkur atriði sem ég man eftir:

·· Þegar ég frétti að pólskum kunningja mínum hefði verið neitað um lán vegna þjóðernis síns. Mér til undrunar fékk ég það staðfest seinna frá sjálfstæðri heimild, að þetta væri stefna bankans.

·· Þegar ég var, gegn vilja mínum, gerður að viðskiptavini „KB banka“. Mér fannst Búnaðarbankinn alltaf hlýlegur. „KB banki“ er ómanneskjulegt og fráhrindandi bákn og ég er með ofnæmi fyrir honum.

·· Þráfaldlegar útistöður mínar við bankann vegna hvers kyns „misskilnings“ varðandi hvers lags kort. Kort ekki tilbúin á tilsettum tíma, ekki staðið við að hafa þau tilbúin þegar gerð er athugasemd, einkennilegar rukkanir o.fl.

·· Einu sinni vantaði mig upplýsingar sem ég fann hvergi á heimasíðu bankans. Ég sendi því fyrirspurn og fékk ekkert svar. Ég ítrekaði fyrirspurnina og fékk ekkert svar. Sama í þriðja sinn. Þegar ég svo, í fjórða sinn, sendi samrit til milli 25 og 30 manns innan bankans, þar á meðal háttsettra stjórnenda, og lét það fylgja að þolinmæði minni væru takmörk sett, þá loksins fékk ég skjót svör og bljúg. Ég á ekki að þurfa að spyrja fjórum sinnum til að fá upplýsingar um debetkort, fjandakornið!

·· Mér geðjast ekki að afskiptum bankanna af atvinnulífinu, og þar er KB banki ekki barnanna bestur.

·· Sú var tíðin að mér datt í hug að færa viðskipti mín til Sparisjóðanna. Hvað gerist? KB banki kaupir SPRON.



Þá er ótalinn fjöldi ósmekklegra, leiðinlegra, ósannra eða á annan hátt hvimleiðra auglýsinga. Í þeirri nýjustu er fullyrt að allir Íslendingar séu í íslenska landsliðinu í handbolta, og útskýrt að það sé meint á þann hátt að við höldum öll með því. Getið hvað: Ég held ekki með því og ég kæri mig ekki um að vera borinn rógi og mér gerðar upp skoðanir! Ætti ég að sækja þá til saka? Er ég ósanngjarn við bankatetrið? Ef ég er það, þá örlar ekki á samviskubiti hjá mér. Ég hef fengið mig fullsaddan af þessum banka. Fyrir öll sín skammarstrik má Davíð Oddsson eiga eitt: Það var gott hjá honum á sínum tíma að hætta viðskiptum sínum við Búnaðarbankann. Verst hvað ég er framtakslaus og fastur í viðjum vanans.....



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

James Dresnok heitir maður sem gerðist liðhlaupi úr bandaríska setuliðinu í Suður-Kóreu 1962 og flúði til Norður-Kóreu. Þar hefur hann búið síðan og unað vel. Um þessar mundir er verið að gera mynd þar sem hann segir sögu sína og gerir grein fyrir Norður-Kóreumönnum og að þeir séu, þrátt fyrir allt, ekki með horn og hala heldur mennskir menn. Lesið þessa grein um myndina. Þessa langar mig að sjá.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

·· „Fighting in Najaf exposes an unpopular, isolated Iraqi regime“ eftir Peter Symonds er frábær grein!

·· Guðmundur Sigurfreyr skrifar býsna athyglisverða grein um vímuefnamál.

·· Grímur Atlason skrifar ágæta grein um strandsiglingar.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Hinrik Már Ásgeirsson segir réttilega: Stjórnmálamönnum er meinilla við ófyrirséðar afleiðingar frelsis því þeir telja sig ábyrga fyrir því hvernig fólk fer með sitt eigið líf, í grein sem að öðru leyti hefur ekki sérstaklega margt fram að færa. Mér finnst eftirtektarvert hvað ungir jafnaðarmenn minna um margt á unga sjálfstæðismenn í orðavali. Er einhvers konar frjálshyggja orðin að einhvejru normi, eða hvað?

Tuesday, August 17, 2004

Stjórnarandstaðan í Venezuela virðist ekki ætla að láta sér lynda að hafa tapað heiðarlegum kosningum. Hvern hefði órað fyrir því að Jimmy Carter kæmi út úr skápnum sem kommúnisti? Chavez er heimsvaldasinnuðu auðvaldinu einfaldlega óþægur ljár í þúfu. Út af fyrir sig er ekkert að því. Þegar við bætist að hann er rétt kjörinn forseti, þótt hann sé ekki hvítur á litinn. Úr umfjöllun fjölmiðla stendur kannski upp úr það sem Morgunblaðið orðar svona:

Bandaríska utanríkisráðuneytið var nú síðdegis varkárt í yfirlýsingum um atkvæðagreiðsluna en Tom Casey, talsmaður ráðuneytisins hrósaði íbúum Venesúela fyrir mikla kjörsókn og fyrir að atkvæðagreiðslan hefði farið vel fram.



Málið er einmitt, Chavez stendur uppi í hárinu á Bandaríkjastjórn. Man einhver eftir valdaráninu sem venezúelskir herforingjar, efnahagsstórlaxar og bandaríska leyniþjónustan gerðu í apríl 2002? Man einhver eftir vinnustöðvuninni sem venezúelskir atvinnurekendur stóðu fyrir í desember sama ár og létu sem það væri verkfall?

Bandaríska heimsveldinu og samverkamönnum þess í Venezuela var nú að mistakast í þriðja sinn að knésetja Chavez. Svo eru þeir „varkárir“ í yfirlýsingum sínum!

Þegar svipað stendur á og í Venezuela núna, hefur það oft gerst að vinnuveitendur hóta uppsögnum ef óæskilegi pólítíkusinn tapar ekki, og þvinga þannig fylgismenn hans meðal launamanna sinna til að kjósa gegn eigin samvisku. Þessi 41% atkvæða sem féllu gegn Chavez hafa örugglega að minnsta kosti að fjórðungi verið til komin með þeim hætti.

Sumir í frjálshyggjukreðsunni hrópa upp yfir sig að þessi forherti óvinur lýðræðisins, sem hatar sjálfsagt Bandaríkin og vill skemma allt það góða sem við eigum, skuli fótum troða hagsmuni þeirra ríkustu. Mér kemur í hug orðasamband sem reglulegir lesendur kunna að hafa rekið augun í áður. Þessi hópur manna sem í daglegu tali nefnist „þjóðin“ þarf alltaf að vera að ybba sig eitthvað, bara til að trufla elítuna í arðráni heiðarlegri auðsöfnun sinni. Hvers á elítan að gjalda? Hver gaf þessum óræða hópi vafasamra manna einhvern rétt til að ráðskast með þá ríku sem hafa ekkert af sér gert?







Í gær, 16. ágúst, birtir Palestine Monitor stutta en greinargóða umfjöllun um hungurverkfall palestínskra fanga í ísraelskum dýflissum. Ég hvet fólk að sjálfsögðu til að lesa hana!

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ansvíti góð grein eftir Sverri Jakobsson á Múrnum í gær: [F]agrar hugsjónir geta breyst í andhverfu sína í munni hræsnara.

~~~~~~~~~~~~~~~~~

Morgunblaðið greinir frá [leturbreyting mín]:
Alþjóðleg réttindagæslusamtök blaðamanna, Blaðamenn án landamæra (RSF), fordæmdu seint í gærkvöldi ákvörðun írösku stjórnarinnar að vísa blaðamönnum frá hinni helgu borg Najaf, þar sem hart hefur verið barist að undanförnu.


Þarna þykir mér einhver vera að gera alvarlega villu. Ekki í fyrsta sinn og alls ekki óskiljanlega, en grafalvarlega engu að síður. Þeir sem mynda hina svonefndu bráðabirgðastjórn Íraqs eru nefnilega ekki lögmæt stjórn Íraqs og þeir sækja ekki völd sín til Íraqa. Þeir eru leppar Bandaríkjastjórnar, sækja völd sín til Bandaríkjahers og eru og haga sér á allan hátt sem verstu quislingar. Aðal munurinn á Saddam Hussein og Ayad Allawi er sá að Saddam er skeggjaður en Allawi ekki, fyrir utan það að Saddam naut þrátt fyrir allt stuðnings þónokkurs hluta þjóðarinnar, en það er varla hægt að segja um Allawi. Hvað varðar hrottaskap eða pólítíska óskammfeilni er ekki marktækur munur á þeim tveim. Ég minni m.a. á nýlegar fréttir af því er hr. Allawi fór í eigin persónu á lögreglustöð og skaut þar sex fanga eigin hendi til að kenna þeim lexíu. Óskabarn lýðræðisins og réttaröryggisins, hmm?

Monday, August 16, 2004

Þegar farið er að reka blaðamenn út úr Najaf er ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvað tekur næst við. Eitthvað sem gerendurnir hafa ekki áhuga á að fréttist út fyrir borgina. Húsbændur okkar, bandóðrísku heimsvaldasinnarnir, hafa undanfarið framið einn stóreflis stríðsglæp í Najaf. Þessari borg er nauðgað fyrir augunum á okkur. Ríkisvald íslenskra óþokka klappar saman lófunum, fróandi sér af þrælslund, kvalalosta og skeytingarleysi og sleikjandi út um við tilhugsunina um beinið sem húsbóndinn hendir í hana í verðlaunaskyni.

Írasqa andspyrnan berst gegn ólöglegu og níðingslegu hernámi. Bandóðríkjastjórn lætur sem við tóma glæpamenn, þrjóta og hryðjuverkamenn sé að etja, þegar sannleikurinn er sá að glæpamennirnir, þrjótarnir og hryðjuverkamennirnir eru Bandaríkjamenn sjálfir. Andspyrna er náttúrulegt viðbragð við hernámi. Írasqa andspyrnan er jafn réttmæt og andspyrna Frakka, Norðmanna, Júgóslava og annarra gegn ribböldum Þriðja ríkisins á sínum tíma. Núna eru ribbaldarnir bandarískir og þjóðfrelsismennirnir írasqir.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ég bíð spenntur eftir nánari fréttum að þjóðaratkvæðagreiðslunni í Venezuela. Skv. þessari frétt mun allt vera með felldu, meira og minna, við framkvæmdina, að sögn Jimmy Carter. Vitanlega með undantekningum, en meira og minna þó.

Saturday, August 14, 2004

Í dag, laugardag, er sögulegur dagur í Venezuela. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort það verði haldnar nýjar forsetakosningar, þar sem Huga Chavez gæti tapað embættinu. Chavez greyið er eitur í beinum hinnar borgaralegu stjórnarandstöðu, sem getur ekki séð í friði viðleitni hans til endurbóta. Ekki það, að þótt Chavez sé kannski líklegur til að láta mikið gott af sér leiða ef hann fær að sitja á friðarstóli, þá er hann samt sem áður ólíklegur til að leiða til lykta vandamál Venezuela á framsækinn hátt. Umbætur já, bylting nei. Nú hefur hann ekki byltingarkennda stefnuskrá, og aðstæður í Venezuela eru varla hagstæðar fyrir alvöru verkalýðsbyltingu. Er hann þó lýðræðislega kjörinn og hefur hingað til haldið velli gagnvart hverri atlögu afturhaldsins á fætur annarri. Það er gott hjá honum, og gott hjá stuðningsmönnum hans, sem hafa stutt hann í gegn um þykkt og þunnt. Eins og einhvern kann að ráma í er ekki ýkja langt síðan CIA rændi völdum í Venezuela og Chavez, á pólítískum hrakhólum, flæmdist úr landi. Stuðningsmenn hans linntu ekki látum fyrr en hann var settur í embætti aftur. Sumir segja að CIA leggi nú á ráðin um annað valdarán. Megi afturhalds kúkalabbarnir, óvinir hans, bíða sögulegan ósigur í kosningunum á morgun.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ég býð Dodda annars velkominn til baka í bloggflór Íslands. Megi hans blogg verða mörg og góð.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ísraelar skutu á palestínska lækna, sjúkraflutningamenn og aðra heilbrigðisstarfsmenn sem voru að dreifa fyrstu-hjálpar pökkum til sárþjáðra íbúa Rafah, syðst á Gazaströndinni.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Man einhver eftir landi sem heitir Haiti? Málaliðar og hermenn Bandaríkjastjórnar rændu þar völdum í febrúar síðastliðnum. Suður-Afríka viðurkennir Jean-Bertrand Aristide ennþá sem réttkjörinn forseta landsins. Hann fékk enda 92% atkvæða í síðustu kosningum. Ég held að það séu væntanlegar aðrar forsetakosningar þar í nóvember. Það verður spennandi að fylgjast með. Sénsinn að þær verði lýðræðislegar er kannski ekki mikill. Síðan hvenær hafa þeir sem eru vitlausu megin við vald Bandaríkjanna þegið það vald (eða frelsi undan því) greiðlega og friðsamlega?



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í Time Magazine er býsna góð grein um Kárahnjúkavirkjun. Lesið hana. Meðal þess sem ég þoli ekki við Kárahnjúkavirkjun er þetta: Ríkisstjórnin og Landsvirkjun beita hreinni valdníðslu og gefa hreinan skít í sjónarmið annarra í þessu máli. Þessu skal komið í gegn hvað sem það kostar. Kúkalabbarnir í ríkisstjórn sjá auk þess ekkert óeðlilegt við að eiga innileg viðskipti við glæpamennina í Bechtel, Alcoa og Impregilo. Glæpamenn, segi ég og skrifa. Ótíndir slúbbertar. Af félagsskapnum getum við svo þekkt innræti „okkar eigin“ landsdrottna. Hvers vegna ættum við ekki að sökkva þessari fögru náttúru, drekkja lífríkinu, róta upp moldroki (eins og það sé á það bætandi!) og stunda önnur umhverfishryðjuverk? Hvers vegna ekki? Einfalt svar: Vegna þess að við þurfum þess ekki. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og höfum ekki þörf fyrir að beita þriðja heims vinnubrögðum til að kikkstarta efnahagnum hjá okkur. Ekki lengur. Það er kominn tími til að draga hausinn upp úr flórnum. Heyrið það, framsóknarmenn. Á að skapa störf? Ef það er málið eru fáar leiðir kostnaðarsamari en álver. Byggðastefna? Horfumst í augu við það: Ef byggðarlagi er ekki við bjargandi með náttúrulegum hætti er það vegna þess að tilvistargrundvellinum hefur verið kippt undan því. Fólksflutningar úr sveit í þorp, úr þorpi í kaupstað og kaupstað í borg og loks úr borg til útlanda er náttúruleg þróun. Þorpin urðu til á kostnað sveitanna og borgin á kostnað beggja. Ef það væri vilji fyrir heiðarlegri byggðarstefnu er eitt sem væri sterk byrjun: Afnema kvótakerfið og taka upp sanngjarna fiskveiðistjórn og sjá hvort landsbyggðin mundi ekki rétta eitthvað úr kútnum við það. Það er ekkert annað en feigðarflan að halda að reaktífar framsóknarlausnir virki í alvörunni í málum eins og landsbyggðarflótta. Ég er ekki búinn: Ef þessi verksmiðjudrusla er svona hagkvæm, hvers vegna reisa og reka Íslendingar hana þá ekki sjálfir? Það væri skömminni skárri búbót, ef heimamenn ættu sjálfir verksmiðjuna, ekki satt? Ég hlusta ekki á væl um að menn hafi ekki bolmagn til þess. Ef hún er svona arðbær hlýtur að vera hægt að fá lán fyrir henni. Hvers vegna svo að flytja álið óunnið úr landi? Væri ekki viturlegt að smíða flugvélar eða eitthvað úr því hér á landi líka, og skapa með því enn fleiri störf? Eitt enn í bili: Þessi aumi fyrirsláttur um að álverksmiðja á Íslandi sé umhverfisvæn er einmitt það: Aumur fyrirsláttur. Í fyrsta lagi er hún það ekki. Í öðru lagi er ein aðalástæðan fyrir byggingu álvers hér sú að á móti er hægt að loka álverum í Bandaríkjunum, sem eru of dýr í rekstri. Hvers vegna? Vegna þess að þar eru gerðar strangari kröfur til mengunarvarna en á Íslandi! Með öðrum orðum eru þeir hingað komnir til að menga ókeypis.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í Time sá ég annars aðra býsna góða grein, Where Do France's Jews Belong eftir Tony Karon:

Those who tell Jews like Cathy they don't belong in Israel are

quickly seen as anti-Semitic. But I apply the same label to any-

one who tells Uncle Adam that as a Jew he doesn't belong in

France, or says the same thing to any of my relatives elsewhere

in the Diaspora. "Go back to Israel" was a message I heard

occasionally growing up, both from Zionist emissaries promoting

immigration and from rightwing anti-Semites

...og þar liggur einmitt hundurinn grafinn. "Rightwing anti-Semites" eru nefnilega fyllilega sambærilegir við zíonista að flestu leyti öðru en því að aðrir eru óeðlilega andvígir gyðingum en hinir eru óeðlilega mikið fylgjandi þeim!

Thursday, August 12, 2004

Um þessar mundir er hugur minn með íbúum Najaf í Íraq og þjóðfrelsishreyfingunni sem al Sadr leiðir. Það eru ekki öfundsverð örlög að bandaríski herinn hafi einsett sér að brytja mann niður til að kenna manni lexíu. Bandaríski herinn segist berjast að beiðni bráðabirgðastjórnarinnar og í umboði hennar. Bíðum við. Í umboði hvers ríkir bráðabirgðastjórnin? Bandaríkjahers! Einskis annars! Ég ítreka ábendinguna um að lesa grein Roberts Fisk úr The Independent um málefni Íraqs.



Það var að springa kúlupenni frá Sjálfstæðisflokknum í vasanum hjá mér. Það var nú það eina sem mig vantaði. Mér var nær að ganga með auðvaldspenna upp á vasann. Kennir mér lexíu. Hugsa sér að einu sinni lét ég glepjast af lýðskrumi og áróðri þessa íhaldsskröggaflokks.



Tom Mackaman er í framboði fyrir Socialist Equality Party á fylkisþing Illinois í BNA. Demókrataflokkurinn var búinn að reyna að spilla framboði hans en tókst ekki. Hér er bréf Mackamans til stuðningsmanna sinna. Gott hjá honum. Vonandi nær hann kjöri.



John Kerry: „I would still have voted for Iraq war“ -- sýnir hvað hann yrði góður forseti eða þannig.